„Þetta er þungamiðjan í mínum ferli. Það verður að segjast eins og er,“ segir Helgi Björnsson, söngvari og tónlistarmaður, um hljómsveitina Síðan skein sól eða SSSól eins og landsmenn þekkja hana best. Hljómsveitin fagnar 35 ára afmæli um þessar mundir.
35 ár eru liðin frá stofnun hljómsveitarinnar Síðan skein sól, sem landsmenn þekkja best sem SSSól. Frægðarsól sveitarinnar reis hratt og hún lék á tónleikum um allt land, árið um kring, fyrir utan nokkrar helgar í byrjun janúar. „Annars var bara keyrt hverja einustu helgi og yfirleitt voru skólaböllin miðvikudaga og fimmtudaga, svo var farið út á land föstudag og laugardag og svo kannski komið og teknir tónleikar í bænum á sunnudegi,“ rifjar Helgi Björnsson, söngvari sveitarinnar, upp í Popplandi á Rás 2.
Æfðu á messutímum fyrsta árið
„Við vorum að æfa niðri í Brautarholti á sunnudagsmorgnum klukkan 11,“ rifjar Helgi upp. Á þessum tíma var hann að leika í sýningunni Land míns föður í Iðnó ásamt Pétri Grétarssyni, fyrsta trommuleikara sveitarinnar. „Það var sýnt svo oft að það var öll kvöld, sex kvöld í viku.“ Jakob Smári Magnússon og Eyjólfur Jóhannsson voru gengnir til liðs við þá félaga og þeir unnu alla daga. „Þannig að þetta var eini tíminn sem við gátum hist. Það var klukkan 11 á sunnudögum, messutíminn.“
Fyrsta árið var æft alla sunnudaga og þar var lagður grunnur að fyrstu lögum hljómsveitarinnar. Áhrifin komu víða að. „Við vorum náttúrulega svolítið að þreifa fyrir okkur hingað og þangað og svo kom hver með sitt auðvitað.“ Jakob var mikill Stranglers-maður og Eyjó var gefinn fyrir Deep Purple, en þeir komu báðir úr hljómsveitinni Tappi tíkarass. Pétur var hins vegar djassari af guðs náð en elskaði líka Rolling Stones eins og Helgi sjálfur. „Svo vorum við að hlusta á REM til dæmis og þetta nýja ameríska.“
Fyrstu lög sveitarinnar komu út á tólftommu 1988 og Pétur Grétars mundaði trommukjuðana á henni. Hann hætti skömmu síðar og sneri sér alfarið að djassinum. „Svo kemur Ingólfur Sigurðsson þarna ‘88 og þá förum við svolítið á flug.“
Þrjár helgar í frí á ári
Fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út 1988 og er samnefnd sveitinni. „Þá byrjum við virkilega að djöflast og æfa og þá erum við hættir að leika þarna þessa sýningu Land míns föður og þá keyrum við á þetta.“ Í kjölfar fyrstu plötunnar upphefst mikil vertíð hjá sveitinni. „Þá geri ég samkomulag við Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og þeir borga mér up front fyrir að fara í allar félagsmiðstöðvar.“ Fyrir peningana keypti sveitin lítið hljóðkerfi og gat fyrir vikið troðið upp hvar sem er. „Þá þurftum við ekkert að leigja neitt kerfi eða neitt, við bara keyrðum upp eftir með kerfi og tókum tónleika í öllum félagsmiðstöðum.“
SSSól spiluðu í grunn- og framhaldsskólum og félagsmiðstöðvum um land allt og upp úr 1990 fór sveitin að spila á böllum í félagsheimilum landsins. „Þá er þetta bara orðið þannig að við erum að spila allar helgar, nema það voru tvær helgar í frí í janúar, janúar var dauður, og svo helgin eftir verslunarmannahelgi.“ Þess utan ferðaðist sveitin vítt og breitt um landið allar helgar. „Annars var bara keyrt hverja einustu helgi og yfirleitt voru skólaböll miðvikudaga og fimmtudaga, svo var farið út á land á föstudag og laugardag og svo kannski komið og tekið tónleika í bænum á sunnudegi.“
Helgi segir að þessi tími hafi verið erilsamur en skemmtilegur. „Þú varst bara atvinnumaður í þessu og það var bara mjög jákvætt.“
Helgi skipstjórinn í stafni
Sveitin hefur starfað með hléum öll þau 35 ár sem eru liðin frá stofnun hennar. „Það eru auðvitað búnar að vera mannabreytingar í hljómsveitinni á þessum langa ferli. Menn hafa hætt og komið aftur og hætt og komið aftur. Ég stend þarna í stafni, skipstjórinn.“
Til að halda lífi í hljómsveitinni hefur Helgi tryggt að hún bóki þrenna tónleika í það minnsta. „Maður hefur haldið þessu lifandi, andadrátturinn hefur verið þarna.“ Tónleikar, böll og uppákomur hljómsveitarinnar í gegnum tíðina eru óteljandi og samstarfið segir Helgi hafa verið farsælt og skemmtilegt. Hljómsveitin segir hann að sé grunnurinn að starfsferli sínum. „Þetta er þungamiðjan í mínum ferli. Það verður að segjast eins og er.“
Til að halda upp á afmælið blæs hljómsveitin til tónleika í Háskólabíói 15. október. „Við héldum þar upp á þrítugsafmælið og það var ótrúlega gaman. Við ætlum að endurtaka það.“ Hann segir að andinn í Háskólabíói sé einstakur. „Háskólabíó hefur þennan sjarma og þetta atmó sem við erum að leita að.“
Sveitin er þekkt fyrir spilagleði. „Þetta er stemnningshljómsveit, við vorum þekktir fyrir það á sínum tíma og enn þá, að búa til mega stemmningu.“ Þeir ætla ekki að víkja frá því hlutverki sínu og hlakka mikið til að fagna afmælinu með aðdáendum sínum.
Rætt var við Helga Björnsson í Popplandi á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.