Stórmyndin Dune er enn eitt dæmið um hvernig Hollywood fórnar kjarnmiklum og vænlegum efnivið fyrir sjónarspil og hverful dópamínskot, að mati Magnúsar Björns Ólafssonar myndasöguhöfundar.
Beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu eftir kvikmyndinni Dune í leikstjórn Denis Villeneuve. Hún byggist á bók rithöfundarins Franks Herberts, einni mest seldu og áhrifamestu vísindaskáldsögu seinni ára. Aðalpersóna sögunnar er hertogasonurinn Paul Atreides sem flytur ásamt fjölskyldu sinni að undirlagi keisarans til plánetunnar Arrakis, þar sem ekkert líf þrífst nema ógnvænlegir sandormar og eyðimerkurfólk, sem nefnist Fremen. Á plánetunni er hins vegar dýrmætasta efni veraldar að finna, spice eða kryddið, skynaukandi efni sem gerir mannkyni kleift að ferðast um miklar vegalengdir á milli stjarna. Efnið er hins vegar aðeins að finna á þessari einu plánetu og yfirráð yfir henni því fallvölt gæfa. Þetta er önnur tilraunin til að gera sögunni skil á hvíta tjaldinu, en kvikmynd Davids Lynch síðan 1984 þótti á sínum tíma afar misheppnuð aðlögun á flóknum efnivið.
Rætt var um myndina í Lestarklefanum á Rás 1. Gestir þáttarins voru Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur, Þórður Ingi Jónsson, tónlistarmaður, og Magnús Björn Ólafsson, myndasöguhöfundur. Það voru mjög skiptar skoðanir um ágæti myndarinnar. Á meðan Þórður Ingi naut sjónarspilsins og sá ýmsar pólitískar skírskotanir í sögunni, þótti Magnúsi Birni hún vera innantóm og Auði Övu dauðleiddist.
„Ég var ástfanginn af þessari bók. Hún er meistaraverk,“ segir Magnús, en myndin sé hins vegar aðeins svipur hjá sjón. „Þetta er mikið sjónarspil en ekkert innihald. Ekki neitt. Senur eru tengdar saman án þess að þér séu gefnar sálrænar, tilfinningalegar eða rökrænar forsendur til þess að skilja hvað er í gangi.“
Bókin er margbrotin, með flóknum persónum og sálfræðilegri dýpt, segir hann. Í myndinni sé hins vegar allt einfaldað og áhorfendur mataðir á upplýsingum. „Þeir ætla að takast á við stóra og mikla bók, sem er háfantasía á borð við Hringadróttinssögu og á ekkert minna skilið. Þeir vilja passa sig að halda tryggð við beinagrind sögunnar og þegar þeir gera það þá missa þeir af því sem sagan í rauninni er: sálfræðistríð. Þú ert alltaf í höfðinu á fólki, þú ert alltaf að lesa í viðbrögð og ráða í það sem liggur á milli línanna þegar fólk er að tala saman og þér er hjálpað áleiðis við það. Það er galdurinn við bókina og galdurinn við söguna. En það er ekkert þannig í myndinni sem verður til þess að karakterarnir rista grunnt.“
Umgjörðin er stór og mikil, segir hann, en að baki er ekki neitt. „Ég hugsaði bara: Hollywood tekst að skemma allt. Það er ekkert sem þeim tekst ekki að skemma. Ég held að við séum orðin svo ónæm fyrir þessu, af því að það er varla gefin út mynd í dag án þess að það sé sjónarspil. Það er verið að höfða til adrenalínsins eða dópamínsins frekar en að snerta sálina í fólki.“
Dune er löng kvikmynd, tæpir þrír tímar, og þótti Auði Övu nóg um. „Mér finnst ég hafa búið í bíóinu í þrjár vikur.“ En þó myndin sé löng ímyndar hún sér að handritið hafi ekki verið lengra en 10 síður. „Það gerðist eiginlega ekkert í myndinni og mér fannst hún ofboðslega ruglingsleg og sundurlaus. Ég efast ekki um að Villeneuve sé hæfileikaríkur. Ég veit að hann hefur verið að gera flottar myndir en hann hefði þurft að ákveða sig hvaða stefnu myndin átti að taka.“