Victoría fékk silfurverðlaun
Íslensku keppendurnir á Heimsleikum Special Olympics eru strax farnir að gera það gott. Í dag vann Victoría Ósk Guðmundsdóttir til silfurverðlauna í alpagreinum og okkar maður í Tórínó, Magnús Orri Arnarson, hitti Victoríu og fjölskyldu hennar í fjallinu.
„Það er skemmtilegast að skíða og renna sér niður og hafa gaman,“ segir Victoría.
„Öll þessi upplifun, þetta er eiginlega magnað. Útsýnið í allar áttir. Bíltúrinn hingað. Upplifunin að vera hérna. Gleðin. Þetta er eitthvað annað, sko,“ bætti faðir hennar Guðmundur Lúðvíksson, einnig þekktur sem Mummi Lú, við.
Einnig var rætt við Þórdísi Erlingsdóttur og Ingólf Bjart Magnússon í dansfélaginu Hvönn sem keppa í „unified“-dansi.