„Ég er afar þakklát fyrir tækifærið til að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands; fyrir að geta spilað, unnið fyrir launum og styrkt fjölskyldu mína heima í Úkraínu. En á sama tíma finnst mér stundum eins og öll þessi fallega tónlist sem við erum að spila sé eins og undirleikur fyrir heimsendi, þegar ég hugsa um hvað er að gerast í Úkraínu,“ segir Kateryna Mysechko, fiðluleikari frá Úkraínu, sem nú spilar með Sinfóníunni. Hún óttast um fjölskyldu sína og eiginmann, sem er hermaður í Úkraínu.

Kateryna var nýkomin til Ítalíu á tónleikaferð, þegar Rússar réðust inn í heimaland hennar, 24. febrúar í vor. „Við vorum nýlent; vorum búin að vera á Ítalíu í nokkra klukkutíma, þegar við fréttum af þessu. Við vorum auðvitað öll að búast við að eitthvað myndi gerast, en ekki sama dag og við áttum að koma fram. Ég man að ég átti erfitt með að standa upprétt meðan á tónleikunum stóð og ég skil eiginlega ekki hvernig ég komst í gegnum dagskrána - þetta var mjög erfitt fyrir mig og félaga mína sem voru með mér.“

Kateryna spilaði áður með kammersveit í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, en síðan innrásin hófst, hefur hún komið fram víða í Evrópu, þar á meðal á Íslandi fyrir um tveimur mánuðum, þar sem hún spilaði með Veru Panitch, öðrum konsertmeistara Sinfóníunnar á tónleikum sem samtökin Artists 4 Ukraine skipulögðu. Úr varð að Katerynu var boðinn tímabundinn samningur hjá Sinfóníunni, sem hún segist vera afar þakklát fyrir.

„En hugur minn er alltaf hjá mínu fólki í Úkraínu og ég finn fyrir sársauka í hvert skipti sem ég les um fólk sem deyr í árásum, nauðganir og pyntingar, því þetta gæti verið ég sjálf. Á sama tíma bý ég í öruggu umhverfi, er með vinnu og húsnæði, þannig að fyrstu mánuðina fann ég fyrir sektarkennd yfir því að hafa það svona gott. En fjölskylda mín sagði mér að það væri betra að þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér; það væri gott að ég gæti haldið áfram að spila - sem kannski það sem heldur mér á floti,“ segir Kateryna.

 

Hitti eigimann sinn, sem er hermaður í Úkraínu

En á sama tíma hefur hún áhyggjur af fjölskyldu sinni, sem býr í Úkraínu, og ekki síður af eiginmanni sínum, sem er hermaður í austurhluta Úkraínu, nálægt víglínunni. 

„Hann fékk leyfi og ég fór til Úkraínu fyrir nokkrum vikum og hitti hann í vesturhluta landsins, þar sem ástandið er öruggara. Ég var auðvitað mjög glöð að sjá hann, en á sama tíma hrygg, því við náðum bara að vera saman í sjö daga. Við erum í góðu sambandi og skiptumst á skilaboðum á hverjum degi, en þetta er auðvitað erfitt og verður það áfram, þangað til stríðinu lýkur.“

Kateryna æfir á hverjum degi með Sinfóníunni. Hún segir að þótt tónlistin veiti henni hugarró, þá séu atburðirnir í Úkraínu alltaf ofarlega í hennar huga. Fréttamaður RÚV hitti Katerynu á mánudegi, þegar hljómsveitin var að æfa flutning á sinfóníu Mozarts nr. 40. „Ég kynntist þessari tónlist þegar ég var allt önnur manneskja; þegar heimurinn var allt annar. En núna þegar ég spila þessa tónlist, þá er hún eins og undirleikur fyrir heimsendi.“

Stríðinu verður að ljúka eins fljótt og auðið er

Kateryna leggur áherslu á að íbúar og stjórnvöld Úkraínu þurfi allan þann stuðning sem völ er á, til að berjast á móti Rússum og síðan að endurreisa samfélagið. „Ef þið þekkið fólk frá Úkraínu, biðjið þau um upplýsingar um hvernig er best að styðja til dæmis sjálfboðaliðasamtök sem eru að vinna mikilvægt starf í Úkraínu. Við þurfum að halda áfram að tala um þetta, og stríðið verður að taka enda eins fljótt og hægt er; fólk er að deyja í Úkraínu á hverjum degi vegna þess.“