Söngkonan Sigga Beinteins lét sig ekki vanta á Aðventugleði Rásar 2 og flutti landsmönnum ljúfa tóna með lögunum Litli trommuleikarinn og Senn koma jólin ásamt undirleik Kalla Olgeirs.  

Annað kvöld verður Sigga með tvenna stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu og er farin að hlakka mikið til. Þetta er í þrettánda skipti sem söngkonan heldur slíka tónleika og segir það alltaf jafn skemmtilegt. „Það er slatta vinna í kringum þetta en það er alltaf jafn gaman,“ segir hún. Í boði verður hátíðleg dagskrá í bland við stuðlög inni á milli. „Svo erum við kannski að syngja lög sem eru ekki endilega jólalög því söngvarar, þeir fá aldrei að syngja þessi stóru lög nema bara á einhverjum svona stöðum,“ segir Sigga. „Þannig að þá nýtir maður tækifærið svo maður fái einhvern tímann að prófa þessi lög.“ 

Sjálf er Sigga mikið jólabarn og byrjar að spila og hlusta á jólalögin um leið og þau fara að óma í útvarpinu, hún er jafnframt ein þeirra sem hringir inn og þrýstir á útvarpsfólk að spila lögin fyrr.  

Fyrir stórtónleika fer Sigga alltaf í heitt og gott bað þar sem hún fer yfir dagskrána í höfðinu og hvað hún ætli sér að gera. Á sunnudaginn ætlar hún hins vegar að liggja flöt í spennufalli og henda í góða jólamynd.  

Sigga flutti lagið Litli trommuleikarinn sem var á jóladisk hennar Desember sem kom út árið 1993. „Þessi útgáfa hefur lifað voða lengi og vel. Það hefur hefur alltaf staðist tímans tönn og er alltaf spilað dálítið mikið,“ segir hún og passar sig að hafa það ávallt á lagalistanum á jólatónleikum sínum. „Ef ég spila það ekki þá fæ ég mikið af kvörtunum,“ segir hún og hlær. „Það eru nokkur lög sem fólk vill bara hafa, enda heyrast þau bara einu sinni á ári.“ Einnig tók hún lagið Senn koma jólin sem er með fyrstu jólalögunum sem hún söng.  

Hægt er að fylgjast með Aðventugleði Rásar 2 í beinni útsendingu hér á RÚV.