Tónlistarmennirnir Jón Jónsson og Friðrik Dór voru á Aðventugleði Rásar 2 með stórskemmtilegan flutning á Jólabróður, nýju lagi eftir þá bræður.

Poppstjörnubræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir gáfu nýverið út lagið Jólabróðir. Textinn er um æskujól þeirra. „Þetta er sannsögulegur texti um að halda jól og jólahefðir á okkar æskuheimili,“ segir Friðrik Dór. „Svo kemur náttúrlega sannleikurinn í ljós um hve mikið við söknum hvor annars núna þegar við erum orðnir stórir og erum ekki saman á aðfangadag. Þeir skora á aðra bræður að feta í fótspor sín og gefa út jólalag saman og nefna sérstaklega Unnstein Manuel og Loga Pedro.  

Á fullorðinsárum hafa þeir skapað eigin jólahefðir með börnunum sínum. „Ég veit að mamma fyrirgefur mér fyrir þetta; hún eldaði alltaf dýrindis mat en henni hefur aldrei þótt gaman að elda. Það var meira bara til að halda lífi í okkur,“ segir Jón. Eiginkonur þeirra bræðra hafa aftur á móti mikla ástríðu fyrir matargerð það er mikil nýjungagirni um hátíðirnar á heimilum þeirra.  

Það getur verið erfitt að bíða eftir að hátíðin gangi í garð en Friðrik telur að börnin hafi ekki tíma til að hugsa um jólin því það sé svo margt annað að gerast. „Maður þarf að taka á móti jólaálfum og jólasveinunum og svo eru dagatöl. Þetta er svo mikil vinna að þau ná ekki alveg að hugsa um aðfangadag, það er svo margt annað.“ 

„Svo er þetta svo þægilegur mánuður því það er hægt að vera í svo miklu hótunaruppeldi,“ bætir Jón við og hlær. Það sé hægt að minna börnin á Jólaköttinn og Grýlu sem nappi þeim séu þau ekki þæg. „Þau eru svo hrædd í desember.“ 

Bræðurnir verða með stórtónleika 17. desember í Kaplakrika og verða þar á sínu öðru æskuheimili. Þeir lofa ævintýralegu stuði.  

Bræðurnir tóku líka lagið Í síðasta skipti, sem tryggði Friðrik Dór sæti í bakraddasveit Íslands í Eurovision 2015. „Þegar ég var í alsvörtum klæðnaði rétt fyrir utan sviðsljósið og naut mín í botn,“ segir hann og hlær. Hann rifjar upp fyrsta undankvöldið fyrir Söngvakeppni sjónvarpsins þegar hann reif buxurnar sínar. „Ég var svo stressaður þetta fyrsta undankvöld að það var alveg galið.“  

Aðventugleði Rásar 2 er í beinu streymi hér á RÚV.