Hvað segja aðgerðir fyrri tíma kvenna um viðhorf þeirra til náttúrunnar? Sigríður Tómasdóttir frá Brattholti og Þorbjörg Sveinsdóttir ákváðu að gerast aktívistar og málsvarar náttúru Íslands og urðu fyrir vikið alþýðuhetjur.
Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir skrifar:
Íslandssagan býr að ótal náttúrulýsingum sem miðla hugmyndum manna hverju sinni um landið og náttúru þess; miðla viðhorfasögu íslenskrar náttúru. Eitt megineinkenni íslenskra náttúrulýsinga öldum saman var að þær voru nær einungis settar á blað af karlmönnum – allt frá óljósum lýsingum á eylandinu Thule, til skrifa skálda, sagnaritara og náttúrufræðinga eftir að Ísland byggðist. Skortur á kvenlegri sýn í skráningu viðhorfa til náttúru Íslands, öldum saman, olli því að hugmyndir og viðhorf fyrri alda frónkvenna til íslenskrar náttúru eru að miklu leyti hulin — en þó ekki með öllu.
Viðhorf kvenna til íslenskrar náttúru fyrr á tímum má finna á strjáli í minjum og ritheimildum fyrri alda. Þeirra gætir í ýmsum munum, allt frá útsaumsverkum þeirra, sem miðla fegurð náttúrunnar í saumsporum yfir í varðveitt orð um íslenska náttúru. „Sól af austurstraumi stígur, / stafar geislum djúpin blá,“ orti Júlíana Jónsdóttir, fyrsta konan sem gaf út skáldverk hérlendis árið 1876. Það er þó fátt sem vitnar betur um viðhorf til náttúrunnar en aðgerðir manna sem varða hag hennar með beinum hætti. Spurningin er: Hvað segja aðgerðir fyrri tíma kvenna um viðhorf þeirra til náttúrunnar? Í því skyni að varpa ljósi á það efni beini ég sjónum mínum að verndunaraðgerðum íslenskra kvenna fyrr á tíðum í þágu náttúrunnar; konum sem tefldu fram eigin lífi náttúrunni til varnar – konur sem í dag myndu flokkast sem aðgerðarsinnar eða aktívistar öðru nafni.
Flytja mætti langa tölu um íslenskar konur sem lagt hafa náttúrunni lið í gegnum aldirnar. Umfjöllun mín hverfist um tvær slíkar konur, sem voru uppi á 19. öld og á öndverðri 20. öld; konur sem lögðu mikið í sölurnar til að vernda straumvötn og lífríki þeirra. Hér á ég við kvenskörunganna og náttúruverndarsinnanna Sigríði Tómasdóttur frá Brattholti, fossamóður, og Þorbjörgu Sveinsdóttur, laxamóður. Þetta eru vel þekktar konur í sögunni, sem nokkuð hefur verið fjallað um í skrifum, sem hér verður stuðst við.
Sigríður og Þorbjörg tilheyrðu sitt hvorri stétt þjóðfélagsins, en bakgrunnur þeirra er þó um margt líkur. Hvorug þeirra gekk í hjónaband og báðar voru þær barnlausar. Þær voru skapmiklar konur sem lágu aldrei á skoðunum sínum, hvort sem þær þrættu við menn í eldhúskrókum eða á opinberum vettvangi. Sigríður og Þorbjörg voru, líkt og aðrar afrekskonur, gjarnan karlgerðar; sagðar jafnokar karla til orðs og æðis. En eins og gjarnan vill verða með slíkan kynjasamanburð, þá var staðreyndin sú að þessar konur voru um flest ekki einungis jafnokar karla, heldur voru þær körlum langtum fremri.
Sigríður og Þorbjörg voru málsvarar lítilmagnans, náttúrunnar. Náttúran er raddlaus og vanmáttug gagnvart skemmdarverkum mannanna – en Sigríður og Þorbjörg veittu henni þá rödd sem hún þurfti á að halda. Þessar konur fundu fyrir samkennd með náttúrunni – samsvörun sem þær þekktu á eigin skinni vegna undirokunar íslenskra kvenna. Því konur, líkt og náttúran, voru um aldir alda ofurseldar ákvörðunum annarra, voru raddlausar og án málsvara – en konur eru náttúruafl engu að síður.
Og þá víkur sögunni að verkum aðgerðarsinnanna Sigríðar frá Brattholti og Þorbjargar Sveinsdóttur; konum sem vissu að verk samtímans vörðuðu framtíðina.
Sama ár og hinn vel kunni rithöfundur og listamaður William Morris kom til Íslands, fæddist málsvari fallvatna Íslands, Sigríður Tómasdóttir, sem fædd var árið 1871 á bænum Brattholti í Biskupstungum. Sigríður átti 13 systkini og af þeim komust sjö á legg. Lýsingar á Sigríði gefa mynd af skorinortri konu af alþýðustétt, sem var heldur stórlynd og mikill dýravinur. Hún var fremur einræn kona sem undi sér best heima í Brattholti, þar sem hún gegndi bústjórn ásamt föður sínum Tómasi Tómassyni bónda og móður sinni Margréti Þórðardóttur húsmóður – en orð var á að Sigríður réði mestu þar heima fyrir. Sigríður átti síðar eftir að erfa bú foreldra sinna.
Hugur Sigríðar dvaldi löngum við fegurð náttúrunnar, ekki síst í listinni þar sem Sigríður skráði ásýnd náttúrunnar á fagran máta í myndverkum sínum. Það voru þó ekki fögur myndverk Sigríðar af náttúrunni sem skiluðu henni á spjöld sögunnar, heldur barátta hennar fyrir náttúruvernd. Sigríður er gjarnan sögð vera fyrsti náttúruverndarsinni Íslands, og er hennar minnst fyrir að hafa eytt miklum tíma, kröftum og fé í að vernda Gullfoss í Hvítá; ánni sem rennur við jörðina Brattholt þar sem Sigríður bjó alla sína tíð. Þannig var mál með vexti, að erlendir aðilar sóttust eftir því að virkja Gullfoss og nutu í þeim efnum fulltingis ákveðinna íslenskra aðila. Tómas faðir Sigríðar neitaði að ganga að þeim kaupum, en sökum fjárhagsörðugleika leigðu hann og fleiri jarðeigendur afnot af fossinum öðrum Íslendingi. Sá samningur var síðan framseldur og endaði í höndum erlendra aðila sem voru í virkjanahugleiðingum. Þetta var gert í óþökk Tómasar og Sigríðar dóttur hans, sem var ósátt alla tíð við þann gjörning föður hennar að leigja afnotarétt af fossinum. Við tóku málaferli, sem varð til þess að Sigríður ferðaðist ófáum sinnum frá Brattholti til Reykjavíkur, í þeim eina tilgangi að vernda tilvist fossins, nið hans sem ómað hafði í eyrum hennar allt frá barnæsku. Sigríður hótaði því að hún myndi kasta sér í Gullfoss daginn sem fyrsta skóflustungan yrði tekin vegna virkjanaframkvæmdanna. Brattholtsfjölskyldan tapaði málinu en aðrir atburðir úti í heimi urðu þess valdandi að erlendu aðilarnir urðu afhuga virkjanaframkvæmdunum og sneru sér að vopnaframleiðslu. Fossinn var hólpinn og Sigríður varð alþýðuhetja á meðal samtímamanna, konan sem var einkar lítið gefin fyrir aðdáun og hól.
Þegar litið er yfir ævisögu Sigríðar sést hvað straumvatnið birtist þar víða, það er eins konar sagnaminni um ævi hennar. Hér vísa ég ekki aðeins til sagna af viðureignum Sigríðar við veraldarvaldið, svo að Hvítá fengi að renna fram óhindruð. Heldur einnig til frásagna af viðureignum hennar við íslensk vatnsföll á ferðum sínum; sagna af því þegar hún reið yfir, eða hreinlega óð, illfærar ár í erindagjörðum sínum, hvort heldur þær erindagjörðir voru í þágu fjölskyldu hennar eða náttúru Íslands. Af sama meiði eru frásagnir af því hvernig Sigríður notfærði sér eyðingarmátt Hvítár. Til að mynda sagan af því þegar Sigríður, sem hafði mikið listamannsauga, kastaði málverki af Gullfossi í Hvítá, sem hún fékk að gjöf frá sveitungum sínum fyrir vel unnin náttúruverndarstörf. Og sömuleiðis sagan af því þegar Sigríður kastaði girðingarstaurum sveitunga sinna í Hvítána; staurum afréttargirðingar sem sveitungar hennar reistu. Dýravinurinn og aðgerðarsinninn Sigríður sagði girðinguna tálma för sauðfjár á leið til byggða þegar kólnaði í veðri á áliðnu sumri. Í því efni gilti engu þótt sveitungar Sigríðar hótuðu henni fangelsisvist fyrir skemmdarverkið – því Sigríður hótaði að halda áfram að taka niður girðinguna þegar henni yrði sleppt úr fangelsinu; girðingarstaurarnir skyldu rata í Hvítána.
Þá víkur sögunni aftur til ársins 1827, þegar að Þorbjörg Sveinsdóttir kvenréttindakona og náttúruverndarsinni fæddist foreldrum sínum, Kristínu Jónsdóttur og séra Sveini Benediktssyni. Þorbjörg ólst upp lengst af á Mýrum í Álftaveri, í hópi átta systkina, en þeirra á meðal var bróðir hennar Benedikt Sveinsson, sem síðar átti eftir að verða þjóðkunnur sýslumaður, faðir Einars Benediktssonar skálds. Þorbjörg lifði merku lífi. Hún var komin af mikilli ljósmæðraætt, en sú taug hefur að öllum líkindum haft ótvíræð áhrif á þá ákvörðun hennar að gerast ljósmóðir. Þorbjörg nam ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn og sneri aftur heim að prófi loknu, þá 29 ára gömul. Í kjölfarið gerðist hún ljósmóðir í Reykjavík, þar sem hún stundaði störf sín með það að leiðarljósi að konur gætu fætt og alið börn sín við mannsæmandi aðstæður, óháð efnahag. Sökum þessa var Þorbjörg einkar vinsæl ljósmóðir, ekki síst meðal fátækra mæðra. Framkvæmdasemi hennar í málefnum kvenna gætir víða í verkum sem eftir hana liggja, til að mynda í afskiptum hennar að stofnun Hins íslenzka kvenfélags.
Þorbjargar er helst minnst fyrir réttindabaráttu í þágu íslenskra kvenna, en hún hefur sannarlega einnig lagt mikilvæg lóð á vogarskálar náttúruverndar á Íslandi. Hér vísa ég til aðkomu hennar að máli og tilheyrandi málaferlum sem gengu undir heitinu „Elliðaármálin“; málaferlum sem snerust um réttinn til laxveiða í Elliðaánum. Ekki er unnt að rekja þau löngu málaferli hér, og þau því aðeins rakin í grófum dráttum.
Þannig var mál með vexti að Thomsen kaupmaður og síðar samnefndur sonur hans, töldu sig hafa veiðirétt í Elliðaánum og settu niður veiðikistur sem fönguðu laxa sem gengu upp Elliðaárnar. Nokkuð sem olli miklum deilum og dómsmálum. Fannst mönnum, sem land áttu að Elliðaánum, gengið á rétt sinn. Þeirra á meðal var Benedikt Sveinsson, bróðir Þorbjargar, sem bjó að Elliðavatni – og Þorbjörg sjálf, sem taldi Thomsen menn ekki hafa einkarétt á laxinum. Ekki er ofsögum sagt hve slæm áhrif þessar laxakistur höfðu á laxastofninn í Elliðaánum, því þær tálmuðu för laxins upp árnar á leið hans til hrygningar. Ljósmóðirin Þorbjörg vissi hvað var í húfi. Segja mætti að hún hafi rekið herferð gegn þvergirðingum Thomsen manna. Hún safnaði liði til varnar laxinum og jós úr skálum reiði sinnar ef menn mótmæltu henni eða neituðu að ganga til liðs við hana og bróður hennar, til verndar laxinum. Þannig minnir Þorbjörg á þjóðsagnakenndu veruna, laxamóðurina, sem sögð var vera risavaxin vera sem tryggði líf laxa í ám og vötnum á Íslandi með tilvist sinni og aðgerðum, svo sem með því að skera á net veiðimanna.
Það var svo eina nótt í Reykjavík árið 1877, að hópur manna gekk berserksgang í Elliðaárdalnum þar sem þeir brutu laxakistur Thomsens í Elliðaánum. Heimildir eru fyrir því að Þorbjörg hafi þar verið forgöngukona, að hún hafi eggjað mennina til skemmdarverkanna og sjálf tekið þátt í eignaspjöllunum - þá dulklædd sem karlmaður. Aðgerðarsinninn Þorbjörg var færð í varðhald í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, en fangavörðurinn harðneitaði að læsa frú Þorbjörgu í fangaklefa. Þess í stað hýsti hann aðgerðarsinnann á heimili sínu, þar sem hún dvaldi í nokkra daga við góðar aðstæður. Það verður að teljast fágætur sögulegur atburður, þegar gæslumaður laga og réttar gengur gegn frumskyldu starfs síns og fylgir þess í stað eigin siðferði. Það skyldi enginn fangelsa Þorbjörgu, sem barðist í þágu lítilmagnanna, hvort heldur það voru konur, fátæklingar eða varnarlausir laxar. Þorbjörg, líkt og Sigríður, varð fljótt alþýðuhetja í augum samtímamanna, sökum þessara aðgerða í þágu lands og þjóðar. Málalyktir urðu þær að Þorbjörg var síðar dæmd til að sitja í fangelsi en var þá náðuð af Danakonungi, og herra Thomsen var gert að fjarlægja laxakisturnar. Hér lýkur þessari umfjöllun um Þorbjörgu Sveinsdóttur, sem lést árið 1903.
Hér í lokin er rétt að tengja verk nefndra kvenna samtímanum, því sú mikla hætta sem steðjar að náttúrunni af mannavöldum í dag minnir okkur á mikilvægi þess að fólk beiti sér í þágu hennar. Í nafni fyrri alda kvenna sem fórnuðu sér í þágu náttúrunnar, hvet ég samtímakonur mínar til að gera slíkt hið sama. Ég hvet Sigríðar samtímans til að sporna gegn óþarfa virkjanaframkvæmdum – og ég hvet Þorbjargir okkar tíma til að vernda tilvist íslenskra laxastofna, sem nú eru í mikilli hættu vegna tilkomu laxeldis í sjókvíum við strendur Íslands. Megi konur nútímans, líkt og konur fortíðarinnar, vernda íslenska náttúru.