„Þau verða reið og reið út í mann og ég skil það. Ég verð reið út í sjálfa mig,“ segir Sigríður Dögg Arnardóttir sem gekk í gegnum erfiðan skilnað fyrr á árinu. Sú ákvörðun setti líf hennar tímabundið úr skorðum og hafði ekki síst áhrif á börn hennar.
Þegar hún áttaði sig á að skilnaður væri óhjákvæmilegur kynnti hún sér leiðir til að ræða við börnin og koma þeim í skilning um erfiðar aðstæður og hvernig væri hægt að lifa með nýjum og breyttum veruleika. Hún fann alls konar fræðsluefni fyrir fullorðna en ekkert lesefni fyrir börn og ákvað því sjálf að setjast við skriftir. Nú er komin út barnabók hennar Að eilífu, ég lofa sem fjallar um þessi mál og hvernig lífið getur verið bærilegt þó foreldrar skilji.
Sigríður Dögg, sem yfirleitt er kölluð Sigga Dögg, er kynfræðingur og hefur sinnt kynfræðslu fyrir alla aldurshópa og vakið fyrir það athygli. Í nýju bókinni kveður við allt annan tón. „Ekkert klobbatal hérna,“ segir hún kímin.
„Ég er móðirin sem skemmdi börnin sín“
Þegar það var að renna upp fyrir Sigríði Dögg að skilnaður væri yfirvofandi segist hún fyrst hafa verið í afneitun. „Bara, þetta lagast, þetta reddast,“ rifjar hún upp að hafa hugsað. Þegar hún loks viðurkenndi fyrir sjálfri sér hvað væri í vændum fékk hún hugmyndina að bókinni. „Um leið og ég gef mig almættinu á vald verður þetta mín leið til að fá birtu inn í lífið,“ segir hún.
Hún hafði miklar áhyggjur af því hvernig börnin tækju breytingunum og óttaðist að þær myndu leggjast sérstaklega þungt á þau. „Mér fannst ég bara vera að fara að skemma börnin mín. Ég var bara: Ég er þetta foreldri, þessi móðir. Móðirin sem skemmdi börnin sín,“ segir hún. Hún ákvað að reyna að sannfæra börnin sín um að þó það væri erfitt núna þá yrði allt í lagi.
Hjálpleg bæði börnum og fullorðnum
Í kjölfarið varð handritið til að bókinni sem lýsir heimi þar sem foreldrar skilja en börnin átta sig á að það verður allt í lagi. „Þetta var ótrúlega heilandi fyrir mig og í raun mitt haldreipi. Ég get þetta, þetta er allt í lagi og ég er ekki að fara að skemma börnin mín,“ segir hún. „Hér er heimur sem ég get stuðst við og haft mér til halds og trausts þar sem eru til börn sem geta komist í gegnum þetta og foreldrarnir líka.“ Hún vonar að bókin eigi eftir að hjálpa öðrum börnum og foreldrum að átta sig á og lifa í þeim heimi.
Sigríður Dögg settist við skriftir í desember í fyrra og hún segir bókina hafa orðið til á ógnarhraða. „Ég man eiginlega mjög takmarkað eftir jólunum í fyrra því fyrir mér var ég bara inni í tölvunni,“ segir hún. Þegar verkið fór að taka á sig mynd fékk hún ómetanlegan yfirlestur frá rithöfundunum Vigdísi Grímsdóttur og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Þær bentu henni á að bókin væri líka heilandi fyrir fullorðna sem hafa gengið í gegnum skilnað foreldra sinna sem börn.
„Geta þau hætt að elska mig?“
Sjálf man hún eftir að vera ringluð í þessum sporum, þó hennar eigin foreldrar hafi ekki skilið þá skildi fólk í kringum hana og það vakti hjá henni spurningar sem barn. „Ég hafði líka þessar hugsanir, hugmyndir og spurningar og ég fékk kannski engin svör,“ segir hún. Hún minnist þess að hafa heyrt sem barn útskýringu á skilnaði á þá leið að ástin hafi slokknað og klárast. Það vakti ugg hjá henni ungri. „Ég hugsaði: Ókei. Ef hún getur klárast á milli foreldra, getur hún þá klárast á milli foreldra og barns? Geta þau hætt að elska mig?“ rifjar hún upp. Hún þorði þó ekki að spyrja neinn því hún óttaðist svarið.
Í bókinni ættu hins vegar bæði börn og fullorðnir að geta fundið svörin við slíkum vangaveltum. „Þetta er bók fyrir fólk sem hefur gengið í gegnum þetta ferli en er líka kannski fróðleg fyrir þá sem eru ekki þarna. Það getur hjálpað krökkunum að skilja hvernig öðrum krökkum líður.“
„Sem foreldri stendur maður oft á gati“
Það kann að hljóma eins og bókin sé eins konar handbók en hún er þó fyrst og fremst saga um ástir og örlög, lítil skot og barnslegar þrár og drauma, að sögn Sigríðar Daggar. „Ég las bókina fyrir börnin mín og ég vil ekki gefa upp endirnn því hann kemur á óvart en dóttir mín sem er níu ára sagði: Þú verður að skrifa framhald. Ég er svo spennt að vita,“ segir hún. Dóttir hennar var aðallega spennt að vita hvað væri að frétta af vinunum í bókinni og hver áform þeirra væru.
Frekari viðbragða er enn að vænta en bókin kom í búðir í vikunni. Sigríður Dögg hefur fengið skilaboð frá fólki sem kveðst spennt að gefa barninu sínu bókina og hún hefur staðið sig að því að afsaka hana og benda á að hún fjalli um skilnað.
„En mér þykir ótrúlega vænt um hana og veit að eins og fyrir mig, þó foreldrar mínir hafi ekki skilið þá er þetta bók sem ég hefði sjálf legið í því það eru svo margar spurningar um bara ástina og sambönd,“ segir hún. „Bækurnar eru svo dýrmætt haldreipi þegar maður er að reyna að skilja heiminn og fólk hefur kannski ekki alltaf tíma til að svara spurningum eða hreinlega þekkir ekki svörin. Sem foreldri stendur maður ansi oft á gati.“
Sá glaða foreldra með nýjum maka og stjúpbörnum
Þegar Sigríður Dögg gekk í gegnum þetta erfiða ferli fór hún að velta fyrir sér hvort það væri líf eftir skilnaðinn. Hún fletti upp fólki á Facebook sem hún vissi að hefði skilið og var fegin að sjá marga í nýjum samböndum eða með nýjum stjúpbörnum og bros á vör. „Þá hugsaði ég: Ókei þetta er hægt. Það small eitthvað í höfðinu á mér,“ segir hún.
Óttast ekki lengur framtíðar-stjúpmömmu barnanna
Þó hún hafi fyrst um sinn fundist tilhugsunin um að börnin hennar eignuðust nýja stjúpmóður erfitt þá breyttist það. „Allt í einu var ég ekki bara: ómægad, kannski eignast börnin mín nýja stjúpmömmu og hætta með mér. Það varð algjör hugarfarsbreyting yfir í: Vá, hvað þau eiga æðislega stjúpmömmu sem kann allt sem ég kann ekki og bætir þeim það upp. Svo er hún svo skemmtileg og nennir að gera þetta og hitt og allt í einu var ég orðin spennt fyrir þessari framtíðar-ósýnilegu stjúpmömmu.“
Þetta þarf ekki að vera stór martröð
Hugarfarsbreytingin hjálpaði henni að sjá hlutina í bjartara ljósi. „Þetta þarf ekki að vera þessi stóra martröð þar sem ég er að brjóta þau. Ég get verið að færa þeim ótrúleg tækifæri og nýtt líf. Þetta er allt spurning um að passa upp á þau og taka öll erfiðu samtölin,“ segir hún. „Sitja með þeim og spjalla.“
Stundum verða samtölin erfið og þá fá þau að vera það. „Þau verða reið og reið út í mann og ég skil það. Ég verð reið út í sjálfa mig,“ segir hún. „Þá er ég bara: Ég skal taka við þessu öllu. Við förum í gegnum þetta og þetta verður allt í lagi.“
Dillandi kát með lífið í dag
En er líf eftir skilnað? „Algjörlega,“ segir Sigríður Dögg. „Ég er virkilega hamingjusöm og ég held þetta hafi verið mikið gæfuspor. Maður þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér og í skilnaði snýst það líka um að horfast í augu við hluti sem maður er búinn að grafa niður, og gangast við þeim.“
Í dag er hún ánægð með lífið. „Ég er eiginlega dillandi glöð og kát með lífið, þakklát fyrir sólina og stjörnurnar og allt saman.“
Rætt var við Sigríði Dögg í Morgunútvarpinu á Rás 2.