Sigursælasta fimleikakona Íslands frá upphafi, Thelma Rut Hermannsdóttir úr Gerplu, hefur ákveðið að leggja fimleikabolinn á hilluna þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára. Hún er á leið í skóla.
Thelma náði þeim sögulega áfanga í mars að verða Íslandsmeistari í fjölþraut kvenna í áhaldafimleikum í sjötta sinn og fór þar með fram úr Sif Pálsdóttur og Berglindi Pétursdóttur sem báðar höfðu orðið Íslandsmeistarar fimm sinnum.
Thelma byrjaði að æfa fimleika þriggja ára gömul og er nú 22 ára. Í gærkvöld tilkynnti hún á samfélagsmiðlum að hún hefði ákveðið að hætta í fimleikum.
Ég tel að ég hafi toppað allt sem ég get
„Þetta er 19 ára ferill og er orðið ágætt. Það hefur gengið framar vonum hjá mér og fólkinu í kringum mig." Thelma viðurkennir að það hafi verið erfitt að taka ákvörðunina en hún hefur lengi melt þetta með sér. Hún fékk leið á fimleikum fyrir tveimur árum en þá fór allt að ganga betur.
„Mér gekk þá betur en mér hafði áður gengið þannig að ég hélt áfram. Þá hélt ég bara vel á spöðunum. En núna held ég að það sé kominn ágætur tími. Ég tel að ég hafi toppað allt sem ég get og er búin að standa mig ótrúlega vel."
Fimleikarnir tímafrekir
Erfitt getur reynst fyrir afreksfólk í íþróttum að vera í fullu háskólanámi á samhliða íþróttunum.
„Ég ætla í háskólann í haust. Ég byrjaði í honum í fyrra en þurfti að hætta þar því ég fór til Kína að keppa. Þannig að núna ætla ég bara að taka skólann föstum tökum." segir Thelma sem hefur eytt þremur til fjórum klukkustundum á dag í fimleikaæfingar alla daga vikunnar á þeim síðustliðnu 10 árum sem hún hefur verið í landsliðinu.
Viðtalið við Thelmu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.