Tilraunafélagið, félagsskapur spíristisma, var starfandi í Reykjavík rétt eftir aldamótin 1900. „Ég held að spíritisminn hafi hvergi orðið jafn sterkur og á Íslandi,“ segir Hermann Stefánsson, rithöfundur. „Þetta kannski tengist stjórnmálum óvænt á Íslandi.“
Í nýrri skáldsögu sinni, Millibilsmaður, hverfur Hermann Stefánsson aftur til fortíðar, til Reykjavíkur um aldamótin 1900. Dægradvöl efristéttar þess tíma, fundir með framliðnum, blandast með óvæntum hætti við stjórnmál í tímaferðalagi um Reykjavíkurborg. Rætt var við Hermann í þættinum Orð um bækur á Rás 1.
Byggir brýr milli fortíðar og nútíðar
„Það er oft sagt um sögulegar skáldsögur að þær fjalli lúmskt um samtíma sinn. Mín gerir það ekki,“ segir Hermann Stefánsson um nýútkomna skáldsögu sína, Millibilsmaður. „Það var allavega uppleggið. Mín hugmynd er sú að þú ráðir sem lesandi. Það er brúarstæði sem þú getur borið saman við samtímann en ég er ekki að byggja brýrnar.“
Skáldsögur Hermanns bera gjarnan vitni um mikið grúsk í sögu og fræðum og Millibilsmaður er engin undantekning. Hermann segist hafa haft gaman af því að kynnast þessum tíma, en sagan gerist á árunum 1906 til 1911. „Maður allavega sekkur sér á bólakaf ofan í það og lítur ekkert upp eða í kringum sig.“
Hermann vann um tíma við að fara yfir gömul Alþingisskjöl. „Ég var að leiðrétta svoleiðis á tímabili og var eiginlega alveg horfinn inn í þann talsmáta,“ segir hann. „Bókin er alveg í sínum tíma og líka í rithætti og í ósamræmi í stafsetningu og orðalagi og þess háttar. Hún er skrifuð eins og hún sé skrifuð 1907.“
Gekk í félagsskap spíritista til að afhjúpa hann
„Hún átti að verða nóvella í fyrstu persónu,“ segir Hermann um Millibilsmann. „Bara um þessa sögu sem hefur fylgt mér alla ævi.“ Sú saga er af langafa hans, lækninum Guðmundi Hannessyni sem var mikill efasemdamaður en gekk í félagsskap spíritista til að afhjúpa það fyrir svik. Guðmundur æfði sig meira að segja að skrifa í myrkri svo hann ætti auðvelt með að hripa hjá sér athugasemdir á miðilsfundum. „Hann gerði allt mjög nákvæmlega og afgerandi og hann trúði ekki á neitt og var ekki að fela það.“
Miðilsfundir skemmtun yfirstéttarinnar
Sögusvið bókarinnar er Reykjavík laust eftir aldamótin 1900, sem var mikill umrótatími þar sem vísindin ruddu sér til rúms. Aðferðum vísindanna var beitt til að skilja samsetningu alls, líkama mannsins jafnt sem sál hans, náttúruna og jafnvel það sem gerist eftir dauðann. Á þessum tíma var Tilraunafélagið starfrækt í Reykjavík en það var öflugur félagsskapur áhugafólks um tilraunir tengdar handanheimum.
Í Tilraunafélaginu voru fyrst og fremst heldri borgarar því það var ekki ódýrt að ganga til liðs við það. Félagið lét reisa hús og hafði mann á launaskrá sem stýrði miðilsfundum. „Indriði miðill, sá heimsfrægi miðill.“
Íslenskt áhugafólk um spíritisma var í samskiptum við erlend félög miðla og handanrannsakenda. „Ég held að spíritisminn hafi hvergi orðið jafn sterkur og á Íslandi,“ segir Hermann. „Þetta kannski tengist stjórnmálum óvænt á Íslandi.“
Tekist á um sjálfstæði Íslands
Félagsskapur spíritista blandaði sér í þjóðfélagsumræðuna á Íslandi en spíritistar voru flestir á móti áframhaldandi sambandi við Danmörku, í óbreyttri mynd.
Í sambandsmálinu svokallaða var mikið tekist á um það hvort Ísland ætti áfram heyra undir Danaveldi eða verða fullvalda og sjálfstætt ríki. „Flókið mál, sambandsmálið, mjög flókið. En í sinni einföldustu mynd snýst það um að Ísland verði sambandsríki og verði sovereign sem var reynt að þýða,“ segir Hermann.
„Guðmundur Hannesson var einn af þeim fyrstu, og einhver sagði sá fyrsti á sínum tíma, sem hélt því fram að Ísland ætti að vera sjálfstætt ríki,“ segir Hermann um langafa sinn. „Því almennt var það talið glapræði vegna þess að við hefðum ekki efni á því, við værum allt of lítil eining til að geta rekið okkur sem síðar hefur komið í ljós að þetta er.“
Rætt var við Hermann Stefánsson í Orð um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.