Jóladagatöl í sjónvarpi hafa verið hluti af jólahefðum Íslendinga frá 1988. Berglind Festival fór á stúfana og kynnti sér hvernig er best að búa til vinsælt jóladagatal.
Jólin nálgast í Kærabæ eftir Iðunni Steinsdóttur var fyrsta jóladagatal Ríkissjónvarpsins og þar fóru jafnt leikarar sem brúður á kostum. Frá árinu 1990 hafa jóladagatöl verið árviss viðburður í jólahátíð Íslendinga og mörg náð að festa sig rækilega í sessi í jólaminningum þjóðarinnar. Sigrún Eldjárn, rithöfundur, skrifaði jóladagatalið Stjörnustrák fyrir Ríkissjónvarpið árið 1991. Það hefur verið endursýnt nokkrum sinnum en hún segir það standa illa tímans tönn. „Ég eignaðist þessa þætti og horfði á þá í fyrra,“ segir hún. „Þeir eru svolítið púkalegir.“
Annað eftirminnilegt jóladagatal er Hvar er Völundur? eftir Þorvald Þorsteinsson sem var fyrst sýnt 1996. Þar fór gríndúóið Gunni og Felix með aðalhlutverkin á hátindi vinsælda sinna. „Það þarf að vera spenna í hverjum einasta þætti,“ segir Felix um það hvernig búa eigi til gott jóladagatal. „Það þarf alltaf að vera cliff-hanger þannig að þig langi að horfa á næsta þátt.“
Innslag Berglindar er hér fyrir ofan og Vikuna með Gísla Marteini má finna hér í spilaranum.