Það er margt sem gæti verið gaman að sjá tekið lengra í íslensku nútímaóperunni Ekkert er sorglegra en manneskjan, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. Samstarf höfunda virðist fela í sér spennandi möguleika en listræn afkastageta hópsins hafi ekki verið hámörkuð.
Snæbjörn Brynjarsson skrifar:
Ekkert er sorglegra en manneskjan, ný íslensk nútímaópera, var sýnd í Tjarnarbíó nýverið. Tónlistin er eftir Friðrik Margrétar Guðmundsson en texti og leikstjórn var í höndum Adolfs Smára Unnarssonar, leikmynd og búningar eftir Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur. Matthías Tryggvi Haraldsson var dramatúrg, myndbandsvinnslu annaðist Elmar Þórarinsson, Pétur Björnsson sá um tónlistarstjórn og um ljósahönnun sá kórdrengurinn Hafliði Emil Barðason.
Að verkinu komu fleiri listamenn, fimm manna hljómsveit sá um undirspil, með klarínett, flautu, fiðlu, selló og harmónikku, og fjórir söngvarar voru með hlutverk í sýningunni. Þau stigu á sviðið klædd eins og fyrir sólarlandaferðalag, með ferðatöskur í eftirdragi, og ráfuðu um í þokukenndu landslagi. Þegar steríl lýsingin jókst sáum við tvívíð pálmatré og stóla, en frekar en að líða eins og við værum að fylgjast með fólki á sólarströnd var þetta líkara biðstofu, og minnti kannski allra helst á einmanalega flugstöð þar sem framkvæmdir standa yfir. Fyrir ofan pálmatrén voru bleik neonljós og skjár sem sýndi skýjamyndir og ýmsa aðra óreiðu, ásamt textavél sem þýddi texta verksins jafnóðum.
Eins og titillinn Ekkert er sorglegra en manneskjan gefur til kynna var umfjöllunarefnið þunglyndislegt, leit manneskjunnar að hamingjunni. Ekkert er þunglyndislegra en að leita hamingjunnar, enda leitar maður ekki einhvers sem maður hefur, einungis þess sem mann skortir, en verkið gæti líka heitið ekkert er hlægilegra en manneskjan því textarnir eru fyndnir og það er mikill húmor í verkinu, og gagnrýni á þessa hamingjuleit. Í óperunni er sungið um draumastarfið, hvaða eiginleika er æskilegt að manneskjur hafi, og um afkastagetuna. Persónurnar þrá ekki aðeins að vera afkastamiklar í starfi, heldur vilja þær auka framleiðnina í frítíma sínum líka, og afkasta eins mikilli hamingju og hægt er, en auðvitað um leið og einhver mælistika er sett á gleðina, og einhver krafa um að upplifa hana, er líkt og hún hverfi sem dögg fyrir sólu. Það skiptir þá engu hvort maður sé í vinnunni eða á sólarströnd, leiti maður hamingjunnar finnur maður hana ekki.
Í þessum pistli hyggst ég forðast að leggja mat á tónlistina, eða í það minnsta flutning hennar, því ég tel mig ekki hafa faglegar forsendur til að meta hana, en sem áhugamaður get ég sagt að hún var ánægjuleg áheyrnar, tenórinn Dagur Þorgrímsson og baritónninn Ólafur Freyr Birkisson sungu með prýði, að því er mér, ófaglærðum tónlistarunnanda, fannst, og sama get ég sagt um sópransöngkonurnar Maríu Sól Ingólfsdóttur og Heiðdísi Hönnu Sigurðardóttur. Þá þótti mér María Sól einstaklega fyndin í frammistöðu sinni þegar hún söng um afkastagetuna og í hópfimleika-atriðinu. En þar sem bakgrunnur minn er í leikhúsi en ekki tónlist verður þetta að duga sem umsögn um tónlistarflutninginn.
Helsti ókostur óperunnar er hversu þunnur efniviður hennar í raun og veru er. Ljóðin sem tónlistin er samin við eru það hjákátleg að það vekur hlátur vissulega, þegar búið er að semja mjög metnaðarfulla tónlist og sungið mjög alvörugefið um að njóta þess að sólin skín, segja grín, drekka vín, þá getur maður ekki annað en hlegið, en það er erfitt að byggja heilt verk á kaldhæðinni fjarlægð frá viðfangsefninu. Vegna þessa finnst mér miklar sveiflur í gæðum sýningarinnar, hún er vissulega ánægjuleg, en það hefði kannski mátt leyfa sér meiri heimspekilegar vangaveltur, meiri einlægni eða alvöru til að rannsaka innstu þrár og langanir mannfólksins. Að hæðast að hressleikanum er orðin algengasta leikhúsklisjan sem maður rekst á, og oftar en ekki er reynt að skapa spennu með leiðindum, sem sumum tekst og öðrum ekki.
En það var í sjálfu sér ekkert að þessari sýningu. Ekkert að, ekki neitt, eins og flytjendurnir sungu, hún flæddi þægilega og var ánægjuleg þó svo efniviðurinn byði upp á meira. Helsti kostur sýningarinnar, að undanskilinni tónlistinni, var sviðsmynd Bryndísar, sem smellpassaði við angurværð og kaldhæðni óperunnar.
Ekkert er sorglegra en manneskjan, en stutt er á milli harmleiksins og kómedíunnar. Í þessu verki er margt sem gæti verið gaman að sjá tekið lengra, samstarfið milli Adolfs Smára, Friðriks og Bryndísar Óskar virðist fela í sér spennandi möguleika, og niðurstöðurnar gætu orðið athyglisverðar ef þau hafa áhuga á að halda því áfram. Í það minnsta tel ég listræna afkastagetu þess enn ekki hámarkaða.