Geitur fá unglingaveiki
Þorbjörg og Guðni á Lynghóli eiga myndarlegt geitabú auk þess sem þau halda sauðfé og naut. Geiturnar virðast hafa mikið aðdráttarafl því þær eru skemmtilegar í fasi og uppátækjasamar.
Þau segja fátt sameiginlegt með geitum og sauðfé, bæði í umhirðu og í fasi. Svo virðist sem geiturnar hafi háleitari sjálfsmynd og leiðast kindur yfirleitt og hrekkja þær óspart þegar sleppt er út á tún. Kiðlingarnir séu með eins konar unglingaveiki á vissu tímabili og vilja þá varla þýðast bændurna, þótt þeir hafi nánast legið í kjöltu þeirra áður. Svo gengur það tilbaka og þeir heimta athyglina.
Á Lynghóli er fjöldi mjólkandi geita. Þau framleiða ýmsar afurðir úr mjólkinni eins og ólíka osta og skyr. „Fólk er orðið opnara fyrir því að smakka og eftirspurn hefur aukist mikið“ segir Þorbjörg.