Knattspyrnufélagið Kórdrengir situr núna á toppi þriðju deildar eftir 3-2 sigur á KV í gær. Liðið hefur verið á mikilli siglingu síðan það var stofnað og vakið heilmikla athygli fyrir árangurinn enda ungt lið skipað mönnum úr óvæntum áttum. 

Þjálfara liðsins, Davíð Smára Helenarson, þekkja margir betur undir nafninu Dabbi Grensás og fyrir eitthvað allt annað en íþróttamennsku. Hann hefur að sögn snúið blaðinu við eftir að hafa endurtekið komist í kast við lögin í gegnum tíðina. Davíð hefur nú dustað rykið af fótboltaskónum en hann hafði lengi þótt efnilegur í knattspyrnu og þykir enn. Þjálfarinn og  markvörður liðsins, Ingvar Kale knattspyrnumaður, settust niður með Andra Frey í Síðdegisútvarpinu og sögðu frá því hvernig liðið þróaðist frá því að vera áhugamannabolti í alvöru félag í toppslag í þriðju deild. „Þegar við byrjum erum við bara bumbulið að hafa gaman. Við mættum á leiki og fengum okkur kaldan eftir á. Síðan þá hefur margt breyst en stemningin og andinn í liðinu hefur náð að lifa,“ segir Davíð Smári stoltur. 

Liðið byrjaði strax í fjórðu deild og náði næstum því að fljúga strax upp um deild en mótherjunum í KH tókst rétt að merja sigur eftir að mark kórdrengja var blásið af í dramatískum úrslitaleik um toppsætið. Þarna urðu þeir þó sannfærðir um að þeir ættu erindi í deildina og gætu náð langt. Ingvar rifjar þetta upp með þjálfaranum. „Í fyrsta leiknum sem við spiluðum á móti Sandgerði töpuðum við 7-1. Þá urðum við aðeins stressaðir og fórum að smala í lið rétt fyrir mót. Við hringdum í menn í kringum okkur sem höfðu raunverulega reynslu, margir í kringum okkur höfðu ekki verið í fótbolta en héldu að þeir hefðu vit eftir að horfa á boltann í sjónvarpinu.“ Félaginu barst liðsstyrkur og það fór að birta til. Í dag taka þeir sig alvarlega sem lið. 

„Nú er það svoleiðis að ef einhver myndi til dæmis fá sér of mikið nokkrum dögum fyrir leik þá yrðu menn ekkert sáttir. Við erum með sjúkraþjálfara og það má ýmislegt fleira nefna sem gerir liðið svipað þeim í úrvalsdeildarklúbbum,“ bætir Ingvar Kale við.

 

Kórdrengirnir hafa látið til sín taka í góðgerðarstarfi en síðast stóðu þeir fyrir söfnun fyrir Fanneyju Eiríksdóttir sem féll frá langt fyrir aldur fram eftir að heyja hetjulega baráttu við krabbamein sem hún greindist með eftir tuttugu vikna meðgöngu. Þeir segja sér mikilvægt að láta gott af sér leiða og vilja styðja við bakið á þeim sem glíma við banvæna sjúkdóma og fjölskyldum þeirra.

Ingó Veðurguð tónlistarmaður samdi stuðningslag fyrir Kórdrengi og það ásamt viðtali Andra Freys í Síðdegisútvarpinu við knattspyrnumennina má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.