Athugið að þessi frétt er meira en 1 mánaðar gömul

Hirðfíflin á Vopnafirði

Þórdís Claessen

Í fallegu húsi við höfnina á Vopnafirði leynist undraveröld sem kallast Hirðfíflin.

„Unga fólkið er duglegt að koma og finna sér nýtilega hluti í búið“ segir Steinunn Gunnarsdóttir, stofandi Hirðfíflanna. Nytjamarkaðurinn er opinn á föstudögum og svo virðist sem hann sé mikilvægur fyrir mannlífið á Vopnafirði. „Hér er alltaf heitt á könnunni. Það vantar svona samkomustað og þá kemur fólk hingað“ segir Steinunn.

Á nytjamarkaðnum kennir ýmissa grasa. Sjá má býsnin öll af bollastellum og öðru leirtaui, barnaleikföngum og svo eru rútusæti til sölu. „Við erum líka að selja brodd frá Svínabakka. Hér er allt milli himins og jarðar!“ segir Steinunn.

„Það kemur fyrir að sami hluturinn er gefinn hingað, keyptur og gefinn aftur... og keyptur. Það finnst mér mjög skemmtilegt“.