„Hann var gimsteinninn í lífi mínu,“ segir Vigdís Finnbogadóttir um litla bróður sinn Þorvald Finnbogason sem lést af slysförum sumarið eftir að hann varð stúdent. Hún segir frá uppvextinum og forsetatíð sinni í heimildarmyndinni Vigdís forseti sem sýnd er á RÚV í dag.

Hvert íslenskt mannsbarn þekkir Vigdísi Finnbogadóttur, afrek hennar og arfleifð. Í ár, á níræðisafmæli Vigdísar, eru liðin fjörutíu ár frá því hún varð fyrsta konan í heimi til að ná kjöri sem forseti í almennum kosningum. Með kjörinu var eins og flestir vita brotið blað í réttindasögu kvenna. Daginn eftir að ljóst varð að hún tæki við embættinu var greint frá því í dagblaði að bæði karlar og konur hefðu fellt tár á götum úti.

Hreykin þegar honum var hrósað fyrir að vera fallegur

Hún var frumburður foreldra sinna en eignaðist einn bróður sem var aðeins rúmu ári yngri en hún. Þorvaldur og Vigdís voru afar samrýnd systkini og bestu vinir allan uppvöxtinn en Vigdís leit á sig sem verndara bróður síns. Sumarið eftir að Þorvaldur varð stúdent varð Vigdís því fyrir gríðarlegu áfalli þegar litli bróðir hennar drukknaði í Hreðavatni. Vigdís minnist bróður síns með mikilli hlýju í heimildarmyndinni Vigdís forseti eftir Steinunni Sigurðardóttur skáldkonu. „Við ólumst upp sem leikfélagar en ég var stóra systir og gætti hans ákaflega vel. Hann var gimsteinninn í lífi mínu,“ rifjar Vigdís upp.

Og það gerði hana sérstaklega stolta þegar litla bróður hennar var hrósað, sem gerðist enda mjög oft. „Það var alltaf haft orð á því hvað hann væri fallegur og mér þótti mjög vænt um það. Það sagði enginn að ég væri neitt sérstaklega falleg, en að þau skyldu segja það um hann. Ég var svo hreykin af honum.“

„Þú hefur misst mest“

Þegar Þorvaldur lést sagði faðir Vigdísar svolítið við hana sem hún gleymir aldrei. „Þú hefur misst mest. Ég horfði á hann og fannst það vera þau, það var svo mikið tekið frá þeim,“ segir Vigdís. En eftir því sem árin liðu skildi hún hvað hann var að meina. „Ég missti þann förunaut sem hefði fylgt mér alla ævi og miklu lengur en þeim. Ég sakna hans mikið enn þann dag í dag.“

Heimildarmyndin Vigdís forseti í leikstjórn Steinunnar Sigurðardóttur er tekin á árunum 1993 og 1994. Að stærstum hluta er fjallað um starf forseta á þessum árum en einnig er fjallað um bernsku Vigdísar, námsár og fyrri störf. Þá er gerð grein fyrir aðdraganda þess að Vigdís var kosin forseti, fjallað um eðli og umsvif embættisins og leitast við að greina breytingar á því í tíð Vigdísar. Hún er á dagskrá RÚV í dag klukkan 16:30.