VÆB, Stebbi Jak og Ágúst áfram í úrslit Söngvakeppninnar
Fjör á samfélagsmiðlinum X
Þá er það ljóst!
Það eru bræðurnir í VÆB með lagið Róa, Stebbi Jak með Frelsið mitt og Ágúst með lagið Eins og þú sem fara áfram í úrslit Söngvakeppninnar. Þau fara fram 22. febrúar og þá verður framlag Íslands í Eurovision í Basel í Sviss valið.
Við höldum áfram næsta laugardag þegar önnur undanúrslit fara fram. Menningarvefur þakkar ykkur samfylgdina, þar til næst!
Símakosningunni er lokið
Vonandi eruð þið ekki farin neitt. Brátt fáum við að vita hvaða þrjú lög fljúga áfram í úrslit Söngvakeppninnar 22. febrúar!
Fannar, Sveppi og Pétur Jóhann heimsækja Ásgeir Kolbeins
Ekki banka upp á gott fólk í bili, hann er að horfa á sjónvarpið í faðmi fjölskyldunnar. Það er ekkert partí heima hjá Ásgeiri Kolbeins.
Siggi Hall kennir Gunnu Dís að gera Créme Brulée
Sjónvarpskokkurinn mætti á svæðið til að kenna Guðrúnu Dís Emilsdóttur að gera þennan frábæra eftirrétt í beinni útsendingu. Það verður eflaust ekki amalegt að mæta í matarboð til Gunnu eftir þessa kennslustund.
Ekki fara frá sjónvarpinu
Kynnar keppninnar, þau Gunna Dís, Fannar og Benni Hraðfréttamenn, hvhetja áhorfendur til að fara alls ekki frá sjónvarpinu. Ertu þá farinn, þann góða aldamótaslagara, fluttu þau að því tilefni.
Til liðs við sig fengu þau Þórólf Guðnason, Diddú, Gunna Óla, Dísellu Lárusdóttur, Bergþór Pálsson og Gissur Pál. Rosalegur flutningur.
Ekki gleyma að kjósa!
Flutningur VÆB
Flutningur BIU
Flutningur Ágústs
Það þýðir ekkert annað en að róa áfram þegar á móti blæs
Bræðurnir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir mynda hljómsveitina VÆB sem er sú fimmta á svið í kvöld með lagið Róa.
Matthías segir að það ætti ekki að koma neinum á óvart hvernig börn þeir voru. Hálfdán tekur undir það. „Við vorum æstir, virkir, stemningsmenn,“ segir Hálfdán. „Mikið shoutout á mömmu og pabba fyrir að nenna okkur sko.“
Sú hljómsveit sem hefur haft mest áhrif á þá í gegnum tíðina er Bítlarnir. „Ég hlusta endalaust á Bítlana og bara fæ ekki nóg af þeim,“ segir Hálfdán.
Þeir kepptu líka á síðasta ári með lagið Bíómynd og segjast nú vera mættir og reynslunni ríkari. „Það sem er ólíkt núna er að við komum inn í þessa keppni og núna með miklu meiri reynslu. Við þekkjum alla,“ segir Matthías.
Og lagið fjallar um að halda áfram þó að maður mæti hindrunum í lífinu. „Sama hvað bjátar á heldurðu áfram að róa,“ segir Matthías. „Það kemur alltaf eitthvað rugl til þín og reynir að draga þig niður en þú bara heldur áfram.“
Og áhorfendur eiga von á góðu. „Fólk má búast við alvöru gleðisprengju og allir vinir.“
Flutningur Birgo
„Fólk má búast við töfrum og að ég breytist í einhverja Disney-prinsessu“
Söngkonan Bia er sú fjórða á svið með lagið Norðurljós. Hún er 24 ára, fædd í Portúgal en hefur búið á Íslandi mestalla ævi.
„Það myndi koma á óvart hvernig ég var sem barn því ég var bara hoppandi meðfram veggjum að stinga alla af. Vissi ekkert hvað væri í gangi og var bara í tunglinu sko,“ rifjar hún upp og hlær.
Besta bók sem hún hefur lesið er It ends with us eftir Colleen Hoover og besti matur sem hún fær er kjúklingasalat sem tengdamóðir hennar gerir.
Lagið Norðurljós fjallar um að brjótast út úr skelinni, vera ákveðinn og standa með sjálfum sér. „Fólk má búast við töfrum og að ég breytist í einhverja Disney-prinsessu, því það mun gerast,“ segir hún kímin.
Flutningur Stebba Jak
Vill senda áhorfendum orku
Ágúst Þór Brynjarsson flytur lagið Eins og þú og er sá þriðji á svið í kvöld. Hann og er 25 ára Húsvíkingur sem býr á Akureyri. Hann er þakklátur fyrir að hafa slitið barnsskónum fyrir norðan. „Það hentaði mínum ofvirka persónuleika mjög vel að vera á svona litlum stað með allt sem maður þurfti.“
Sem barn hlustaði hann mikið á ABBA og Creedance Clearwater og gerir enn í dag, en uppáhaldslagið hans er Sultans of Swing með Dire straits.
Og lagið Eins og þú er ástarpopplag. „Lagið fjallar um hvað þú ert glaður að fá að elska einhvern. Þetta er gleði,“ segir hann.
Textann á hann auðvelt með að tengja við. „Uppáhaldslínan mín í laginu er: „Ég get verið fullhvatvís,“ því ég er það sjálfur.“
Hann finnur fyrir orku á sviðinu og vill senda hana til áhorfenda.
Birgitta Haukdal sendir keppendum kveðju
Kossar og knús á keppendur kvöldsins frá poppdrottningunni sem hvetur þau áfram, ekki síst nöfnu sína hana Birgittu. Ekki amalegt.
Alda var poppstjarna
Munið þið eftir Real good time? Þetta er Alda, lagahöfundur Stebba Jak á tíunda áratug.
„Trúi ekki að ég sé komin hingað“
Birgitta Ólafsdóttir eða Birgo eins og hún kallar sig er önnur á svið með lagið Ég flýg í storminn. Hún er upprunalega frá Tálknafirði en alin upp í Kópavogi, vinnur á sambýli og er að læra pródúseringu og tónlist í skóla í Bretlandi.
Hún segist hafa verið mjög virk sem barn og fjörug en róast með árunum. „Sem barn var ég alveg úti um allt. Ég er með mikið ADHD en varð aðeins feimin,“ segir hún. Með þátttöku í Söngvakeppninni sé hún þó að koma úr skelinni á nýt. „En barnið i mér er að koma út aftur.“
Í uppvextinum var hún mikill prakkari. „Þegar það var verið að skýra frænku mína til dæmis hljóp ég eftir gólfinu og sparkaði í prestinn því ég fílaði ekki að hann væri að setja vatn á hausinn á henni,“ segir hún og hlær.
Á barnsaldri taldi hún líka vissast að vara sig á álfum. „Ég trúði að álfar væru þjófar. Ef amma týndi einhverju voru það alltaf álfarnir sem stálu því en skiluðu því aftur þegar það fannst.“
Uppáhalds bókin hennar er Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur og hún nýtur þess að hlusta á hlaðvörp um morð.
Lagið fjallar um að finna hugrekki og halda áfram þó að á móti blási. Og hún vill fara alla leið. „Það eru ekki til orð til að lýsa því. Þetta hefur verið svo mikill draumur og ég trúi ekki að ég sé komin hingað yfir höfuð. “
Frelsið er það mikilvægasta sem við eigum
Stefán Jakobsson, eða Stebbi Jak eins og hann kallar sig, er fyrstur á svið með lagið Frelsið mitt. Hann er að norða, 45 ára gamall og giftur Kristínu Sif. Fimm barna faðir sem lýsir sér sem brallara og stússara.
„Það sem fólk biður mig að gera þá stundina, ef ég er klár og tilbúinn, þá geri ég það,“ segir hann. Hann hefur breyst í gegnum tíðina, var feiminn og hlédrægur áður en alls ekki lengur. „Sem barn var ég frekar feiminn og hljóðlátur, talaði lítið.... sem er akkúrat ekki staðan í dag.“
Hann segist eingöngu vera kallaður rokkari því hann sé í rokkhljómsveit, hljómsveitinni Dimmu, en hann hlýðir á allskonar tónlist.
Lagið Frelsið mitt fjallar eins og nafnið gefur til kynna um frelsi. „Það er það mikilvægasta sem við eigum og mikilvægt að minna á það reglulega hversu miklu máli. Mig langar að kýla því í sálartetrið á fólki,“ segir hann.
Og áhorfendur eiga von á góðu. „Á sviði má fólk búast við bestu útgáfuna af Stebba Jak sem það getur fengið. “
Aron Can opnar kvöldið
Stórkostlegur flutningur frá popparanum sem opnar kvöldið með lagið Poppstirni og strax í kjölfarið fylgir stórsmellurinn Monní. Það er gífurleg stemning í salnum enda fáir betri í að keyra hana upp.
Svona á að kjósa
Það þarf að kjósa sitt lag til að tryggja það áfram í úrslitin. Símakosningin stýrir úrslitum svo það er um að gera að kjósa sitt uppáhaldslag.
Áhorfendur geta kosið með tvennum hætti. Hægt er að hringja í númerið 900-99 og númer lag en svo er hægt að kjósa með RÚV Stjörnur appinu, sem hægt er að sækja í APP-store og Google play. Hægt er að kjósa að hámarki tuttugu sinnum í gegnum sínum og tuttugu sinnum í gegnum appið.
Röð laganna og símanúmer
Frelsið mitt - Stebbi JAK: 900-9901
Ég flýg í storminn - BIRGO: 900-9902
Eins og þú - Ágúst: 900-9903
Norðurljós - BIA: 900-9904
RÓA - VÆB: 900-9905
Söngvakeppnin fer af stað
Góða kvöldið gott fólk. Menningarvefurinn flytur fregnir af því sem fram fer á fyrri undanúrslitum Söngvakeppninnar. Vonandi er poppið komið í skálarnar og spenningurinn í loftið því að herlegheitin eru að hefjast. Í kvöld og næstu tvo laugardaga leggjum við til að þið verðið límd við viðtækin því við erum að velja framlag okkar í Eurovision í Basel í Sviss.
Hér eru nokkrir fróðleiksmolar:
- Undanúrslitakvöldin eru tvö, í kvöld og næsta laugardag. Fimm lög keppa hvort kvöld þar sem þrjú lög komast áfram eftir símakosningu áhorfenda. Það verða því sex lög sem keppa í úrslitunum. Þá vegur mat alþjóðlegrar dómnefndar helming á móti símaatkvæðum almennings.
- Hið svokallaða einvígi sem verið hefur síðastliðin ár á úrslitakvöldinu verður ekki í ár heldur notast við svipað fyrirkomulag og í forkeppni Svía, Melodifestivalen og Eurovision-keppninni sjálfri.
- Símakosning almennings ræður úrslitum.
- Eins og venjulega er boðið upp á ýmiss skemmtiatriði í keppninni. Í kvöld opnar Aron Can keppnina með lögunum Monní og Poppstirni. Kynnar keppninnar, þau Gunna Dís, Benni og Fannar, bregða einnig á leik og fá til sín góða og óvænta gesti.