„Ég veit alveg hvað getur skeð og allt það en ég er ekki með þvílíkar áhyggjur. Það eru svo margir í kringum mann sem eru ekkert að pæla í þessu þannig að af hverju á ég að vera ógeðslega mikið að passa mig? Á ég bara að taka þetta á mig? Mér finnst í raun vera meira sem dregur úr manni en hvetur mann.“

Þetta segir Björgvin Logi Sveinsson. Hann og Eydís Helga Pétursdóttir, kærastan hans, sitja við borðstofuborðið heima á Akureyri og ræða hvað drífur þau áfram í að breyta lífsstílnum fyrir loftslagið og hvað dregur úr þeim. Eydís skilur vel hvað Björgvin er að fara en hún hefur meiri áhyggjur og finnst sér bera skylda til að gera eitthvað í málunum. „Ég er alveg sammála, stundum hugsa ég til hvers er ég að þessu, það sem ég geri breytir ekki neinu en málið er og draumarnir að nú eigum við dóttur og fyrri kynslóðir vissu bara ekki jafn mikið og við vitum í dag.“

Kvíðinn sljóvgar

Hvernig heldur maður í metnaðinn og gleðina þegar vandamálið er alvarlegt, ótrúlega stórt, tíminn að hlaupa frá okkur og allt sem maður gerir bara dropi í hafið? Í fjórða þætti af Loftslagsdæminu gefur Snjólaug Ólafsdóttir, umhverfisverkfræðingur og sjálfbærnimarkþjálfi, fjölskyldunum fjórum sem taka þátt góð ráð. „Þegar við erum að breyta eins og núna og þið eruð að breyta mjög miklu í ykkar venjum, þá er gagnslaust að knýja þessar breytingar á kvíðanum einum saman. Þá förum við að sljóvgast, við náum því ekki til lengdar. Er eitthvað annað sem þið getið notað sem ykkar drifkraft til að gera vel?“ Spyr Snjólaug.

Fjölskyldurnar fjórar sem taka þátt í verkefninu stefna að því að minnka kolefnisspor sitt um 25% á tveimur mánuðum og það getur tekið á. 

Hér má skoða kolefnisspor hverrar fjölskyldu við upphaf verkefnisins. 

Hvernig breytir maður lífi sínu í þágu loftslagsins án þess að springa á limminu? Þarf að færa fórnir? Hverju vilja fjölskyldurnar alls ekki fórna? Fjölskyldurnar ræða þetta í þættinum. Snjólaug fjallar líka um mennskuna, fyrirmyndir og óþolandi fullkomið fólk á Instagram. 

Hér má hlusta á þáttinn og aðra þætti af Loftslagsdæminu. Næsti þáttur fer í loftið á morgun kl. 10:15 á Rás 1.