Pálmi V. Jónsson, öldrunarlæknir og fyrrverandi yfirlæknir á Landspítalanum, er einn þeirra sem kom að undirbúningi Lífsskráarinnar á sínum tíma. Hann telur mikilvægt að hlustað sé á vilja fólks þegar kemur að lífslokameðferð.
„Mér finnst eldra fólk upp til hópa yfirvegað og skynsamt og átta sig alveg á stöðu sinni. Þess vegna er það okkar skylda að halda ekki upplýsingum frá fólkinu. Það er að vinna með fólkinu því að oft getum við til dæmis gert hluti en það er ekki víst að það sé í þeirra þágu. Og fólk er venjulega þakklátt fyrir þetta samtal. Það er svolítið svipað og ég held að ýmsir væru þakklátir fyrir aðgang að lífsskránni og geta skráð sínar óskir. En síðan gerist þetta líka í tengslum við alvarlega sjúkdóma og það er ákveðin fjárfesting í heilbrigðisþjónustunni og þjónustunni sem við erum með að taka þetta þetta samtal. Því það setur alveg stefnuna,” segir Pálmi.
Mikilvægt að opna umræðuna
Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands og félagi í Lífsvirðingu. Félagið vill að Alþingi samþykki lög, um að dánaraðstoð verði heimiluð hér á landi, að uppfylltum ströngum skilyrðum. Sigrún segir að það sé mikilvægt að opna umræðuna um dauðann en í könnun Lífsvirðingar frá því í haust kemur fram að mikill meirihluti þátttakenda vildi geta fengið aðstoð læknis hérlendis við að binda enda á líf sitt ef viðkomandi væri þungt haldinn og með ólæknandi sjúkdóm.
Sigrún segir að það sé mikið að gerast í þessum málum og heilbrigðisstarfsfólk miklu meðvitaðra en áður um hvernig eigi að virða lífið.
„Hluti af því að virða lífið er að líka að virða dauðann og það eru nokkur lönd á Vesturlöndum sem hafa sett nýja löggjöf og þróað leiðir til þess að gera fólki kleift að ákveða meira sjálft. Þetta er auðvitað mjög siðferðilega flókið mál og engin einföldun til í því. En það sem ég held að mestu máli skipti sé að opna umræðuna og hver og einn hugi að sínum endalokum. Til dæmis að fá greiningu á alvarlegum sjúkdómi það eru ekki allir sem eru tilbúnir í einhverja baráttu í þeim efnum. Kannski eftir 75, 85, 95. Fólk vill bara kannski fá að láta sig hverfa með einhverjum góðum hætti. Sátt við lífsstarfið og einkalífið, allt sem liggur eftir. Að þurfa ekki að fara í gegnum, ég vil leyfa mér að segja þá niðurlægingu, að verða viðfangsefni, endalaust viðfangsefni fyrir aðra og tapa þannig smám saman sinni reisn. Og það er alveg sama hvað heilbrigðisstarfsfólk er vel menntað og vill vel að ég held að það ráði ekki við þessar tilvistarspurningar. Ég held að hver og einn þurfi að gera upp einhvern veginn sig huga,” segir Sigrún.
Halldór S. Guðmundsson, dósent við Háskóla Íslands og höfundur skýrslunnar Virðing og reisn, samþætt heilbrigðis- og félagsþjónusta fyrir eldra fólk, segir að hægt sé að gera meira til þess að gefa fólki möguleika á að deyja heima. Að vera næst sínu fólki og þjónustan komi heim til fólks í stað þess að líknaþjónustan sé bara í boði á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.
Ekki stofnanavæða dauðann
„ Ég veit að þetta er gert á Íslandi og við þurfum svolítið að vinna með það að þetta sé virkilegur valmöguleiki í stað fyrir að segja að dauðinn sé stofnanavæddur, segir Halldór í sjöundaþættinum Lífið eftir vinnu, að eldast á Íslandi, sem var á dagskrá Rásar 1 á föstudag.
Nú er áratugur heilbrigðrar öldrunar hjá Sameinuðu þjóðunum. Verkefni áratugarins er að breyta viðhorfum og hvetja til samstilltra aðgerða sem miða að því að breyta hugsun og hegðun gagnvart aldri og öldrun og þróa samfélagið til að hlúa betur að getu eldra fólks.
Halldór segir að það þurfi aðveita öldruðum persónumiðaða, samþætta umönnun og heilbrigðisþjónustu og tryggja aðgengi þessa hóps að langtíma umönnun þegar þess þarf. Virðing og reisn eru lykilhugtökin í því ferli.
Halldór færir rök fyrir því í skýrslu sinni að þeim miklu fjármunum sem fara í þennan málaflokk sé að mörgu leyti óskynsamlega varið. Koma þurfi á samhæfðari og betri þjónustu og breyta um stefnu með því að leggja stóraukna áherslu á að styðja eldra fólk enn betur í því að búa heima eins lengi og kostur er.
Þátturinn er á aðgengilegur í spilara RÚV og á helstu streymisveitum.