Stemningin í þættinum Gettu betur á bláþræði var sannarlega hengd upp á þráð þegar enginn gat giskað hver ætti röddina, en eigandi hennar og manneskjan sem spurt var um fylgdist sjálf með keppendum glíma við hverja vísbendingu á fætur annarri án þess að vera nokkru nær.
Gettu betur var á bláþræði að vanda síðasta föstudag og Guðrún Dís Emilsdóttir spurði liðin tvö spjörunum úr. Keppendur að þessu sinni voru í tveimur liðum, útvarp á móti hlaðvarpi. Dómari er Örn Úlfar Sævarsson og Dröfn Ösp Snorradóttir-Rosaz semur spurningar með honum.
Í útvarpsliðinu voru þau Lóa Björk Björnsdóttir, Eva Laufey Kjaran og Ósk Gunnarsdóttir. Í hlaðvarpshópnum voru þau Sandra Barilli, Edda Falak og Hjálmar Örn Jóhannsson.
Í vísbendingaspurningum var spurt um þekkta rödd og keppendur urðu afar ráðvilltir.
Fyrsta vísbending: Röddin á rætur að rekja til Ytri-Vesturárdals þar sem eigandi hennar ólst upp ásamt þremur bræðrum. Fyrstu skrefin í fjölmiðlum voru á Frostrósinni fyrir norðan en einn eigandi stöðvarinnar hafði nálgast viðkomandi með því að benda á að röddin hentaði útvarpi vel. Það kom eiganda raddarinnar á óvart því hún hafði áður kallað á stríðni og brottrekstur úr barnakór. Þaðan lá leiðin á útvarpsstöðina FM957 en svo fór að draga til tíðinda þegar röddin varð líka að andliti. Hún sá þá um afleysingar í þáttunum Með hausverk um helgar.
Manneskjan á bakvið röddina starfaði á útvarpsstöðinni Steríó sem fékk síðar nafnið KISS FM. Eftir nokkurra ára ævintýraleit til Chile og Benidorm reyndi hún fyrir sér sem auglýsingasali á Blaðinu sem síðar kallaðist 24 stundir. En fjölmiðlaferillinn átti eftir að taka flugið síðar og röddin á ekki að hafa farið fram hjá neinu áhugafólki um fjölmiðla. Hver er röddin?
Önnur vísbending: Röddin var ein af upphafsröddum stöðvarinnar Kanans ásamt Gulla Helga, Tvíhöfða, Sigga Stormi, Hauki Holm og Eiríki Jónssyni svo einhverjar fleiri raddir séu nefndar. Röddin starfaði á Kananum um skeið en stökk til í afleysingar á Stöð 2 sumarið 2010. Það var í þættinum H&M þar sem röddin leysti af Margréti Erlu Maack sem áhorfendur Gettu betur kannast mætavel við. Sigrún Stefánsdóttir þáverandi dagskrárstjóri tók sig síðan til og skipaði röddina og eina aðra í það sem varð eitt þekktasta tvíeyki síðari tíma á Rás 2. Árið 2012 bættist Sólmundur Hólm í hópinn sem þriðja hjólið í þessum vinsælu morgunþáttum. Hver er röddin?
Eftir þessa vísbendingu voru allir keppendur enn alveg tómir og þá var komið að þriðju vísbendingu, en stemningin var að verða vandræðaleg þegar þarna var komið sögu.
Þriðja vísbending: Röddin lét líka á sér kveða í sjónvarpi. Dæmi um sjónvarpsþætti eru þættir sem kallaðir voru hágæða íslenskt raunveruleikasjónvarp. Þeir hétu Flikk flakk og gengu út á að umbreyta hafnarsvæðum á Höfn og í Eyjum. Þar á meðal var farið í fjórhjólaferð með hjónunum Dúdda og Ingibjörgu í Hoffelli. Manneskjan er þó þekktari fyrir störf sín í Útsvari og hinum ýmsu þáttum í kringum Söngvakeppni sjónvarpsins þótt minningin um störfin með Andra Frey og Sólmundi í Virkum morgnum lifi með þjóðinni. Á síðustu vikum hefur þjóðin upplifað endurkomu þessarar fjölmiðlamanneskju og nú er þetta að verða dálítið vandræðalegt. Hver er þessi fjölmiðlamanneskja?