Gösta, eftir Lukas Moodyson, eru átakanlega fyndnir gamanþættir um sænskt góðmenni sem má ekkert aumt sjá. „Hann Gösta er svo hræðilega góður, svo mikill „dumsnäll“. Það er svo hressandi að horfa á þátt um mann sem setur engin mörk,“ segir Rán Flygenring teiknari og barnabókahöfundur.
Grínþættirnir Gösta eru framleiddir af Evrópudeild HBO, voru frumsýndir í Svíþjóð 2019 en eru nú aðgengilegir í spilara RÚV. Þættirnir fjalla um Gösta, ungan nýútskrifaðan barnasálfræðing frá Stokkhólmi sem fær starf á unglingageðdeild í Smálöndunum. Hann er svo einstaklega góðhjartaður, svo góður og gjafmildur, að fólk sogast að honum með vandamál og sorgir. Fljótt er heimili hans yfirfullt af ættingjum, vinum og ókunnugum sem eru algjörlega háðir góðmennsku Gösta.
Rán Flygenring, Jón Gnarr og Birta Guðjónsdóttir ræddu um þættina í Lestarklefanum á Rás 1. Þau mæla heilshugar með þeim en það er rétt að geta þess hér að þeir hverfa úr spilara RÚV 31. janúar og því rétt að hafa hraðar hendur til að sjá þá.
„Ég verð að segja það, ég hló ekki, heldur tók ég andköf og mér leið pínu eins og þegar maður er að horfa á Klovn. Ég lá með tölvuna á mér og ég saup svo miklar hveljur að ég hlaut áverka því tölvan datt á andlitið á mér,“ segir Rán og bætir við að það sé einstaklega hressandi að fylgjast með manni sem setur sér engin mörk á tímum þar sem allir eru einbeittir í að gæta að mörkum og skila skömminni.
„Alla þáttaröðina er Gösta að gefa og gefa og hefur ekkert. Maður heldur alltaf í hverjum þætti að hann spyrni við fótum, en hann gerir það ekki. Mér fannst geggjað að halla mér aftur í það og fylgjast með hvað gerist þegar þessi mörk koma aldrei. Mér fannst það brjálæðislega hressandi og vakti upp fullt af spurningum um hvað það er að vera góður eða réttlátur eða hvert það leiðir mann.“
Jón Gnarr er þekktur fyrir dálæti sitt á sænsku þjóðfélagi og menningu. „Ég dýrka allt sem sænskt er. Ef það er töluð sænska þá get ég horft á það, mér finnst það notalegt. Það er dáleiðandi fyrir mig,“ segir hann og varð ekki svikinn af Gösta. „Mér fannst þetta alveg frábært. Lukas Moodyson er að fara aftur í ræturnar sem kvikmyndagerðarmaður, gera svipað og í kvikmyndunum Fucking Åmål og Tilsammans, þetta hallærislega sænska rétttrúnaðarlíf. Þetta svona mussulega sænska grín, þessar sænsku týpur sem eru svo uppskrúfaðar en með allt í tómu tjóni fyrir aftan sig.“ Þáttaröðin hafi þó verið aðeins of löng. „Það hefði mátt sleppa þremur þáttum,“ segir hann.
Birtu Guðjónsdóttur fannst aftur á móti lopinn þola það vel að vera teygður. „Mér fannst þetta æðislegir þættir og er algjör aðdáandi. Mér fannst þeir svo mikið góðgæti að mér fannst fínt að teygja lopann.“