„Þetta augnablik þegar fíkill réttir út hendina og biður um hjálp er örugglega eitt mikilvægasta og magnaðasta móment í lífi hvers fíkils,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson. Eldri bróðir hans, Arnar Gunnar Hjálmtýsson, glímdi við fíkn og opnaði sjálfur áfangaheimili til að aðstoða aðra fíkla í að ná bata.

Arnar Gunnar Hjálmtýsson opnaði áfangaheimili eftir að hafa kynnst því í gegnum son sinn hversu mikill skortur er á úrræðum fyrir fólk sem langar að komast út í lífið á ný eftir að hafa villst út af beinu brautinni. Páll Óskar Hjálmtýsson, bróðir Arnars, segir að bróðir sinn hafi lyft grettistaki í þessum málaflokki. „Ég hef fengið að kynnast fíknisjúkdómum af eigin raun og Addi Gunni bróðir er einn af þessum sjúklingum. Svo er ekki á það bætandi þegar stjórnvöld láta sér þessa sjúkdóma í léttu rúmi liggja og svona úrræði eins og áfangaheimili verða að koma úr grasrótinni, eins og Addi Gunni er að gera núna. Að búa það til frá grunni með eigin mætti,“ segir Páll Óskar í þættinum Hvunndagshetjur sem var á dagskrá á RÚV í gær, sunnudag.

„Sem betur fer er svona fólk þarna úti eins og Addi Gunni sem hefur fetað þessa braut, náð bata og er að borga til baka í samfélagið. Að þakka fyrir sig á eins fallegan hátt og frekast er unnt. Hann er að gefa til baka batann sinn í gegnum þetta áfangaheimili.“

Leitaði að áfangaheimili fyrir son sinn en alls staðar var fullt

Arnar segir sjálfur frá því þegar sonur hans þurfti að komast á áfangaheimili og hann hringdi víða í leit að húsnæði en það var alls staðar fullt. „Mér fannst þetta vera dálítið ófremdarástand sem ríkti því það var brýnt fyrir hann að komast einhvers staðar inn, það er ekki hægt að vera húsnæðislaus á Íslandi,“ segir hann.  Hann tók málið í sínar hendur.„Ég vissi af þessu húsi hérna í Kópavogi og hafði samband við eigandann. Hann var tilbúinn að leigja mér þetta hús og ég opnaði bara áfangaheimili.“

Hjálpaði íbúa að komast til tannlæknis

Eitt af markmiðunum var að fækka eða helst eyða öllum biðlistum. „Höfuðtilgangur okkar er að veita heimilislausum alkóhólistum húsaskjól,“ segir Arnar. Áfangaheimilið útvegar íbúum herbergi með rúmi, borði, stólum ísskáp og geymsluskápum. En þau mæta líka margvíslegum þörfum þeirra. „Í síðustu viku kom einn skjólstæðingurinn sem ekki hafði getað sofið fyrir tannpínu alla nóttina. Hann hafði engan tannlækni og ekki neitt og þá þurfti maður náttúrulega að redda honum tannlækni,“ segir Arnar sem hringdi umsvifalaust í tannlækninn sinn, sem bætti honum aftast á lista sinn samdægurs. Svo sá Arnar um að leggja út fyrir kostnaðinum. „Það er bara allt sem kemur upp á,“ segir hann.

Erfitt fyrir foreldra að geta ekki hýst börnin sín

Arnar Gunnar er í sambúð, á tvo uppkomna syni og tvær stjúpdætur. Fjölskyldan hefur stutt hann við rekstur Betra Lífs en sökum þess hve mikil eftirspurn er eftir húsnæði hefur hann meðal annars innréttað hluta af heimili fjölskyldunnar til að geta leigt þar út herbergi fyrir þá sem á þurfa að halda. „Þetta eru í öllum tilvikum fíklar sem eru búnir að mála sig út í horn bara alls staðar. Þeir geta ekki búið hjá fjölskyldunni,“ segir hann. „Það er gríðarlega erfitt fyrir foreldra að geta ekki hýst börnin sín en sjúkdómurinn er svo rosalegur að þau eru kannski að verja yngri systkini fyrir veikum eldri systkinum. Að þurfa að koma þeim út úr húsi er ekkert grín.“

Allt lífið marinerað í alkóhólisma og fíknisjúkdómum

Páll Óskar þekkir alkóhólisma í fjölskyldunni og nærumhverfi sínum mjög vel. „Ég er fæddur og uppalinn í alkóhólisma. Allt mitt líf er búið að vera marinerað í alkóhólisma og fíknisjúkdómum,“ segir hann. „Næstum því allt það fólk sem ég þekki og umgengst er að díla við einhvers konar fíknir að einhverju leyti, þannig að mér finnst venjulegt fólk sem þarf ekki að díla við nein verkefni í lífinu alveg hundleiðinlegt, ekkert spennó.“

Aðstandendur þurfa að bíða

Páll segir að sjúklingar byrji oftast ekki að leita sér hjálpar fyrr en þeir séu komnir á botninn og það sé lítið fyrir aðstandendur að gera annað en að bíða eftir þeim degi þegar botninum sé náð. „Þegar fíkillinn segir ókei, now I've done it. Nú veit ég ekki hvort ég verð á lífi á morgun, ég er orðin hrædd eða hræddur og þarf hjálp," segir Páll Óskar. „Þetta augnablik þegar fíkill réttir út hendina og biður um hjálp er örugglega eitt mikilvægasta og magnaðasta móment í lífi hvers fíkils.“

Kominn með þrengingar í ósæðarnar

Arnar man eftir því þegar hann fann sinn botn. Um árabil vandi hann sig á það að fara alltaf á barinn eftir vinnu að hitta félagana og horfa á fótboltann þegar hann var í gangi. Árið 2007 fór lífernið að taka sinn toll. „Ég fór að finna fyrir brjóstsviða og þá voru komnar þrengingar í ósæðarnar. Svo fór ég í hjartaaðgerð og læknarnir sögðu á Landsspítalanum að ég þyrfti að breyta um lífsstíl.“

Auðvelt að setja sig í spor annarra fíkla

Fyrst þótti Arnari tilhugsunin einföld en svo reyndist það meiri þraut en hann hafði órað fyrir. „Ég lít á þetta fólk og skil í hverju það er, hvaða aðstæður og við hvað það er að glíma við. Ég þekki leið út úr því og maður getur miðlað til þeirra,“ segir hann. „Ég held að það sé voða erfitt fyrir fólk sem þekkir þetta ekki að setja sig í spor þessa fólks. Sumir eru komnir með bakið eiginlega í kistubotninn og það er rosalega erfitt að snúa lífinu við þaðan, en það er mögulegt.“

Reyna að kveikja von um betra líf

Líf Arnars hefur breyst til hins betra síðan hann sneri blaðinu við. „Það þakka ég algjörlega bara minni vinnu í sjálfum mér. Síðasta sporið, það tólfta, segir að maður þurfi að aðstoða og það kom upp staða þar sem var brýn nauðsyn. Það vantaði eitthvað þarna. Ég taldi mig geta gert eitthvað í því og gerði það.“

Síðan hefur hann gert allt sem í hans valdi stendur til að aðstoða fíkla. „Það er alveg frábært að sjá ungt fólk sem er bara byrjað að vinna og farið út í samfélagið. Við reynum alltaf að kveikja vonina hjá fólki um að það sé betra líf í vændum.“

Hér er hægt að horfa á Hvunndagshetjur í heild sinni í spilara RÚV. Framleiðandi er Skot productions.