Athugið að þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul

Skrifuðu bækur, gáfu þær út og opnuðu bókabúð fyrir jólin

Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Síðustu mánuði hafa nemendur setið sveittir við að semja skáldverk, taka viðtöl, stofna útgáfufélagið Þengilhöfða og útbúa margvíslegt handverk fyrir opnun búðarinnar.

Þórunn Rakel Gylfadóttir rithöfundur fer fyrir verkefninu, auk kennara á miðstigi skólans. „Við þurfum að efla þátt sköpunar í íslenskunni,“ segir Þórunn Rakel. „Við erum með þennan mikla bókmenntaarf og við stærum okkur af því að hér búi bókmenntaþjóð. Mín skoðun er sú að við þurfum að innlima þetta miklu meira inn í kennslu, þennan skapandi þátt.“

Hún segir það hafa verið gefandi að vinna verkefnið með krökkunum sem hafi blómstrað undanfarna mánuði. „Það sem líka hefur komið á óvart er að börn sem ekki hafa sýnt hefðbundnu íslenskunámi mikinn áhuga blómstra og fara á flug,“ segir hún.