Arnaldur Indriðason, handhafi verðlauna Jónasar Hallgrímssonar í ár, segist taka við þeim fyrir hönd allra sem skrifa glæpasögur á Íslandi. Vera Illugadóttir hlaut sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti verðlaun Jónasar Hallgrímssonar við hátíðlega afhöfn í Þjóðminjasafninu í dag. Þau hlaut að þessu sinni Arnaldur Indriðason, vinsælasti rithöfundur landsins um langt árabil. 

Í umsögn dómnefndar segir að Arnaldur hafi „fléttað saman gamalt og nýtt með listilegum hætti. Hann tileinkaði sér form glæpasögunnar og nýtti það til að kafa í sögu einstaklinga og þjóðar, greina þjóðfélagsmein og rekja sig að rótum þeirra sem oft liggja djúpt í menningu okkar. Bækur hans hafa um langt skeið notið gríðarlegra vinsælda meðal ungra sem aldinna úr öllum stéttum íslensks þjóðfélags og þar með gegnt mikilvægu hlutverki í að viðhalda og auka lestraráhuga þjóðarinnar svo um munar.“ 

Arnaldur segir að sér þyki mikið varið í að viðurkenningu í nafni Jónasar Hallgrímssonar og íslenskrar tungu. „Mér þykir mikil upphefð í því. Þótt maður skrifi glæpaskáldskap þarf alltaf að skrifa vandaðan og góðan texta. Þetta er glíma við bókmenntir fyrst og fremst. Það er alveg hægt í glæpasögum, þær eru ekkert síðri skáldverk eða minna framlag til íslenskrar tungu eins og aðrar bókmenntir.“ 

Glæpasögur eru oft ekki jafn hátt skrifaðar og „fagurbókmenntir“, eru t.d. sjaldan tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Arnaldi finnst glæpasagan vera að fá uppreisn æru með þessu verðlaunum. „Algjörlega. Ég tek við þessum verðlaunum fyrir hönd þeirra sem skrifa íslenskar glæpasögur, það er alveg ljóst. Þetta er aldeilis annað viðhorf en þegar við vorum að fara í gang fyrir 25 árum síðan. Þá var ekki litið á glæpasögur sem bókmenntir, þetta var bara rusl í sjoppum. En í dag þá er viðhorfið allt annað. Við erum með frábæra höfunda sem eru að sinna þessari bókmenntagrein og gera það mjög vel.“  

Spurður um stöðu íslenskunnar kveðst Arnaldur bjartsýnn. „Jú, maður heyrir að hún muni lognast út af á hundrað árum en ég held ekki. Hún hefur lifað af svo margt; hersetu, sjónvarp og internetið. Ég held að hún eigi bjarta framtíð.“

Íslenska hlaðvarpsgerjunin mikilvæg fyrir málið

Vera Illugadóttir, umsjónarmaður Í ljósi sögunnar á Rás 1, sem er jafnframt vinsælasta hlaðvarp landsins, hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Í umsögn dómnefndar segir að Í ljósi sögunnar höfði öðrum fremur til fólks á öllum aldri og með mjög mismunandi áhugasvið. „Með grípandi framsetningu söguefnis hverju sinni nær Vera eyrum hlustenda vítt og breitt um samfélagið. Hún segir sögur sínar á frjóu og fallegu máli og miðlar fróðleik sínum á tilgerðarlausan en áhrifaríkan hátt.“

„Mér finnst mjög gaman að gera efni á íslensku og segja sögur sem ekki hafa verið sagðar á íslensku áður,“ segir Vera. „Heimildirnar sem ég nota eru aðallega erlendar og  það er gaman að miðla þeim til fólks sem kannski les ekki sögubækur á erlendum málum, og leyfa þeim að njóta þessara frásagna.“  

Í ljósi sögunnar nýtur fádæma vinsælda hjá fjölbreyttum hópi.

„Já, ég fæ mikil viðbrögð við þáttunum, frá ungu fólki, krökkum og unglingum og upp í eldra fólk. Ég hef aldrei getað fest fingur á hverjir mínir aðalhlustendur eru. Þegar ég byrjaði í útvarpinu hélt ég að það væri aðallega eldra fólk sem sæti og hlustaði á Rás 1 en það hefur ekki verið raunin.“  

Hlaðvörp njóta sífellt vaxandi vinsælda og Vera segir að ekki megi gera lítið úr framlagi þeirra til íslenskunnar. „Það er mikilvægt að það sé til efni á íslensku fyrir þennan hóp sem má segja að sé orðinn sjúkur í að vera alltaf að hlusta á eitthvað. Það er gott að fólk sé ekki bara að hlusta á ensk hlaðvörp og mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta möguleika, hvort sem það eru þættir eins og ég er að gera eða spjall og viðtöl. Þannig að það er mjög gaman að sjá þessa miklu hlaðvarpsgerjun.“