Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Flóttafólk frá Úkraínu og Venesúela flytur leiksýningu á íslensku

Bergsteinn Sigurðsson

Ásgeir Sigurvaldason leikstýrir hópnum, sem hann setti saman ásamt Olenu Kozhukharov leikkonu frá Úkraínu. Þau kynntust þar í landi rétt fyrir innrás og aðstoðaði Ásgeir Olenu að koma til Íslands í kjölfar innrásarinnar.

Tólf manns taka þátt í sýningunni. Hún samanstendur bæði af einræðum, þar sem fólkið rekur sögu sína, en líka glettnislegum leikþáttum fyrir yngri kynslóðina. Upphaflega var bara Úkraínufólk á æfingum, en fljótlega fór Rauði krossinn að taka þátt og þá bættust við þátttakendur frá Venesúela.

„Við höfum spunnið þetta af fingrum fram og úr því varð leikrit en upphaflega var hugmyndin sú að kenna íslensku,“ segir Ásgeir. „Mig langaði að gefa fólki verkfæri til að hjálpa fólki að komast inn í íslenskt samfélag, sem er íslenskan.“