Skáldsagan Jóhann Kristófer eftir Romain Rolland er bók vikunnar á Rás 1.
Það er engin tilviljun að aðalpersónan í frönsku skáldsögunni Jóhann Kristófer er Þjóðverji, segir Gísli Magnússon, prófessor í mála- og menningardeild Háskóla Íslands. „Það er heldur engin tilviljun að bókin fjallar í raun um vináttu milli þýsks tónskálds og fransks höfundar. Þetta er táknrænt fyrir hugsjónir Romain Rolland. Hann var mikill friðarsinni og barðist gegn þjóðernishyggjunni í Evrópu um þessar mundir.“
Bók vikunnar er tíu binda skáldsaga, Jóhann Kristófer eftir franska höfundinn Romain Rolland. Hún kom út í frönsku tímariti á árunum 1904 til 1912 og aflaði höfundinum svo mikillar frægðar að hann fékk þremur árum síðar Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Rolland hafði áður skrifað meðal annars leikrit og ævisögur en þetta skáldverk tryggði honum bæði stóran lesendahóp og hylli menningarelítunnar. Þetta er þroskasaga tónlistarsnillingsins Jóhanns Kristófers og um leið er það gagnrýnin og lífleg lýsing á evrópsku menningarlífi, og þá fyrst og fremst menningarlífi Parísarborgar, á síðustu áratugum 19. aldar.
Gestir sunnudagsþáttarins verða Freyja Gunnlaugsdóttir, tónlistarmaður sem innan skamms tekur við stöðu skólameistara Menntaskóla í tónlist, og Gérard Lemarquis frönskukennari.