Aðdráttarafl skúrka hefur löngum verið sterkt í skáldskap en sjaldan hefur einn hópur óþokka öðlast jafn mikla hylli og Roy-fjölskyldan í sjónvarpsþáttunum Succession.

Ættfaðirinn, Logan Roy, er kominn á efri ár, heilsunni hefur hrakað og börn hans fjögur, og ýmsir aðrir, sjá sér færi á að taka sæti hans og hrifsa völdin í gríðarstóru fjölmiðlaveldi hans. Þetta er, í afar stuttu og einfölduðu máli, viðfangsefni sjónvarpsþáttanna Succession sem hófu göngu sína á HBO árið 2018.

Höfundur þáttanna, Jesse Armstrong, hefur lýst þeim sem blöndu af sápuóperunni Dallas og Dogma-myndinni Festen, eftir Thomas Vinterberg. Í þeim birtist spegilbónuð veröld auðvaldsfjölskyldu, sem er fjarlæg veruleika flestra sem horfa á þáttinn, en um leið er dregin upp raunsæisleg mynd af átökum og valdabaráttu innan hennar.

Hluti annarrar þáttaraðarinnar var tekinn upp á Íslandi og fór Ingvar E. Sigurðsson með lítið hlutverk í fyrsta þættinum. Ísland kemur hvergi við sögu í nýjustu þáttaröðinni, þeirri þriðju, en sýningar á henni hófust í október eftir langa bið.

Rætt var um Succession í Lestarklefanum á Rás 1, umræðuþætti um listir og menningu. Gestir þáttarins voru Nichole Leigh Mosty forstöðumaður fjölmenningarseturs, Andrés Jónsson sérfræðingur í almannatengslum og Áslaug Torfadóttir þýðandi og handritshöfundur.

„Þeir eru í rauninni gefnir út sem dramaþættir og eru það vissulega. En eru í raun biksvört kómedía og ég held að það sé besta leiðin til að horfa á þá, sem grínþætti,“ segir Áslaug um þættina. „Þeir takast á við svo fáránlegar aðstæður og þetta fólk er svo fáránlegt og vitfirrt. Þó dramað sé mikið og snerti við manni, verður maður að hlæja að þessu, því annars yrði maður þunglyndur af öllu þessu ógeðslega fólki.“

„Ég hafði séð þá eða dottið inn í einn þátt og ég man að ég hugsaði: Mikið rosalega eru þetta óviðkunnanlegar persónur,“ segir Andrés. „Það er engin persóna sem maður heldur með. Það er klassískt stef að hafa hetjur og skúrka og kannski fólk sem þróast úr einu í annað. En bæði eru eiginlega allir skúrkar í þessum þáttum og þróunin er miklu flóknari, þú þróast í skúrk og aftur í hetju og aftur í skúrk.“

„Þetta er byggt á alvöru hlutum og dregið úr sögum í viðskiptum og viðskiptalífi. Þessi fáránleiki er byggður á alvöru manneskjum sem hafa sagt eða gert þetta,“ segir Nichole, en þrátt fyrir fjarlægan veruleika Roy-fjölskyldunnar, sem ferðast á snekkjum og þyrlum milli funda þar sem spilað er með stjórnmál og fjármagn, þá er það mannlegi hlutinn sem dregur fólk að þættinum. „Á endanum eru þetta fjölskyldur með sitt fjölskyldudrama.“

Þau eru öll sammála um að handrit þáttanna sé einstaklega vel skrifað og ekki megi missa af einu einasta atriði í leiftrandi snarpri framvindunni. „Maður má ekki horfa undan í eina sekúndu, þá missir maður af einhverju skoti á einhvern sem sýnir viðbrögð,“ segir Andrés. „Maður heldur að einhver sé að fara að slá í gegn en þá fer það akkúrat í hina áttina.“

Rætt var um Succession í Lestarklefanum á Rás 1, auk kvikmyndarinnar The French Dispatch og ljóðabókina Koma jól? eftir Hallgrím Helgason og Rán Flygenring.