Mótmælt á Ásvöllum er Ísland tók stórt skref að HM
Allt það helsta úr leiknum
Hér má sjá umfjöllun um leikinn.
Steinunn og Arnar í viðtölum
Steinunn Björnsdóttir og Arnar Pétursson voru til viðtals eftir leikinn í kvöld.
„Þetta var faglega gert. Ég er stolt af liðinu að gera þetta svona vel. Þetta var stór sigur og eins og ég segi, það er hálfleikur, þannig það þarf að mæta aftur svona á morgun.“
Viðtalið við Steinunni má sjá hér að neðan.
„Þetta snýst um hvernig við mætum til leiks. Mér fannst við gera það virkilega vel í dag. Það var hugur í hópnum og við vorum einbeittar á þetta verkefni. Það fór sem fór og það er bara frábært.“
Steinunn sagði einnig að einbeiting væri á að ná sem bestri endurheimt fyrir seinni leikinn, sem er á morgun.
Viðtalið við Arnar kemur innan skamms.
Ánægður með liðið við sérstakar aðstæður
„Ég er heilt yfir sáttur. Ég hefði viljað aðeins betri seinni hálfleik en hvernig stelpurnar komu inn í þennan leik, og tóku yfir hann í fyrri hálfleik. Ég er bara mjög ánægður með þær og stoltur af þeim við sérstakar aðstæður.“
Hafði Arnar áhyggjur af því hvernig liðið hans kæmi til leiks í ljósi aðstæðna í kringum leikinn? „Já, ég hafði alveg smá áhyggjur. Aðstæðurnar hafa verið mjög sérstakar og það hefur reynt á þær á mjög sérstakan hátt líka. Ég verð að viðurkenna það að ég hafði smá áhyggjur af því, já.“
Þá ræddi hann einnig hvernig liðið ætlar að nálgast leik morgundagsins en þá getur liðið tryggt sæti sitt á HM 2025. Leikurinn er klukkan 19:30 og verður í beinni útsendingu á RÚV2.
Við segjum þessari fréttavakt lokið og tökum aftur upp þráðinn á morgun.
Öruggur sigur staðreynd
Ísland vann að lokum öruggan 39-27 sigur í kvöld. Ísland fer því með tólf marka forskot í seinni leikinn sem fer fram annað kvöld klukkan 19:30.
Vörn og sókn voru með besta móti lengst af og Arnar Pétursson gat leyft ungum og óreyndum leikmönnum að spreyta sig síðustu 15 mínúturnar eða svo.
Ísraelska liðið er ekki jafn sterkt og það íslenska og þetta tólf marka forskot ætti að vera nógu gott veganesti til að klára dæmið annað kvöld.
Hópur mótmælenda safnaðist saman fyrir utan Ásvelli í kvöld til að mótmæla því að leikurinn færi fram. Íslenska liðið setti alla einbeitingu á leikinn sjálfan og kláraði verkefnið fagmannlega.
Hornamennirnir Dana Björg og Þórey Anna leiddu Ísland í markaskorun. Þórey var með átta mörk og Dana sex.
Við birtum viðtöl og helstu tilþrif leiksins hér innan skamms.
Elísa meiðist
Þetta er slæmt að sjá. Línumaðurinn sterki úr Eyjum Elísa Elíasdóttir fer meidd út af eftir að hafa snúið sig illa á ökkla.
Ísland leiðir 39-25 þegar innan við mínúta er eftir.
Arfaslök markvarsla
Það er óhætt að segja að þetta hafi ekki verið dagur ísraelska markvarðateymisins. Þær hafa einungis varið eitt skot í leiknum af 28.
Barið á hurðirnar
Mótmælendur fyrir utan Ásvelli berja á útidyrahurðirnar á Ásvöllum. Búið er að setja klemmur fyrir hurðirnar.
Áfram haldar baráttan inni á vellinum. Ísland leiðir nú með fimmtán mörkum, 36-21. Fimm mínútur eru til leiksloka.
Alfa Brá með sín fyrstu landsliðsmörk
Ísland heldur bara áfram að gefa í og munurinn er orðinn 14 mörk, 33-9. Níu mínútur eru til leiksloka.
Alfa Brá er komin með tvö mörk og þetta eru hennar fyrstu landsliðsmörk. Sara Sif Helgadóttir er einnig komin í markið og er komin með tvö varin skot.
Sigurinn er í höfn en það er spurning hversu stór hann verður. Það er mikilvægt að liðið komi sér í sem besta stöðu fyrir seinni leikinn.
Hann er á morgun klukkan 19:30 á RÚV2. Þá getur liðið tryggt sig inn á sitt þriðja stórmót í röð.
Lilja og Katrín komnar á blað
Það er ánægjulegt að sjá að hornamennirnir ungu Lilja og Katrín Anna eru búnar að setja mark sitt á leikinn.
Ísland leiðir nú með tólf mörkum, 30-18 þegar tólf mínútur eru eftir.
Níu marka munur
Staðan er nú 25-16 eftir að búið er að leika í fjörtíu og eina mínútu.
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín kom inn á og fær tækifæri til að spreyta sig.
Katrín Anna Ásmundsdóttir og Lilja Ágústsdóttir eru einnig komnar inn á í hornin fyrir Þórey og Dönu.
Staðan er 21-13
Ísland leiðir með átta mörkum og Ísrael hefur komið með mikinn kraft út úr búningsklefanum inn í seinni hálfleik.
33 mínútur eru á klukkunni.
Mótmæli fyrir utan Ásvelli
Hópur fólks hefur safnast saman fyrir utan Ásvelli til að mótmæla leiknum og Ísraelsríki. Þau veifa palestínska fánanum.
Ísland leiðir með tíu í hálfleik
Þetta hefur verið afar fagmannleg frammistaða hjá íslenska liðinu. Umræðan og áhorfendaleysið virðist ekki vera að hafa nein áhrif á þær.
Þvílík lokasókn sem var teiknuð upp með leikhlé rétt fyrir hálfleikinn. Sandra og Rut léku sín á milli áður en Þórey Anna flaug inn í teiginn og skoraði stöngin inn.
Staðan er 20-10 í hálfleik og bæði vörn og sókn verið ágæt.
Nú þurfa stelpurnar að halda áfram að keyra á Ísrael, þar sem þetta er tveggja leikja einvígi. Haldi þær áfram að spila svona er leiðin greið á HM.
Dana með fimm
Hornamennirnir okkar tveir þær Dana og Þórey eru að raða mörkunum inn.
Dana flaug inn úr horninu rétt í þessu og Íslajnd leiðir enn með níu mörkum, 19-10.
Það er örstutt eftir af fyrri hálfleik.
Níu mörk!
Rut Jónsdóttir kom inn á og fann Steinunni Björnsdóttur strax á línunni. Línumaðurinn var ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið.
Ísland leiðir nú 17-8 eftir 25 mínútna leik.
Þórey komin með fimm
Þórey heldur áfram að gera vel. Hún er komin með fimm mörk úr fimm skotum. Ísland leiðir 16-7 eftir 21 mínútu.
Ísland er í gír
Ísraelar eru í erfiðleikum með íslenska varnarmúrinn. Andrea Jacobsen hefur staðið vaktina afar vel.
Ísland er nú 13-6 yfir eftir 17 mínútna leik.
Það heyrist ansi vel í Arnari
Ísland leiðir nú með fjórum mörkum, 10-6, eftir 12 mínútna leik.
Rödd Arnars Péturssonar ómar um Ásvelli.
Fjögurra marka forskot
Þórey Anna klárar virkilega vel úr horninu og Ísland leiðir 8-5 eftir níu mínútna leik.
Thea með hlemm
Thea Imani Sturludóttur er mætt til leiks og er komin með tvö mörk á skömmum tíma. Ísland leiðir nú með fjórum mörkum, 6-2, eftir sjö mínútna leik. Skömmu áður átti Elín Jóna glæsilega tvöfalda vörslu. Hún er strax komin með fjögur varin skot.
Dana með tvö
Staðan er 4-2 fyrir Íslandi eftir fjögurra mínútna leik. Dana Björg fékk tækifærið í vinstra horninu og skoraði úr fyrstu tveimur skotum sínum. Það er augljóst að íslenska liðið vill keyra upp hraðann í leiknum.
Fjörlega af stað
Ísland byrjaði með boltann og Elín Rósa var ekki í vandræðum með að koma Íslandi yfir. Þær ísraelsku jöfnuðu hins vegar nær samstundis. Þórey Anna skoraði svo fyrsta mark sitt í endurkomu sinni í liðið.
staðan er 3-1 eftir tveggja mínútna leik.
Tómlegt í höllinni
Sá sem sér um tónlistina á Ásvöllum í kvöld gefur engan afslátt.
Viðtal við Arnar fyrir leik
Arnar Pétursson ræddi endurkomu Söndru Erlingsdóttur og upplegg íslenska liðsins í viðtali fyrir leik.
Liðin ganga inn á völlinn
Liðin eru komin út á gólfið og vallarþulurinn kynnir þau inn. Ísraelum er skemmt yfir því að höllin sé tóm og vinka í átt að áhorfendapölluum sitt hvorum megin við völlinn þegar þær eru kynntar in.
Íslenska liðið virkar vel stemmt í kynningu Ingvars Arnars Ákasonar sem gefur engan afslátt af kynningunni. Skiljanlega, enda umspilsleikur um laust sæti á HM.
Endurkoma Þóreyjar Önnu
Þórey Anna Ásgeirsdóttir er snúin aftur í landsliðið sem er afar kærkomið. Þessi sterki hornamaður hætti um stund í liðinu og fór því ekki með á EM 2024. Hún hefur leikið afar vel með Val og er komin með liðinu alla leið í úrslitaleik Evrópubikarsins
Þórey Rósa Stefánsdóttir hefur lagt landsliðsskóna á hilluna og Þórey Anna sneri aftur eftir gott samtal við Arnar Pétursson þjálfara.
Farin í loftið!
Þá er útsendingin hafin og Stofan farin af stað. Kristín Guðmundsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir eru sérfræðingur Stofunnar sem Helga Margrét Höskuldsdóttir stýrir.
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson lýsir leiknum með Vigni Stefánsson sér við hlið.
Áhorfendabekkirnir eru galtómir en liðin eru að hita upp.
Leikmenn fengið gagnrýni á samfélagsmiðlum
Leikmenn íslenska liðsins hafa fengið þó nokkra gagnrýni fyrir að spila leikinn. Ljóst er að ef að Ísland myndi ekki keppa í einvíginu færi Ísrael beint á HM. Þá þykir líklegt að Ísland myndi fá sekt fyrir athæfið.
Perla Ruth Albertsdóttir, sem er ekki í íslenska hópnum, segir nokkra leikmenn hafa fengið skilaboð á samfélagsmiðlum.
„Þetta er smá flókið út af þessu Ísraelsdæmi og það voru ákveðnir leikmenn í liðinu fengu skilaboð þegar það var dregið. Við vorum taggaðar í myndbönd á Instagram um að þessir leikmenn (íslenska landsliðsins) væru að styðja Ísrael því við ætluðum að spila þessa leiki. Við vorum taggaðar í ljót myndbönd af stríðsástandinu,“ en þetta ræddi Perla í hlaðvarpinu Klefinn.
Þrjár utan hóps - Sara inn fyrir Hafdísi
Ein breyting var gerð á íslenska hópnum í dag, markvörðurinn Hafdís Renötudóttir verður ekki með vegna meiðsla og í hennar stað kemur Sara Sif Helgadóttir, markvörður Hauka, inn í hópinn.
Perla Ruth Albertsdóttir dró sig fyrr í vikunni úr hópnum þar sem hún er ólétt og auk þess verða þær Elín Rósa Magnúsdóttir, Katrín Tinna Jensdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir utan hóps í dag.
Hópur Íslands í kvöld
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Aarhus United (68/3)
Sara Sif Helgadóttir, Haukar (10/0)
Aðrir leikmenn:
Alfa Brá Hagalín, Fram (4/0)
Andrea Jakobsen, HSG Blomberg-Lippe (61/109)
Berglind Þorsteinsdóttir, Fram (33/6)
Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda (7/11)
Díana Dögg Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe (61/80)
Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukar (21/67)
Elísa Elíasdóttir, Valur (21/18)
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Grótta (8/13)
Lilja Ágústsdóttir, Valur (25/18)
Rut Jónsdóttir, Haukar (122/245)
Sandra Erlingsdóttir, Tus Metzingen (33/145)
Steinunn Björnsdóttir, Fram (56/86)
Thea Imani Sturludóttir, Valur (87/187)
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Valur (45/50)
Þjálfarinn skilur reiðina — tjáir sig eftir einvígið
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari í handbolta, segist skilja reiði almennings varðandi leikina sem fram undan eru gegn Ísrael. Arnar ætlar að tjá sig meira um málið eftir leikina en segir að landsliðið hefði kosið annan andstæðing.
Skilja þau sem koma að landsliðinu reiðina hjá almenningi að Ísrael sé að koma hingað?
„Já, ég skal bara vera alveg hreinskilinn þar, að ég skil það bara mjög vel. Ég hef sjálfur, og ég finn það alveg innan hópsins, að það eru mjög sterkar skoðanir á þessu. En ég kem örugglega til með að tjá mig meira um það eftir að þessum leikjum er lokið.“
„Nú þurfum við eins og alltaf að fókusa bara á því að gera eins vel og við getum í þeirri íþrótt sem við erum að stunda, sem er handbolti. Við þurfum að setja fókusinn þangað.
En ég skil reiðina. Ég skil þessar skiptu skoðanir á þessu. Ég er á margan hátt sammála mörgu af því sem hefur komið fram. En leikurinn, við þurfum að fókusera á hann, og svo skal ég tjá mig um þetta.“
„Aðstæður sem við völdum okkur ekki“
Leikirnir tveir verða leiknir á Ásvöllum fyrir luktum dyrum. Þeir fara fram klukkan 19:30 miðvikudags- og fimmtudagskvöld.
„Það er óhætt að segja að það sé aðeins öðruvísi undirbúningur en við hefðum kosið. En kannski skiljanlega. Þetta er hitamál og við finnum klárlega fyrir því, og skiljum það mjög vel. Við erum reyndar bara í aðstæðum sem við klárlega völdum okkur ekki.“
„Ég held að við séum, öll sem komum að þessu, sammála því að við hefðum viljað fá einhvern annan andstæðing. En þannig er staðan og við erum að fara að spila þessa tvo leiki sem að skera úr um það hvort við náum okkar markmiðum - sem er klárlega það að komast inn á HM. Við þurfum að gera okkar allra besta til þess að fókusera á það.“
Geta komist á þriðja stórmótið í röð - „Og koma þá í veg fyrir það að Ísrael fari þangað.“
Ísland fór á HM 2023 og EM 2024. Nú er liðið í ágætis möguleika á að komast á sitt þriðja stórmót í röð. Arnar segist reyna eins og hann geti að setja einbeitingu sína og liðs síns á leikinn sjálfan.
„Við höfum verið að fókusera á okkar leik og reynum að hámarka allt sem við erum að gera. Hvar sem við erum komin niður í leiknum. Þetta snýst um það að við náum okkar leik, að þá náum við okkar markmiðum. Við höfum verið á vegferð undanfarin ár sem hefur miðað að þessu, að koma okkur inn á stórmót.“
„Ef þetta tekst núna þá er það þriðja stórmótið í röð hjá okkur sem er ákveðinn áfangi og við reynum að fókusera á það. Við reynum að fókusera á það að ná okkar markmiðum og tryggja okkur inn á HM. Og koma þá í veg fyrir það að Ísrael fari þangað.“
Tómlegt á svæðinu — lögreglan mætt
Það er afar tómlegt um að litast á svæðinu en á Ásvöllum eru einungis fjölmiðlafólk, liðin tvö og starfsfólk Hauka, HSÍ og ísraelska sambandsins.
Fjórir lögreglumenn löbbuðu um svæðið fyrir leik til að athuga svæðið.
Engir mótmælendur hafa sést fyrir utan svæðið hingað til.
Leikið fyrir luktum dyrum
Báðir leikirnir fara fram á Ásvöllum en án áhorfenda. HSÍ tók þá ákvörðun eftir að hafa fengið ráðleggingar frá ríkislögreglustjóra að hleypa engum áhorfendum að. Var talið að slíkt gæti ógnað öryggi þeirra sem hefðu mætt á leikinn.
Hins vegar verður bein útsending frá leiknum og hefst Stofan klukkan 19:00. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 19:30.
Ríkislögreglustjóri sagði í viðtali við Vísi að ráðleggingin byggi á öryggismati embættisins. Engar beinar hótanir hafa borist fyrir leikinn. Þó liggur ljóst fyrir að landsliðskonur hafa fengið skilaboð vegna leiksins.
Tilkynning HSÍ vegna málsins
Mikil vinna og undirbúningur hefur skilað því að Ísland á möguleika á að senda lið á lokakeppni HM og er það þá þriðja stórmótið í röð sem landsliðið tekur þátt í. Þessir leikir eru því afar mikilvægir fyrir stelpurnar okkar.
Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er fyrir botni Miðjarðarhafs gerði greiningarsvið ríkislögreglustjóra áhættugreiningu í tengslum við leikina. Ríkislögreglustjóri ráðleggur Handknattleikssambandi Íslands að halda fyrirhugaða landsleiki við Ísrael fyrir luktum dyrum og án þess að auglýsa þá. Stjórn HSÍ hefur ákveðið að fara að þessum ráðum ríkislögreglustjóra enda hefur HSÍ ekki forsendur til að ganga gegn þeirri greiningarvinnu sem unnin hefur verið af embættinu.
Það eru mikil vonbrigði að ekki sé hægt að leika þessa leiki með áhorfendum sem eru mikilvægur þáttur í þeim árangri sem stelpurnar hafa náð.
Af hverju er Ísland að mæta Ísrael?
Ísland og Ísrael mætast nú í tveimur umspilsleikjum um laust sæti á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta. Mótið fer fram í Þýskalandi og Hollandi frá lokum nóvember til miðs desember.
Ísland tryggði sæti sitt í umspili Evrópuþjóða með árangri sínum á EM 2024. Þar varð liðið í þriðja sæti og vann sinn fyrsta leik í sögunni á EM gegn Úkraínu. Því var liðið í efri styrkleikaflokki og fór beint inn í umspilið.
Ellefu mótherjar komu til greina og nafn Ísrael kom upp úr hattinum þegar dregið var. Lið Ísrael komst í gegnum umspil með Finnlandi og Eistlandi og tryggði þar með sæti sitt í þessu lokaumspili.
Ísrael getur ekki leikið á heimavelli vegna ástandsins í Ísrael og Palestínu. Því fara báðir leikirnir fram hér á landi.