Í fyrsta sinn ætlar sérsamband innan Ólympíuleikanna að borga gullverðlaunahöfum fyrir árangurinn sem næst á leikunum. Það hefur ekki tíðkast að sérsambönd greiði út verðlaunafé til keppenda á Ólympíuleikum en nú er breyting á.
Keppt verður um gullverðlaun í 48 greinum innan frjálsíþrótta á Ólympíuleikunum og fær hver og einn gullverðlaunahafi 50 þúsund dollara í sinn hlut. Þau sem keppa í boðhlaupi skipta með sér summunni. Heildarverðlaunaféð er því 2,4 milljónir dollara.
Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætlar svo að stækka pottinn fyrir leikana í Los Angeles og verðlauna einnig silfur- og bronsverðlaunahafa.