Söngvarinn og grallarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson flutti tvö lög á Aðventugleði Rásar 2. Lögin eru gjörólík annars vegar hugljúft, frumsamið lag og hins vegar rokkútgáfa af þekktu lagi. Með honum spilaði Þórður Sigurðarson á Hammond og harmóniku.
Sá tími er genginn í garð þegar Eyþór Ingi heldur jólatónleika víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og varla eru auglýstir svo tónleikar að söngvarinn sé ekki meðal heiðursgesta. „Ég hef ekki talið þetta saman en þetta er ekkert svo mikið,“ maldar Eyþór Ingi þó í móinn. Hann segist sjálfur halda nokkra tónleika hist og her en hann kemur líka fram með Friðriki Ómari og er einn af jólagestum Björgvins Halldórssonar.
Ekki er annað hægt en að komast í geysilegt hátíðaskap á þessum tímum og Eyþór Ingi segist skemmta sér vel á tónleikunum. „Ég er með mína tónleika þar sem ég og Þórður Sigurðarson spilum saman og svo er ég að bulla á milli laga og haga mér eins og kjáni.“
Eyþór Ingi byrjaði á laginu Desemberljóð sem hann samdi með vinkonu sinni, Nínu Richter. „Lagið tileinka ég ótímabæru fráfalli afa míns,“ segir hann. „Stundum er þetta þannig að það vantar einhvern við borðið þó að jólaskrautið sé á sínum stað, það getur verið mjög erfitt.“
Að endingu skiptu þeir félagar algjörlega um gír og tóku rokkútgáfu af laginu Það á að gefa börnum brauð þar sem Þórður rokkaði á nikku.
Hér er hægt að fylgjast með Aðventugleði Rásar 2 í beinni útsendingu.