Unglingabókin Daði byggir á algengum spurningum og umræðum drengja úr kynfræðslu Siggu Daggar kynfræðings um land allt undanfarin tíu ár. Bókin er fræðandi og skemmtileg, segir Halla Þórlaug Óskarsdóttir. „Ég efa það ekki í eina sekúndu að unglingar munu hafa gaman af þessari bók.“
Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar:
Sigga Dögg kynfræðingur er landsmönnum kunn fyrir pistla sína og fyrirlestra um ýmis mál tengd kynlífi. Hún hefur sinnt kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum og eftir því sem ég best veit hefur hún gert það vel og kannski umfram allt hispurslaust. Hún hefur tekið að sér að stinga á ýmis umræðukýli og skömm og feimni eru víðsfjarri þar sem Sigga Dögg tekur til máls.
Hún hefur nú sent frá sér tvær unglingabækur, annars vegar bókina KynVeru sem kom út árið 2018 – og byggir víst að einhverju leyti á eigin reynslu höfundar – og svo þá, sem hér verður til umfjöllunar, Daði, sem kom út í fyrra. Þær tengjast innbyrðis og seinni bókin er sjálfstætt framhald þeirrar fyrrnefndu. Ég hef ekki lesið KynVeru svo ég get ekki fullyrt neitt um innihald hennar, nema að ég veit að þar er sögumaðurinn Vera, en hún og Daði eiga vingott hvort við annað um stund. Daði tekur svo við sem sögumaður í seinni bókinni, eins og nafnið gefur til kynna.
Nokkrum sinnum við lestur bókarinnar fann ég fyrir því að hafa ekki lesið fyrri bókina, það var vísað í „eitthvað rugl“ og „vesen“ sem dyggir lesendur KynVeru hafa eflaust skilið samstundis, en það kom þó ekki að sök, ég skáldaði bara í eyðurnar. Ég var jú einu sinni unglingur sjálf og þekki ýmsar útgáfur af „einhverju rugli“ og „veseni“ ágætlega.
Ég ímynda mér að Sigga Dögg hafi safnað efni í bókina í samskiptum sínum við unglinga landsins í kynfræðslu. Bókin er augljóslega ætluð til fræðslu og notar höfundur samtöl sögupersóna til að koma henni til skila. Þetta er snjöll leið til að gera fræðsluna aðgengilega og ná bæði að varpa fram og svara ótal spurningum á einfaldan máta.
Flest samtölin fara fram á milli Daða og besta vinar hans, Róberts. Róbert er sjálfsöruggur og ræðir opinskátt um upplifanir sínar, hugmyndir og langanir. Hann er ófeiminn við að prófa sig áfram hvað varðar eigin kynhneigð og ræðir það við besta vin sinn. Unglingarnir í bókinni eru reyndar upp til hópa fremur fordómalausir í þessum efnum, eins og ég held líka að raunin sé, blessunarlega, á okkar tímum.
Unglingspiltarnir ræða mikið um kynlíf. Þeir ræða reyndar eiginlega ekki um neitt annað en kynlíf. Nú hef ég aldrei verið unglingspiltur sjálf og þekki ekki hvernig þeir ræða málin sín á milli en ég vona að þeir séu jafneinlægir og opinskáir og þeir Daði og Róbert. Mér finnst það reyndar ekki sennilegt, en hvað veit ég. Félagarnir deila kynlífstengdum vangaveltum og reynslusögum hvor með öðrum og einnig áhyggjur af ástandi kynfæra sinna. Þröng forhúð, stór, lítil og blæðandi typpi. Þeir hafa þó sín umræðumörk, viðkvæmni og dýpstu tilfinningar ná ekki nema örsjaldan upp á yfirborðið.
En þrátt fyrir að bókin sé bersýnilega samin sem fræðslubók í dulargervi þá þarf einhverja framvindu – söguþráðurinn er dulargervið. Og sagan fjallar um Daða og ástarmál hans. Það er svona grunnurinn. Hann er að hitta Katrínu í þessari bók en smám saman kemur í ljós að hjarta hans er enn í molum eftir að slitnaði upp úr sambandi hans og Veru. Við komum betur að því síðar. Fyrst langar mig að tala um mömmu hans Daða.
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Mamma hans Daða fellur inn í mengi þess sem ég held að fyrri bókin, KynVera, hjálpi til við að skilja. Einhver forsaga hefur átt sér stað og kannski, ef ég þekkti hana, hefði mamman ekki stuðað mig jafnmikið til að byrja með. Kannski hefði ég umborið hana á annan hátt. En mamma hans Daða fannst mér tvímælalaust áhugaverðasta persóna bókarinnar. Í upphafi – og eiginlega út alla bókina – fannst mér hún virkilega óþægileg, hún vakti upp reiði og ég skildi ekki hvert höfundur var að fara með þessum einkennilegu lýsingum á samskiptum mæðginanna. Ég skal reyna að útskýra:
Mömmu hans Daða er mikið í mun að fræða son sinn um kynlíf. Mjög mikið í mun. Svo mikið er henni í mun um þessa kynfræðslu að hún veður yfir öll velsæmismörk að mínu mati. Og ég barðist við þessa gagnrýni í gegnum lesturinn: Er ég svona mikil tepra? Er ég orðin miðaldra? Er það svona sem á að nálgast þessa umræðu? Er þetta framtíðin?
Ég neyðist til að taka fáein dæmi um hegðun móðurinnar, þótt ég kunni næstum ekki við það. Sem dæmi má nefna að hún gengur einu sinni inn á son sinn stunda sjálfsfróun og í stað þess að afsaka sig og fara út í óðagoti, sem teljast mættu eðlileg viðbrögð, þá stendur hún og horfir á hann. Stolt. Og daginn eftir tilkynnir hún ættingjum yfir kvöldverðinum, þau tíðindi að sonur hennar sé byrjaður að rúnka sér. Og ekki nóg með það heldur skilur hún eftir hvatningarorð og heilræði á miðum, ásamt sleipiefni og þvottapokum út um allt hús. Ég gæti talið upp mörg önnur stórfurðuleg dæmi um hátterni hennar.
Reiðin sem vaknaði innra með mér beindist fyrst að höfundinum; „æ kommon Sigga Dögg, jájá allt gott og blessað að opna umræðuna en er þetta ekki fulllangt gengið,“ hugsaði ég. Ósjálfrátt sneri ég kynjahlutverkunum við og sá fyrir mér hryllingssögu þar sem faðir kemur svona fram við unglingsdóttur sína. Það er vitaskuld ekkert verra, bara nákvæmlega jafnhræðilega vont. En þessi samlíking opinberar samt rótgrónar hugmyndir um kynin og tilfinningar þeirra, hugmyndir sem Sigga Dögg fjallar meðal annars um – og afbyggir – í bókinni um Daða.
En smám saman afhjúpaðist sú staðreynd að mamma hans Daða er lasin. Hún glímir við einhvers konar geðræn vandamál sem birtast helst í markaleysi. Þegar þetta rann upp fyrir mér sá ég stöðuna í allt öðru ljósi, eðlilega. Þetta er þungt umfjöllunarefni, geðsjúkdómur foreldris, og þótt það sé ekki farið ofan í saumana á þessu máli, lita heimilisaðstæður Daða vissulega söguþráðinn. Mig grunar að saga mömmu hans sé tekin fyrir í fyrri bókinni, KynVeru.
Í upphafi bókarinnar hélt ég að Sigga Dögg kynfræðingur væri að reyna að setja fram opin samskipti foreldra og barna um kynlíf, ég las þetta sem tillögu af hennar hálfu, en í raun er hún að mála upp dæmi um fullkomlega markalaus samskipti. Og mörk og virðing eru til umfjöllunar á fleiri stöðum í bókinni.
Eins og ég nefndi áðan er Daði enn djúpt haldinn af ástarsorg eftir sambandslit sín við Veru. Ég geri ráð fyrir að saga þeirra sé sögð í KynVeru, en uppgjörið er hluti af þessari. Daði talar ekki sérstaklega mikið um Veru en hún herjar oft á huga hans og hann virðist ekki skilja hvað varð til þess að upp úr sambandinu slitnaði. Hann brynjar sig, eins og ætlast er til af honum, og lokar á sársaukann.
Ég las nýlega viðtal við ungan mann sem axlaði ábyrgð á því að hafa nauðgað vinkonu sinni. Hann sagðist ekki hafa upplifað það sem nauðgun þegar atvikið átti sér stað, en þegar hann heyrði hennar hlið þá dró hann hana ekki í efa heldur gekkst við broti sínu. Eftir þetta hefur hann þurft að sæta því að vera endurskilgreindur sem ofbeldismaður. Hann mætir því af æðruleysi, enda segist hann bera ábyrgð á gjörðum sínum, þrátt fyrir að iðrast þeirra.
Í lok bókarinnar um Daða kemur í ljós að hann hafði farið yfir mörk Veru, hvort sem hann var meðvitaður um það eða ekki. Hann braut á henni og axlaði ekki ábyrgð á því heldur sagði henni að vera ekki með drama. Lokaði á hana og um leið möguleikana á að skilja. Hann varð kannski kynjauppeldi samfélagsins að bráð. Sigga Dögg vegur að þessari óþægilegu brynju karlmennskunnar með ýmsum leiðum í frásögninni.
Í bókinni koma nefnilega líka fram nokkur atvik þar sem farið er yfir mörk Daða í kynferðislegu samhengi og hann finnur fyrir reiði, en veit ekki hvernig hann á að bregðast við. „Á gaurum ekki að þykja þetta gott?“ Og „ætti ég ekki bara að vera ánægður með þetta,“ og svo framvegis.
Ég sagði áðan að ég efaðist um að unglingspiltar töluðu jafnopinskátt saman og Róbert og Daði gerðu, þótt ég voni það sannarlega. Hugrenningar Daða opna enn frekar inn á þá viðkvæmni sem karlmenn hafa verið sviptir í gegnum kynslóðirnar, en eru vonandi að fá aðgang að með hugmyndum nýrra kynslóða.
Mér fannst bókin skemmtileg aflestrar þótt ég tilheyrði augljóslega ekki markhópnum. Bókin er að mestu skrifuð í talmálsstíl unglings, enda samtöl stærstur hluti hennar og þess á milli segir sögumaðurinn Daði frá. Stundum koma háfleyg orð inn á milli dálítið eins og út úr kú, en það er kannski einmitt þannig sem unglingar tala. Ég á reyndar bágt með að trúa því að þeir kalli bandarísku kvikmyndina Grease hinu annars ágæta íslenska nafni Koppafeiti. Fyrir utan unglingasamtölin er tónninn í bókinni dálítið óskýr. Það var kannski það sem olli því að ég átti svo bágt með að átta mig á móðurinni.
Persónusköpun bókarinnar er ágæt. Sigga Dögg leggur mesta natni við Daða sjálfan og hann er vel heppnaður að mínu mati. Hann er margslunginn, viðkvæmur og kemur á óvart. Bæði á góðan og slæman hátt. Eins og við öll. Mamma hans Daða er eftirminnilegasti karakterinn en hún er kannski fullýkt að mínu mati. En hún er allavega langt frá því að vera hin dæmigerða mamma, höfundur dettur ekki í neinar gryfjur þar.
Aftur á móti eru stelpurnar í bókinni svipaðar upp til hópa og hafa sömu rödd sem einkennist af visku og þroska, með einni undantekningu þó. En talandi um klisjur og gryfjur þá verður að segjast að Sigga Dögg er verulega hugmyndarík. Eins og ég nefndi í upphafi hefur hún eflaust fengið innblástur í gegnum samtöl sín við unglinga, en það er virkilega margt sem fékk mig til að hugsa „jahérna, hvernig dettur henni þetta í hug?“
Sigga Dögg leggur upp úr að herma talsmáta unglinga og tekst ágætlega til, hún hefur auðvitað átt mikil samskipti við þennan aldurshóp í fræðslunni. Það væri áhugavert í þessu ljósi að heyra frá unglingum hvort þeim hafi tekist að þurrka út hugmyndina um rithöfundinn, sem er fullorðin kona. Kannski er þeim slétt sama.
Fræðslan verður dálítið fyrirferðarmikil í bókinni, Sigga Dögg kemur mörgu að. Hún nær að fjalla um samkynhneigð, tvíkynhneigð - eða pankynhneigð - og eikynhneigð, hún nær að lýsa mismunandi skapabörmum og ólíkum typpum. Hún kemur inn á grunnþætti eins og virðingu, hlustun og mörk og fjallar í því samhengi um þvingað samþykki. Sá kafli er aðeins frábrugðinn hinum köflunum og mig grunar að hann hafi kannski verið grunnhugmyndin sem höfundur byggir síðan ofan á. Heildin, sem samanstendur að miklu leyti af fræðslu í dulargervi, verður dálítið losaraleg því maður fær á tilfinninguna að höfundur sé að reyna að koma ýmsu að sem þjónar ekki endilega neinum tilgangi. Tikka í boxin, ef svo mætti segja.
Þrátt fyrir smávægilega vankanta á bókinni, hvað varðar stíl og fagufræði, þá er ég nú samt ánægð með hana og langar að hrósa höfundi fyrir að hafa tekið þetta fræðsluefni saman í skemmtilega og grípandi sögu. Ég efa það ekki í eina sekúndu að unglingar munu hafa gaman af þessari bók, hvort sem er einir eða í samtali. Vonandi tekst Siggu Dögg með þessum bókum líka að opna bæði á umræður, samtöl milli vina og vangaveltur einstaklinga, því þöggun þjónar sannarlega engum tilgangi í heimi kynlífsins, þótt velsæmdarmörk beri sannarlega að virða.