Players-meistaramótið í golfi hófst í gær á TPC Sawgrass-vellinum í Flórída. Bandaríkjamennirnir Lucas Glover, J. J. Spaun og Kólumbíumaðurinn Camilo Villegas leiða að loknum fyrsta hring á sex höggum undir pari.
Fimm kylfingar náðu ekki að klára hringinn í gærkvöldi vegna birtuskilyrða. Af þeim er Max McGreevy frá Bandaríkjunum í bestu stöðunni eða á 5 höggum undir pari eftir 16 holur.
EPA-EFE / ERIK S. LESSER
Norður-Írinn Rory McIlroy er einu höggi á eftir efstu mönnum ásamt fjórum öðrum kylfingum. Ríkjandi meistari síðustu tveggja ára, Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler, spilaði á þremur höggum undir pari.