Samantekt

Sjáðu: Boltinn vildi ekki inn gegn Noregi

Jóhann Páll Ástvaldsson

,
4. apríl 2025 kl. 19:09 – uppfært

„Mér finnst þú bara vera að búa til áhyggjuefni“

Þorsteinn Halldórsson, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Stefánsdóttir mættu í viðtöl eftir leik.

„Mér fannst við gera fullt af hlutum til að geta skorað. Mér fannst kraftur í okkur og hugrekki í liðinu til að keyra á þær. Auðvitað komu alveg smá möguleikar hjá þeim líka en mér fannst þetta fínn leikur.“

Þetta er annað markalausa jafnteflið hjá Íslandi. Þorsteinn var spurður hvort þetta væri áhyggjuefni.

„Nei, mér finnst þú bara vera að búa til eitthvað áhyggjuefni úr þessu. Við fáum bara möguleika til að skora ef maður skapar færi. Þetta snýst um það. Auðvitað vill maður skora mörk og allt það. En stundum er þetta bara svona. Stundum gengur þetta ekki upp. En mér fannst við vera að búa til færi til að skora. Við þurfum bara að taka þau og það kemur. Ég hef svo sem engar áhyggjur af því.“

Viðtalið við Þorstein má sjá hér að neðan.

Hvað vantar upp á til að skora fleiri mörk?

„Kannski að vera aðeins yfirvegaðari í kringum teiginn og markið. Ég fæ tvö góð færi en það hlýtur bara að koma í næsta leik.“


„Ég er mjög stolt af liðinu. Það var mikið hjarta í þessum leik. Við gáfum allt og vorum óheppnar að skora ekki.“

Viðtalið við Karolínu má sjá hér að neðan.

Stórt augnablik

„Tilfinning að leiða liðið inn á völlinn var ótrúlega góð. Þetta var mjög stórt augnablik og ég naut þess alveg í botn. Ég var svolítið stressuð rétt áður en við stóðum þarna og vorum að syngja þjóðsönginn. Ég fór allt í einu að hugsa, bara ókei - hverjum á ég að taka í höndina og á ég að gefa fæv og fánann. Þetta var smá stress,“ sagði hún um að vera fyrirliði í fyrsta sinn.

Viðtal Stofunnar við Ingibjörgu má sjá hér að neðan.

4. apríl 2025 kl. 18:40 – uppfært

Fjörugt markalaust jafntefli

Þrátt fyrir að það sé skrýtið að segja það þá var þetta fjörugt markalaust jafntefli. Það var nóg um ágætis færi á báða bóga og Ísland átti níu og Noregur tíu.

Tilþrif og gang leiksins má sjá hér að neðan.

Þetta er annað markalausa jafnteflið sem Ísland gerir í riðlinum og því ljóst að vörnin er á traustum grunni. Ísland og Noregur munu mætast á EM í sumar og frammistaðan gefur ágætis fyrirheit fyrir viðureignina þá.

Ísland var án fyrirliðans Glódísar Perlu Viggósdóttur og það var ekki að sjá á leik liðsins.

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Staðan í riðlinum

Frakkar leiða 0-1 gegn Sviss í hálfleik. Frakkar munu því að öllum líkindum vera með níu stig eftir þrjá leiki á toppi riðilsins.

Noregur er með 4 stig og Ísland tvö stig. Sviss er með eitt stig á botni riðilsins, ef Frakkar vinna hann. Viðtöl koma hér inn eftir örskamma stund.

Leikurinn gegn Sviss á þriðjudaginn kemur gæti því orðið algjör úrslitaleikur. Næsta víst er að toppsætið sé Frakka en annað sæti heldur sæti sínu í deildinni. Þriðja sætið fer í umspil við lið úr B deild og fjórða sætið fellur.

4. apríl 2025 kl. 18:34

Uppbótartími hafinn

Við erum komin inn í uppbótaríma. Cecilía hefur gripið inn í fyrirgjafir Norðmanna í nokkur skipti síðustu mínútur. Eru liðin að sigla í markalaust jafntefli?

4. apríl 2025 kl. 18:29

Hætta!

Boltinn barst til Karolínu Leu í teignum sem átti fast skot en norska vörnin náði að komast fyrir skotið.

Ísland hefur fengið tvö horn í kjölfarið. Það var mikill darraðadans upp við teiginn eftir það seinna. En inn vill boltinn ekki!

4. apríl 2025 kl. 18:25

Áslaug Munda inn

Ísland gerir skiptingu á 81. mínútu. Emilía Kiær kemur út og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir inn.

Norðmenn hafa sótt mikið síðustu mínútur en engin almennileg hætta hefur skapast.

4. apríl 2025 kl. 18:16

Noregur gefur í

Norska liðið hefur sótt án afláts síðustu mínútur. Það skapaðist í eitt skipti smá hætta við mark Íslands en Cecilia steig vel inn í. Ísland er þó að nó að höndla þennan sóknarþunga gestana.

Staðan er enn 0-0 eftir 73 mínútur.

4. apríl 2025 kl. 18:10

Víkingaklapp

Við fengum víkingaklapp í Laugardalinn. Það er því óhætt að segja að allt sé að gerast á Þróttarveli í dag.

Hlín og Hildur fóru rétt í þessu út af og þær Sandra María Jessen og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir komu inn á. Engin taktísk breyting bara ferskar lappir.

Staðan er enn 0-0 eftir 67 mínútna leik.

4. apríl 2025 kl. 18:03 – uppfært

Svakalegur sprettur!

Vá! Sveindís Jane sýndi þarna hraða sinn þegar hún prjónaði sig í gegnum vörn Norðmanna og var næstum búin að skora. Fiskerstrand var hins vegar afar vel á verði og kom út úr markinu.

Boltinn barst til Hlínar en skot hennar með vinstri fór hátt yfir. Það styttist í íslenskt mark!

4. apríl 2025 kl. 17:56

Berglind með skot

Berglind Rós átti hættulegt skot á 51. mínútu en það endaði í hliðarnetinu. Skömmu áður fékk Ísland stöðuna tveir á tvo þar sem þær Emilia Kiær og Sveindís Jane geystust fram. Sending Emilíu rataði hins vegar ekki á Sveindísi og skyndisóknin fjaraði út.

Fyrsta markið liggur í loftinu - það er bara spurning hvorum megin það kemur.

4. apríl 2025 kl. 17:53

Svipað í seinni

Eftir 50 mínútna leik er staðan enn 0-0. Það skapaðist hálfgerð hætta við mark Norðmanna í upphafi leiks en þó ekki mikil.

Cecilia Rán hefur verið öryggið uppmálað í sínum aðgerðum í markinu. Íslenska liðið hefur verið skipulagt í sínum aðgerðum og ljóst að Steini þjálfari fór vel yfir hvar við gætum fundið glufur á Norðmönnum.

4. apríl 2025 kl. 17:34 – uppfært

Markalaust í hálfleik

Eftir afar jafnan fyrri hálfleik, þar sem bæði lið hafa fengið, fín færi, er markalaust.

Það átti sér stað athyglisvert atvik í fyrri hálfleik þegar Fiskerstrand í marki Norðmanna þurfti aðhlynningu. Þá gafst Þorsteini Halldórssyni landsliðsþjálfara tækifæri til að fara vel yfir málin með sínum konum. Við fengum því leikhlé beint í æð, ekki ólíkt því sem þekkist hjá handboltalandsliðinu.

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

Úr leik Íslands og Noregs í Þjóðadeild kvenna í fótbolta 2025.
Mummi Lú

4. apríl 2025 kl. 17:26

Hætta í tvígang

Ísland hefur fengið tvo ágætis möguleika. Fyrst sprengdi Emilia Kiær upp vinstri vænginn og hætta skappaðist við mark Norðmanna. Fiskestrand í markinu var hins vegar vel á verði.

Nú rétt í þessu fékk Karolína Lea hálffæri sem rann út í sandinn eftir ágætis samleik.

Staðan er enn 0-0 þegar styttist í hálfleik.

4. apríl 2025 kl. 17:09

Allt í járnum

Staðan er markalaus eftir 21 mínútna leik. Norðmenn hafa náð að festa íslenska liðið á okkar eigin vallarhelmingi síðustu mínútur. Það er lítið um opin marktækifæri.

4. apríl 2025 kl. 16:55

Sveindís!

Sveindís með góða syrpu. Fyrst klobbaði hún norska varnarmanninn og átti fast skot sem fór í markvörðinn. Hún fylgdi eftir með öðru skoti sem fór rétt fram hjá. Þarna vorum við nálægt því að komast yfir!

4. apríl 2025 kl. 16:54

Leitum að glufum

Leikurinn er í jafnvægi hér í upphafi. Ísland freistar þess að senda langa bolta inn fyrir vörn Noregs.

Það heyrist vel í íslensku stuðningsmönnunum, sem eru rétt yfir 1.000 eins og frægt er orðið.

4. apríl 2025 kl. 16:49

Leikurinn er hafinn!

Við erum farin af stað! Það eru ágætis aðstæður hér í Laugardalnum í dag. Norðmenn pressa stíft í upphafi leiks og íslenska vörnin freistar þess að spila út.

4. apríl 2025 kl. 16:39

Þetta er að bresta á!

Ég er kominn heim ómar um Laugardalinn og liðin eru að gera sig klár í að koma inn á.

Vorsólin leikur við leikmenn. Norðmenn eru án sóknarmannsins sterka Caroline Graham Hansen og þá er Ada Hegerberg á bekknum.

Þá er alveg vert að nefna að María Þórisdóttir, dóttir Þóris Hergeirssonar er á bekknum.

Koma svo! Tilvalinn staður og stund til að ná í fyrsta sigurinn í Þjóðadeildinni í ár.

Fyrir þau sem vilja glöggva sig meira á sögu Ég er kominn heim má lesa allt um það í slóðinni hér að neðan. Þið hin getið haft augun límd á skjánum.

Það er veisla fram undan næstu 90 mínúturnar!

4. apríl 2025 kl. 16:13

Styttist í leik

Útsendingin hefst innan skamms, klukkan 16:15. Stofan verður fyrir leik, í hálfleik og eftir leik. Henni stýrir Edda Sif Pálsdóttir með sérfræðingana Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur og Albert Brynjar Ingason sér við hlið.

Gunnar Birgisson lýsir leiknum með Margréti Láru Viðarsdóttur til aðstoðar. Þá tekur Almarr Ormarsson viðtöl á leiknum.

4. apríl 2025 kl. 15:45

Miklar breytingar á liðinu

Fimm breytingar eru á byrjunarliðinu frá síðasta leik gegn Frökkum.

Þær Sandra María Jessen, Glódís Perla Viggósdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir fara út úr liðinu

Inn í þeirra stað kemur Guðrún Arnardóttir í miðja vörnina í stað Glódísar, Berglind Rós Ágústsdóttir í, Hildur Antonsdóttir í stað Alexöndru á miðjuna, Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í stað Söndru María á kantinn, Berglind Rós Ágústsdóttir í stað Andreu Rán og Hlín í stað Áslaugar Mundu

Hildur Antonsdóttir sendir boltann í landsleik með Íslandi gegn Bandaríkjunum í vináttuleik árið 2024.
IMAGO

Byrjunarlið:

1.Cecilía Rán Rúnarsdóttir (markvörður)
2. Berglind Rós Ágústsdóttir
5. Emilía Kiær Ásgeirsdóttir
6. Ingibjörg Sigurðardóttir
7. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
9. Sædís Rún Heiðarsdóttir
14. Hlín Eiríksdóttir
16. Hildur Antonsdóttir
18. Guðrún Arnardóttir
20. Guðný Árnadóttir
23. Sveindís Jane Jónsdóttir

4. apríl 2025 kl. 15:32

Af hverju er leikurinn mikilvægur?

Þjóðadeild kvenna í fótbolta er aðeins frábrugðin keppninni karlamegin. Það er nefnilega þannig að önnur hver Þjóðadeild er undankeppni fyrir stórkeppnir. Sem sagt, þegar Ísland tryggði sig inn á EM 2025 í undankeppni EM var yfirskriftin Þjóðadeild.

Einfalda útgáfan: Ef Ísland heldur sæti sínu í A-deild Þjóðadeildar er liðið í efri styrkleikaflokki þegar dregið er í riðla fyrir undankeppni HM 2027.

Núna er hins vegar leikið um að halda sæti sínu í Þjóðadeildinni. Ísland er í A-deild og er gífurlega mikilvægt að halda sæti sínu í henni því það gefur greiðari leið á HM 2027 í Brasilíu.

Líklegt er að Frakkar verði í efsta sæti riðilsins enda hefur liðið unnið báða leiki sína. Annað sætið í riðlinum veitir áframhaldandi sæti í A-deild. Þriðja sætið fer í umspil við lið úr B-deild og fjórða sætið fellur.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik Íslands og Frakklands í Þjóðadeild UEFA í febrúar 2025.
Imago / Imagao / Alex Nicodim

Staðan í riðlinum

  1. Frakkland - 6 stig
  2. Noregur - 3 stig
  3. Ísland - 1 stig
  4. Sviss - 1 stig

Innbyrðis viðureignir milli Íslands, Noregs og Sviss gætu ráðið úrslitum hvort Ísland fari í annað, þriðja eða fjórða sæti.

4. apríl 2025 kl. 15:01

Enn miðar í boði gegn Sviss

Seinni leikur þessa landsliðsglugga er gegn Sviss og er þriðjudaginn 8. apríl klukkan 16:45. Enn eru miðar í boði á þann leik.

Miða má nálgast hér.

4. apríl 2025 kl. 14:56

Uppselt á leikinn

Það var tíma tvísýnt að uppselt yrði á leikinn, þrátt fyrir að rétt rúmlega 1.000 sæti væri í boði.

Leikið er á Þróttarvelli í Laugardal þar sem unnið er að endurbótum á Laugardalsvelli. Vonast er til þess að hann verði leikfær 3. júní þegar Ísland mætir Frökkum í síðasta heimaleik sínum í Þjóðadeildinni.

Áhorfendatölur á heimaleiki Íslands í undankeppni EM 2025

2.820 manns mættu að meðaltali á heimaleikina í undankeppni EM 2025.

1.152 manns. Ísland - Pólland. Leikið á Kópavogsvelli 5. apríl 2024.

2.067 manns. Ísland - Austurríki. Leikið á Laugardalsvelli 4. júní 2024.

5.243 manns. Ísland - Þýskaland. Leikið á Laugardalsvelli 12. júlí 2024.

Skandall í gær

Ekki var búið að selja alla þá miða sem í boði voru í gær og tóku Ingibjörg Sigurðardóttir fyrirliði og Þorsteinn Halldórsson þjálfari sterkt til roða.

„Það eru vonbrigði. Þetta er lítill völlur, lítil stúka, og við eigum að ná að selja upp á þennan leik á 5 mínútum, finnst mér. En þetta er bara staðan og við þurfum að sjá hvað við getum gert til að fá fólk til að vilja koma á völlinn og svo þarf fólk að vera tilbúið til að styðja okkur,“ sagði Ingibjörg.