Í dag eru 50 ár síðan bændur í Suður-Þingeyjarsýslu sprengdu í loft upp stíflu í Laxá við Mývatn. Hundrað og þrettán manns lýstu verkinu á hendur sér og 65 voru ákærðir. Fjallað er um atburðinn í heimildarmyndinni Hvellur eftir Grím Hákonarson sem er á dagskrá RÚV annað kvöld.

„Laxárvirkjun hafði iðulega skilið eftir dýnamít í gjótum meðfram ánni þegar verið var að sprengja klakastíflur úr Laxá. Það var náttúrulega fyrsta verk að safna þessu saman,“ segir Hólmfríður Jónsdóttir bóndi á Arnarvatni við Mývatn, sem var á staðnum. „Mönnum fannst náttúrulega ekki síður skemmtilegt að nota dýnamít frá þeim sjálfum til að dúndra stíflunni í burtu.“

„Það var byrjað á að athuga hvort væri hægt að sprengja stífluna neðan frá. Ekki höfðum við loftpressu til að bora fyrir þannig það var farið í að grafa holur vatnsmegin og koma dýnamítinu þar niður,“ segir Völdundur Hermóðsson bóndi í Árnesi í Aðaldal. Honum var það til happs að hafa nýverið lesið spennusögu eftir Alistair McLean. „Þar sem verið var að sprengja stíflu í Júgóslavíu á stríðsárunum. Þar notuðu þeir þá aðferð að koma sprengiefninu vatnsmegin fyrir. Það var niðurstaðan að fylgja því.“

Guðmundur Jónsson frá Hofstöðum segir að dýnamítinu hafi verið skipt niður í þrjár sprengjur. „Maður vildi ekki hafa þetta voðalega sterkt af því við höfðum ekki langan kapal. Svo var fólkið bara rekið upp með á á meðan sprengt var.“ Ævar Kjartansson sem var vinnumaður í Árnesi lýsir því að rafmögnuð stemmning hafi verið meðal bændanna í undirbúningnum á árbakkanum. „Sem ungkommúnisti fannst mér sjálfsagt að prófa að syngja Nallann. En aðallega sungu menn ættjarðarlög á bakkanum meðan var verið að ganga frá tengingu við túburnar.“ Og ekki dró móðinn úr fólki eftir sprenginguna. „Bara grjótregnið og alvöru sprenging. Þvílík fagnaðarlæti og að sjá ána streyma óhindrað niður eins og hún átti að gera, var algjörlega ógleymanlegt,“ segir Hildur Hermóðsdóttir í Árnesi í Aðaldal.

Hvellur er á dagskrá RÚV 26. ágúst kl. 22:20.