VÆB og Aníta áfram í úrslit Söngvakeppninnar
Takk fyrir okkur!
Þá er fyrra undankvöldi Söngvakeppninnar 2024 lokið og við þökkum fyrir okkur frá Efstaleitinu.
Seinni undanúrslit verða næsta laugardag, 24. febrúar og verða þá seinni fimm lögin og aftur komast tvö áfram. Framleiðendur keppninnar áskilja sér að auki þann rétt að velja eitt lag áfram til viðbótar. Það verða því fjögur eða fimm lög sem komast áfram í úrslitin 3. mars.
Næsta laugardag eru það Hera Björk, Heiðrún Anna, Bashar Murad, Sigga Ózk og MAIAA sem etja kappi í Söngvakeppnisisstúdíóinu í Fossaleyni.
Takk fyrir samfylgdina!
VÆB og Aníta áfram í úrslit
Þjóðin hefur kosið fyrstu tvö lögin sem fara áfram í úrslit Söngvakeppninnar í Laugardalshöllinni 2. mars.
Það eru lögin Bíómynd með bræðrunum í VÆB og Stingum af með Anítu sem voru stigahæst í kvöld.
Lagið Stingum af er flutt af Anítu og samið af Ásdísi Maríu Viðarsdóttur og Jake Tench. Íslenskan texta samdi Ásdís María.
Lagið Bíómynd er samið og flutt af bræðrunum Hálfdáni Helga og Matthíasi Davíð Matthíassonum.
Sigríður Beinteinsdóttir heiðruð
Farið var yfir feril Sigríðar Beinteinsdóttur í Söngvakeppninni. Hún er einn þeirra tónlistarmanna sem hefur tekið þátt hvað oftast í keppninni og hefur menntað heila kynslóð söngvara.
Kynnt var til leiks Heiðurshöll Söngvakeppninnar sem er óáþreifanleg höll listafólks sem hefur komið nálægt Söngvakeppninni í gegnum tíðina. Sigríður hlaut fyrstu útnefningu í Söngvakeppnishöllina fyrir sitt framúrskarandi framlag til keppninnar í gegnum tíðina.
Þetta var bara allt geggjað og klikkaðslega gaman
Þegar Sigríður lítur til baka yfir öll þau skipti sem hún hefur tekið þátt í keppninni segir hún allar ferðirnar sem hún fékk að fara í standa upp úr. „Þetta er bara ógleymanlegt. Þetta er svo skemmtilegt og öll reynslan sem maður fær út úr þessu öll saman. Maður fílaði sig eins og drottningu þegar maður var úti í þessum keppnum,“ segir hún. „Þetta var bara allt geggjað og klikkaðslega gaman.“
Henni þykir Söngvakeppnin hafa þróast á mjög góðan hátt og vera komna í takt við tímann.
Gjafir og dvergarnir sjö
Virðing, æðruleysi og bullandi stemning eru kjörorð bræðranna í VÆB. Þeir komu inn í keppnina eins og hvirfilvindur og komu með mikla stemningu. Þeir mættu svo sannarlega ekki tómhentir og komu með gjöf handa kynnum.
Lagið Fiðrildi er fyrsta lagið sem Sunna samdi. Hún segist hafa samið það til sín sjálfrar. Dansarinn á sviðinu táknaði hennar innri djöful sem hún berst við. Sunna hefur lýst ferlinu sem draumi öskubusku og bauð Siggi Gunnars því Dvergunum sjö á svæðið.
Aníta kemur úr mikilli dans- og söngfjölskyldu. Móðir hennar er dansarinn Birna Björnsdóttir og á þrjár systur sem allar eru listakonur. „Þannig mér var gefið þetta í vöggugjöf, mér þætti gaman að sjá pabba minn leika þetta eftir.“
Ásdís María er höfundur tveggja laga í keppninni í ár. Hún keppti þó sjálf árið 2014 þegar hún söng lagið Amor. Hún segir það það virkilega skemmtilegt að koma inn sem lagahöfundur og stressandi á allt annan hátt. Hún sé full af stolti fyrir hönd flytjenda laga sinna.
Höfum heyrt öll lögin
Nú höfum við heyrt öll fimm lögin sem koma fram í kvöld. Tvö stigahæstu lög kvöldsins halda áfram í úrslitin laugardaginn 2. mars. Það er atkvæðagreiðsla almennings sem ræður för og hægt er að kjósa með því að hringja eða senda sms eða í gegnum appið RÚV stjörnur.
- Sjá þig – 900-9901
- RÓ. – 900-9902
- Bíómynd – 900-9903
- Fiðrildi – 900-9904
- Stingum af – 900-9905
„Þetta er eitthvað sem ég hélt að ég gæti ekki gert“
Síðasti keppandinn á svið er Aníta Rós Þorsteinsdóttir með lagið Stingum af. Lagið er kraftmikið segir Aníta það vera nett og kynþokkafullt. „Þetta er draumalagið. Og Ásdís er náttúrulega bara poppdrollan þannig ég gæti eiginlega ekki verið í betri höndum,“ segir hún um Ásdísi Maríu Viðarsdóttur sem samdi lagið ásamt Jake Tench.
„Atriðið sem við erum búin að búa til í kringum lagið, ég myndi segja að það sé í nákvæmlega sama pakka og ég lýsi þessu lagi. Það er kraftmikið, það er sexý og það er nett,“ segir Aníta. Með henni á sviði verða fjórir dansarar, þar á meðal yngri systir hennar. Sjálf er Aníta atvinnudansari en hún hefur ekki komið fram sem söngvari á sama tíma áður.
„Það er alvöru dæmi að syngja og dansa á sama tíma. Ég myndi segja að það væri mest krefjandi fyrir mig, að þjálfa upp þolið til að dansa og syngja,“ segir Aníta. Hún hafi æft sig heima með því að sippa eða hlaupa á staðnum og syngja um leið. Blessunarlega búi hún á jarðhæð en hún vorkennir nágrönnum sínum fyrir ofan sig.
„Það hefur alveg blundað í mér draumur að taka þátt í Söngvakeppninni. Ég hef verið mikill aðdáandi síðan ég var barn,“ segir Aníta sem á bæði fjölskyldu og vinafólk sem hefur keppt áður, þar á meðal móðursystir hennar, Selma Björnsdóttir. „Ég hef alltaf horft alveg stíft og fylgst með öllu.“
Ferlið segir hún hafa verið virkilega skemmtilegt. „Ég er bara umkringd frábæru fólki alla daga. Sama hvar ég kem þá er alltaf einhver fagmaður sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera, tilbúinn að taka við hugmyndum manns og gera þær að veruleika.“
„Þetta er eitthvað sem ég hélt einhvern veginn að ég gæti ekki gert og myndi aldrei gera,“ segir Aníta. „En ég er bara hér og geri þetta. Bara vera með þessu geggjaða fólki, það er eiginlega það skemmtilegasta.“
Hún segir lagið vera poppsprengju og vill hún að allir syngi og dansi með. „Og bara hafi gaman!“
Hægt er að kjósa lagið Stingum af í síma 900-9905
„Maður getur ekki verið hugrakkur nema maður sé hræddur“
Næst á svið er Sunna Kristinsdóttir sem kemur fram undir listamannsnafninu SUNNY. Lagið hennar Fiðrildi fjallar um að yfirstíga erfiðleika. „Það er mjög persónulegt. Þetta er svona lag sem allir ættu að geta tengt við,“ segir hún. „Við förum öll í gegnum einhvers konar sorg eða missi eða áföll og rosalega mörg okkar díla við það með því að loka okkur af. Ég gerði það.“
Hún segist ekki hafa haft trú á sér en ákvað að endingu að slá til og semja sína eigin tónlist. „Þá allt í einu leið mér eins og ég gæti flogið. Þá samdi ég þennan texta, þetta er bara eins og fiðrildi að fá að komast út úr púpunni sinni.“ Lagið samdi hún ásamt Nikulási Nikulássyni.
Tónlist Sunnu er óhefðbundin hér á landi, drum & bass, og þætti henni mjög gaman að geta komið henni á framfæri með laginu sínu. „Ég væri mjög stolt ef það gæti fengið pláss.“ Sviðsetningin er innblásin af dragkeppnum sem Sunna segist vera mikill aðdáandi af.
Sunna segist hafa sungið á hverjum degi frá því hún var barn. „En ég hélt aldrei að ég myndi fá svona stórt tækifæri, þannig að mér líður eins og öskubusku,“ segir hún um að taka þátt í Söngvakeppninni. „Þetta er búið að vera þvílíkur rússíbani. Það er buið að vera svo mikið í gangi og maður er búinn að vera svolítið óöruggur en á sama tíma er þetta svo skemmtilegt.“
„Ég er að gera þetta allt í fyrsta skipti. Ég fer bara þarna upp og geri þetta og það er sigur út af fyrir sig,“ segir Sunna. Það sé svolítið taugatrekkjandi að taka sín fyrstu skref í tónlistarbransanum á svo stóru sviði.
„Þetta er 100 prósent pepplag fyrir fólk sem vill líða betur og finna kraft og hugrekki. Ég verð langstoltust af sjálfri mér fyrir að hafa getað þetta. Af því að það er líka það sem lagið snýst um.“
„Maður getur ekki verið hugrakkur nema maður sé hræddur. Ég held að það séu skilaboðin sem ég vil gefa fólki. Ég er skíthrædd en ég ætla að gera þetta.“
Hægt er að kjósa lagið Fiðrildi í síma 900-9904
Sekkjapípur og vinsælir kærastar
Lagið Sjá þig með Blankiflúr samdi systkinahópurinn FIMM sem samanstendur af Hólmfríði, Páli Axel, Kristínu , Alberti og Sólveigu Sigurðarbörnum. Þau ólust upp á miklu tónlistarheimili þar sem foreldrar þeirra pössuðu að þau hefðu nægt aðgengi að hljóðfærum. Eina hljóðfærið sem bannað var á heimilu voru sekkjapípur.
Hópurinn veitti því Ragnhildi Steinunni sekkjapípu til að koma vandræðunum yfir á hana.
Lagið RÓ. er samið af Hafsteini, eða CeaseTone, og Halldóri Eldjárn. Íslenskan texta samdi hin ástkæra Una Torfadóttir sem er jafnframt kærasta Hafsteins.
Lífið skemmtilegra með bróður sér við hlið
Þriðjir á svið eru bræðurnir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir sem mynda saman dúettinn VÆB sem þeir stofnuðu í gríni en varð óvænt að starfsframa. Þeir keppa með laginu Bíómynd og sömdu þeir bæði lag og texta.
Fyrsta minning þeirra bræðra af Söngvakeppninni er frá árinu 2008 þegar móðir þeirra, Áslaug Helga Hálfdánardóttir, keppti með lagið Lífsins leið.
Aðeins eitt ár er á milli þeirra bræðra og segir Hálfdán Helgi að yngri bróðir sinn fylgi í hans hvert fótspor. „Allt sem ég geri, Matti eltir mig.“ Hann steig fyrst fram sem söngvari árið 2015 þegar hann tók þátt í og vann söngkeppnina Jólastjarnan fyrir Jólagesti Björgvins Halldórssonar. „Þá var Matti bara allt í einu kominn á sviðið fyrir aftan mig,“ rifjar hann upp. Í raun eigi þetta við um þá báða því þegar Matthías Davíð var fenginn til að talsetja sjónvarpsefni var Hálfdán Helgi kominn í það líka. „Vill ekki bara bróðir þinn vera með,“ eru orð sem þeir hafa oft fengið að heyra.
„Við erum svolítið mikið að vinna bara saman, við strákarnir,“ segir Matthías Davíð. „Við erum besta teymið. Það er alltaf miklu skemmtilegra að gera það með brósa,“ bætir Hálfdán Helgi við. Undir þetta tekur Matthías Davíð og segir lífið skemmtilegra með bróður sinn sér við hlið.
Í laginu Bíómynd mætist allar stefnur kvikmyndagerðar. „Þetta er hryllingsmynd, gamanmynd, spennumynd. Bara allt. Þetta lag er bara hin fullkomna bíómynd,“ segir Matthías Davíð og má vænta þess að atriðið verði slíkt hið sama.
Með þeim á sviði muni hinar ýmsu persónur hvíta tjaldsins birtast en þeir gefa ekkert upp hverjum áhorfendur megi búast við. „Það er leynigestur. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi vera kemur á svið í Söngvakeppnissögunni,“ segir Hálfdán Helgi.
„Að taka þátt í þessari keppni er bara ekkert eðlilega mikil stemning,“ segir Matthías Davíð og undir það tekur bróðir hans. Það sé mikið gert úr keppninni og þeir hafi alltaf nóg fyrir stafni. „Það er svo gaman að vakna og fara inn í daginn vitandi að við erum að fara að gera eitthvað, alltaf,“ segir Hálfdán Helgi.
Þeir furði sig þó á því orðspori sem þeir hafi fengið fyrir að vera seinir. Þeir mæti nefnilega alltaf tímanlega og gefi skjót svör. „Ég skil ekki hvaðan þetta kemur,“ segir Matthías Davíð. Mögulega séu keðjurnar og sólgleraugun að blekkja.
Það skemmtilegasta við keppnina þykir þeim að hafa fengið að kynnast öllum sem að henni kemur og segjast þeir vera með draumateymi í alla staði. „Þetta verður alvöru bíómynd. Mikil ást.“
Hægt er að kjósa lagið Bíómynd í síma 900-9903
„Fyrir mig persónulega er þetta algjört ferðalag“
Tónlistarmaðurinn Hafsteinn Þráinsson, eða CeaseTone, er annar á svið með lagið Ró. Hann segir lagið vera „vel pakkað ferðalag“ sem byrjar lágt niðri og endi mjög hátt uppi. „Maður er svolítið að reyna að troða inn eins miklu og maður getur í þessar þrjár mínútur sem maður fær.
Lagið samdi hann ásamt Halldóri Eldjárn sem sviðsetti einnig atriðið með Hafsteini. „Hann er meiri myndlistarmaður en ég þannig það er búið að vera mjög gott að hafa hann að leiða svolítið myndrænu hliðina á þessu öllu saman. Og svo í samstarfi við allt geggjaða listræna teymið sem fylgir Söngvakeppninni. Þá erum við bara búin að móta eitthvað sem ég held að við getum verið mjög stolt af,“ segir Hafsteinn. Íslenskur texti lagsins er eftir Unu Torfadóttur.
„Það er búið að vera ótrúlega gaman að taka þátt í þessari Söngvakeppni,“ segir Hafsteinn. „Fyrir mig persónulega er þetta algjört ferðalag, á sama tíma mjög krefjandi og mjög gefandi.“
Honum þyki mikilvægt fyrir alla að stækka sífellt út þægindarammann. „Alltaf vera að finna eitthvað nýtt, búa sér til smá áskorun í lífinu og enduruppgötva hver maður er og hver maður getur verið. Þessi keppni er sérstaklega búin að vera það fyrir mig.“
Duglegur að koma sér í verkefnaklessu
Hafsteinn hefur verið iðinn við kolann í tónlistarbransanum árum saman og unnið með fjölda íslenskra og erlendra tónlistarmanna. „Það er alveg týpískt af mér, eins og ég hef oft gert áður í gegnum lífið, að koma mér í algjöra verkefnaklessu,“ segir hann því Söngvakeppnin krefjist mikils tíma og æfinga. „Maður er að reyna að gera einhverjar sinfóníuútsetningar, klára einhverja poppplötu, gera einhverja bíómyndatónlist og undirbúa sig fyrir næsta túr. Maður þarf að troða því einhvern veginn þarna á milli.“
Hann segir þó ástæðuna fyrir því að hann komi sér ávallt í þessar klessur sé vegna þess að hann hafi svo rosalega gaman að því. „Mig langaði ekki að segja nei við neinu af þessu. Það er bara draumur að fá að gera alla þessa hluti.“
Hann segir það bæði geta verið gott og slæmt að halda mörgum boltum á lofti í einu. „Þá eyðir maður ekki of miklum tíma í að mikla neitt fyrir sér, maður er bara að gera meira í staðinn fyrir að hugsa.“
Atriðið segir hann vera fábrotið en þannig fái stóru augnablikin að njóta sín best. „Maður er að leita að litnum í svarthvítum heimi,“ segir hann. „Ég vona bara að ég geti tekið áhorfendur með mér í svolítið gott ferðalag þar sem við fáum að upplifa allan tilfinningaskalann.“
Hægt er að kjósa lagið Ró. í síma 900-9902
Þarf að vera trú sér og sínu hjarta
„Lagið okkar í ár er svolítið dularfullt, það er smá reiði í því en aðallega er það bara ógeðslega svalt og ógeðslega kúl,“ segir Inga Birna Friðjónsdóttir sem stígur nú fyrst keppenda á svið undir listamannsnafninu Blankiflúr með laginu Sjá þig.
Inga Birna segist hugsa lög í litum og sér þetta fyrir sér sem fjólublátt, svart og bleikt. „Ég myndi lýsa laginu þannig en það er nú kannski ekki það sem flestir sjá,“ segir hún og hlær. Hún segir undirbúninginn hafa gengið vel og verður sviðsetningin dýnamísk með miklum dansi og grafík. „Það er bara allt sem maður getur óskað sér,“ segir hún.
Inga Birna er menntuð í fatahönnuð og ákvað því að taka af skarið og hanna búning kvöldsins sjálf. „Sem gæti verið gott eða slæmt vegna þess að maður veit aldrei, kannski finnst fólki búningurinn minn ekkert flottur,“ segir hún kát í bragði. „En ég hugsaði að ég þurfi bara að vera trú minni sýn og mínu hjarta og halda áfram að skapa.“
Sköpunin sé einmitt það sem henni þykir vera það skemmtilegasta við þetta ferli. „Við erum að skapa lag en svo fáum við að gera allt þetta sjónræna líka sem er mér svo hugleikið, það er toppurinn á þessu finnst mér.“
Hún segir áhorfendur mega búast við mikilli einlægni frá sér á sviðinu og ástríðu. „Og vonandi litum og gleði og góðri orku.“
Hægt er að kjósa lagið Sjá þig í síma 900-9901
Tökum af stað!
Sigríður Beinteinsdóttir og Friðrik Ómar fóru yfir perlur Söngvakeppnissögunnar í sjóðheitu opnunaratriði.
Atkvæðagreiðsla
Sem fyrr er það símakosning almennings sem ræður hvaða lög komast í úrslit. Hægt er að kjósa sitt lag með því að hringja í númer laganna eða senda sms. Þar að auki er hægt að greiða atkvæði með appinu RÚV stjörnur líkt og í fyrra.
Hægt er að kjósa hvert lag að hámarki 20 sinnum með hverjum hætti.
Lögin verða flutt í þessari röð:
Sjá þig – 900-9901
RÓ. – 900-9902
Bíómynd – 900-9903
Fiðrildi – 900-9904
Stingum af – 900-9905
Söngvakeppnin 2024 hafin
Það er til margs að hlakka í kvöld því fyrri undanúrslit Söngvakeppninnar hefjast innan skamms. Fimm lög, af þeim tíu sem bítast um að sigra keppnina, verða flutt í beinni útsendingu frá Söngvakeppnisstúdíóinu í Fossaleyni.
Kynnar kvöldsins eru þau Unnsteinn Manuel, Ragnhildur Steinunn og Siggi Gunnars. Auk keppenda munu hin ástsælu Sigríður Beinteinsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson stíga á stokk og skemmta áhorfendum.
Anna María Björnsdóttir verður á vaktinni og greinir frá öllu því helsta sem fer fram í kvöld. Fylgist vel með!