Önnur þáttaröð Exit, um hömlulaust líferni norskra auðmanna, er innihaldsrýr en skemmtileg afþreying segja gestir Lestarklefans. „Þetta eru í grunninn þættir um plebba.“

Önnur sería norsku sjónvarpsþáttanna Exit, eða Útrás, er komin út. Þættirnir eru sýndir á mánudögum á RÚV en einnig er hægt að horfa á aðra þáttaröð í heild í spilaranum.

Þættirnir hafa vakið mikla athygli fyrir sláandi lýsingar á siðspilltu líferni fjögurra norskra útrásarvíkinga. Í annarri seríu fylgjumst áfram við með lífi og störfum Adam, Henrik, Jeppe og William en þar er meiri áhersla lögð á konurnar í lífi þeirra, sem þeir hafa ráðskast með og beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi, áður en þeir hrekja þær burt frá sér.

Rætt var um þættina í Lestarklefanum á Rás 1, umræðuþætti um menningu og listir. Kristrún Heiða Hauksdóttir upplýsingafulltrúi hóf þáttinn á að gangast við Noregsfordómum sínum. „Þessi upplifun að horfa á Exit breytti sýn minni á Noreg. Ég hef sjálf aldrei komið til Noregs og ég er ekki að segja að þetta sé hvatning fyrir mig að bæta úr því. Þetta er samt þrælmagnað stöff og auðvelt að detta í hámhorf, þetta er þannig byggt upp.“ Önnur þáttaröðin bæti þó ekki miklu við þá fyrri, þrátt fyrir skarpara sjónarhorn á upplifun kvennanna í lífi útrásarvíkinganna. „Þetta er kannski ekki innihaldsríkt en afar skemmtileg afþreying.“

Sigurður Björn Blöndal tónlistarmaður fór beint í djúpu laugina í annarri þáttaröð án þess að horfa á þá fyrri. Hann þurfti einnig að gangast við eigin fordómum, sem eru þó annars eðlis en Kristrúnar. „Ég var búinn að heyra talað um að þetta væri rosalegt. Mín reynsla er sú að þegar mikið er talað um að eitthvað sé rosalegt, þá verð ég fyrir vonbrigðum.“ Honum þótti þó þættirnir ágætir. „Ég hef enga djúpa fordóma fyrir Noregi og því síður eftir þessa þætti því það er alltaf gott veður þarna. Það var enginn munur á Spánarsenunni og Oslósenunni, alveg sama loftslag. Þetta eru í grunninn þættir um plebba. Mér fannst þetta ágætlega byggt upp.“ Aðalpersónur þáttanna eru fjarri því dyggðugar manneskjur og segir Sigurður Björn það oft verða leiðigjarnt að horfa á þætti þar sem hann hefur ekki samúð með neinum. „Svoleiðis þættir þurfa að vera rosalega vel skrifaðir en svo var náttúrulega reynt að láta þessa dússara sýna einhverja mannlega eiginleika. En eins og ég segi, þetta eru svona mjúkir Goodfellas. Adam er Joe Pesci, en Joe Pesci er harðari.“

Kristrún segir að það hjálpi þáttunum að þeir gerist í Noregi. „Maður er útlifaður í áhorfi. Þetta er yfirgengilegt en maður hefur séð svo margt yfirgengilegt. Það sem vakti forvitni mína er staðsetningin og það er framandi að heyra þá gaspra um sitt öfgafulla líferni á norsku. Mér finnst samt pínu lýjandi að horfa á þessa þætti, þetta er sami yfirgengileikinn, sami djókurinn, sami hedónisminn og sódóma og gómorra út í eitt. Maður verður pínu þreyttur og þarf bara að lesa smá ljóð eftir að hafa horft á þessa þætti.“

Hildigunnur Rúnarsdóttir tónskáld segir að það sé á vissan hátt hollt fyrir Íslendinga að horfa á þættina, eftir allt sem á undan er gengið. „Það er pínulítið gott að horfa á þetta. Af því að umræðan hér hefur verið um hvað Íslendingar eru ömurlegir en þetta er ekkert verra hér heldur en annars staðar. Norðmenn eiga þetta til og Danir eiga þetta til. Þetta er alls staðar.“