„Ef menn sjá fyrir sér að þetta sé raunverulegt og til þá ættum við náttúrulega ekkert að hugsa um neitt annað, ég get alveg tekið undir það,“ segir Þorgeir  Tryggvason gagnrýnandi Kiljunnar um lokakaflann í bók Hermanns Stefánssonar.

Millibilsmaður er nýjasta skáldverk Hermanns Stefánssonar og er heimildaskáldsaga frá fyrstu árum 20. aldarinnar. Sagt er frá læknishjónum sem eru nýflutt að norðan til Reykjavíkur þar sem mikið fár geisar yfir hinni nýju stefnu, spíritismanum. „Það er bæði þessi togstreita á milli vísindanna og andatrúarinnar, á sama tíma og andatrúarmennirnir trúa því statt og stöðugt að þeir séu að stunda vísindarannsóknir,“ segir Þorgeir Tryggvason. 

Læknirinn er byggður á hinum raunverulega Guðmundi Hannessyni sem kemur þarna inn og hyggst reyna að fletta ofan af þessu öllu saman. „En það gengur svona brösuglega. Og svo blandast inn í þetta stjórnmálin því það er ekki bara kirkjan sem er klofin heldur stjórnmálin sem skiptast í fylkingar eftir því hvernig þau sjá fyrir sér lífið fyrir handan.“ 

Sagan sé svolítið brotakennd og leyfir höfundur efni sínu að taka dálítið af sér völdin að mati Þorgeirs. „Hann er að segja sögu læknisins og eiginkonu hans sem er mikill skörungur og áhrifarík persóna í bókinni,“ segir hann. „Og svo þessum miðli sem er að glíma við þessa gáfu sína sem er nú líka hálfgerð bölvun og svo allir mennirnir sem eru að ráðskast með hann.“ Inn í allt þetta blandar Hermann bréfum, blaðagreinum og alls kyns þess háttar texta. „Þetta er brotakennt og sumt er, verður að segjast, talsvert meira áhrifaríkt en annað. Kannski langar mann svolítið að þetta væri meira samfellt og skýrara uppbyggt,“ segir Þorgeir. 

„En á móti kemur að fyrir hvern kafla sem manni finnst ekki ná flugi kemur annar skemmtilegur fljótlega á eftir sem bjargar þessu svolítið fyrir horn,“ segir Þorgeir og bætir við að lokakaflinn geri heilmikið fyrir bókina í heild. „Þar sem læknirinn, skynsemishyggjumaðurinn mikli, liggur fyrir dauðanum og hugleiðir þessi mál og framtíð sína. Þá nær hann einhverjum verulega áhrifaríkum tóni. Mér fannst sá kafli svolítið setja alla bókina í nýtt samhengi fyrir mér.“ 

Kolbrún Bergþórsdóttir tekur undir að söguefnið sé mjög heillandi og bjóði upp á ýmsa möguleika. „Mér fannst þó of mikill ýkjustíll á þessu og mér finnst persónurnar vera fígúrur, frekar en af holdi og blóði. Þess vegna nær maður ekki nægilegum tengslum,“ segir hún. „En inn á milli koma skemmtilegir hlutir.“ Hún hefði þó viljað hafa bókina lágstemmdari og fá meiri dýpt í hana.  

Þorgeiri þykir þó sanngjarnt að bæði sanntrúaðir spíritistar og heittrúaðir vísindahyggjumenn verði gerðir að hálfgerðum fígúrum. „Mér finnst það fara þeim ákaflega vel,“ segir Þorgeir og hlær. Honum þykir mjög skemmtilegt fá stemninguna í Reykjavík á þessum tíma þar sem fólk var heltekið af þessum hugmyndum. „Enda skiljanlega, ef menn sjá fyrir sér að þetta sé raunverulegt og til þá ættum við náttúrulega ekkert að hugsa um neitt annað, ég get alveg tekið undir það,“ segir Þorgeir. 

Þorgeir Tryggvason og Kolbrún Bergþórsdóttir fjölluðu um Millibilsmanninn í Kiljunni á RÚV. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.