Sjáðu: Leikur sem bauð upp á allt
„Þetta var einhver skrítnasti leikur sem ég hef spilað“
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Þorsteinn Halldórsson mættu í viðtöl eftir leik.
Karólína sagði leikinn einhvern þann skrítnasta sem hún hefur spilað. Þá myndaðist kostuleg umræða um aukaspyrnumarkið hennar í fyrri hálfleik.
„Þetta var einhver skrítnasti leikur sem ég hef spilað. Við mætum ekki í fyrri hálfleik og fáum svo mjög skrítið mark á okkur í byrjun seinni hálfleiks. Þetta var spurning um hvenær við myndum jafna leikinn og við gerðum það í dag. En það var mjög sárt að taka ekki þrjú stig.“
Viðtalið við Karólínu má sjá hér að neðan.
Hefur aldrei á ævinni gert þetta áður.
Þorsteinn gerði tvöfalda skiptingu í fyrri hálfleik. „Mér fannst vanta eitthvað nýtt. Ég hef aldrei á ævinni gert þetta áður.“
„Við sýndum karakter að koma okkur inn í leikinn aftur og vinna okkur inn í þetta. Við vorum mjög léleg í fyrri leik, heilt yfir, bara slakur fyrri hálfleikur. Við vorum bara heppin að fá mörk þarna í lok fyrri hálfleiks. Svo byrjuðum við enn þá skrýtnari í seinni hálfleik.“
Viðtalið við Þorstein má sjá hér að neðan.
Við segjum þessari fréttavakt lokið. Takk fyrir samfylgdina í dag. Þangað til næst - JPÁ.
Fjörugt jafntefli í leik sem bauð upp á allt
Niðurstaðan er 3-3 jafntefli sem reyndist ansi fjörugt. Ísland var heppið að vera einungis einu marki eftir á eftir afar slakan fyrri hálfleik. Sviss byrjaði leikinn afar vel og nánast allt gekk upp hjá liðinu. Staðan var 2-1 þökk sé aukaspyrnumarki Karólínu Leu sem markvörður Sviss hefði átt að verja. Þorsteinn Halldórsson gerði tvöfalda skiptingu í fyrri hálfleik og segist aldrei hafa gert slíkt áður.
Hér að neðan má sjá allt það helsta úr leiknum.
Allt annað íslenskt lið kom út í seinni hálfleikinn. Hann byrjaði hins vegar á hrikalegan hátt því Áslaug Munda og Cecilia sameinuðust í sjálfsmarki sem Áslaug er skráð fyrir. Hún átti sendingu af 40 metra færi til baka sem endaði í markinu.
Karólína minnkaði muninn skömmu síðar og fullkomnaði svo þrennu sína um miðjan seinni hálfleik. Sviss voru svo manni færri síðustu 20 mínúturnar eftir að Geraldine Reuteler fékk sitt annað gula spjald.
Ísland leitaði og leitaði að sigurmarkinu en það kom ekki.
Staðan í riðlinum
- Frakkland - 12 stig
- Noregur - 4 stig
- Ísland - 3 stig
- Sviss - 2 stig
Stutt eftir
Það eru tvær mínútur eftir af uppbótartíma. Guðný Árnadóttir tekur aukaspyrnu inn í teiginn.
Sveindís skapar usla
Það er mikil hætt að myndast eftir þegar Sveindís hleypur á svissnesku vörnina. Sveindís vildi fá víti rétt í þessu en dómarinn var ekki sammála.
Það eru tvær mínútur eftir af venjulegum leiktíma.
Er fjórða markið á leiðinni?
Það bjuggust ekki margir við svona fjörugum leik. Fyrri leikurinn fór 0-0 og Sviss hafði fyrir leikinn skorað eitt mark í síðustu fimm leikjum.
Ísland hefur 11 mínútur og uppbótartími til að ná fjórða markinu. Það er ljóst að Sviss mun hægja á leiknum eins og hægt er.
Áslaug Munda tók rétt í þessu hornspyrnu sem fór aftur fyrir.
Þetta verða fjörugar lokamínútur.
Rautt - seinna gula fyrir dýfu
Hvað er að gerast hérna?! Reuteler fær sitt annað gula spjald fyrir dýfu eftir að Alexandra þjarmaði að henni í teignum. Dómarinn var handviss og gaf henni gult spjald og þar með rautt.
Ísland verður einum fleiri síðustu 20 mínútur leiksins. Staðan er 3-3 þegar 70 mínútur eru á klukkunni.
Karólína komin með þrennu!
Þessi seinni hálfleikur er búinn að vera svakalegur. Eftir langt innkast Sveindísar jafnaði Karólína metin með skalla. Þar með fullkomnaði hún þrennu sína og endurkomu Íslands.
Skömmu síðar fékk Sviss hættulegt færi en Cecilia var vel á verði.
Staðan er 3-3 eftir 64 mínútna leik. Þetta eru heldur betur búnar að vera fjörugar mínútur.
Tvöföld skipting
Sandra María Jessen og Hafrún Rakel Halldórsdóttir komu inn á fyrir Hlín og Emilíu.
Boltinn í stöngina
Ísland er að þjarma að Sviss! Það skapaðist mikil hætta í tvígang eftir horn. Fyrst var það Karólína frá vinstri og svo Áslaug frá hægri. Hornspyrna Áslaugar small í stönginni.
Það er augljóst að hún ætlar að bæta upp fyrir þessa sendingu til baka. Það var í raun algjört óhapp. Sendingin var föst en Cecilia virtist ekki alveg gera sér grein fyrir því hvað var að gerast.
Ótrúlegar fyrstu mínútur
Sviss leiðir 2-3 eftir að 51 mínúta hefur verið spil. Áslaug Munda sendi boltann í eigið net af löngu færi alveg í blábyrjun hálfleiksins. Cecilia í marki Íslands náði ekki í boltann og ótrúlegt sjálfsmark því staðreynd.
Ísland svaraði því hins vegar vel og Karolína Lea minnkaði muninn með sínu öðru marki.
Karólína með mark úr aukaspyrnu!
Þetta þurftum við. Karólína Lea skorar úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateiginn með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks. Elvira Herzog verður eflaust ekki sátt með að fá þetta mark á sig þegar hún leggst á koddann í kvöld. En við kvörtum ekki.
Nú er þetta allt, allt, annar leikur og spennandi 45 mínútur fram undan.
Þorsteinn gerir tvöfalda skiptingu
Þorsteinn Halldórsson hefur séð nóg og gerir tvöfalda skiptingu. Þetta hef ég held ég aldrei séð hjá honum áður, það er að segja skiptingar í fyrri hálfleik.
Skiptingin virðist taktísk og þær Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir koma inn fyrir Sædísi Rún Heiðarsdóttur og Berglindi Rós Ágústsdóttur.
Vinstri bakvörður fyrir vinstri bakvörð og miðjumaður fyrir miðjumann.
Sveindís með sprett!
Þarna bankaði Ísland fyrst af alvöru á dyr svissnesku varnarinnar. Sveindís Jane hreinlega spólaði sig í gegnum vinstri væng Sviss. Skotið hennar með vinstri fór svo að lokum yfir.
Eftir 28 mínútna leik er Ísland að reyna að ná smá stjórn á leiknum. Hingað til hefur nær allt gengið upp hjá Sviss.
Sviss tvöfaldar forskotið
Sviss hefur byrjað leikinn af miklum krafti. Boltinn einhvern veginn skaust í gegnum vörnina, fram hjá Berglindi Rós sem kom ekki líkamanum í hann. Reuteler átti sendingu frá hægri út í teiginn og Vallotto kláraði af öryggi í netið.
Útlitið er svart eftir 17 mínútna leik.
Sædís ver á línu
Þarna skall hurð nærri hælum! Reuteler er aftur að skapa hætti. Hún tók snertingu fram hjá Ceciliu í markinu en sem betur var Sædís með á nótunum og hreinsaði skot hennar frá marklínunni.
Ísland að jafna sig
Leikurinn er í nokkru jafnvægi eftir mark gestana en íslenska liðið var augljóslega smá skelkað eftir markið. Ísland er í vandræðum með að halda í boltann og Svisslendingar eru skeinuhættir fram á við.
Staðan er enn 0-1 eftir tíu mínútna leik.
Sviss kemst yfir
Þetta var afskaplega einfalt! Einn bolti í gegnum vörnina og Reuteler virðist hafa allann tímann í heiminum. Hún lagði boltann fyrir sig og klíndi honum í fjærhornið. Cecilía kom engum vörnum við.
Leikurinn hafinn
Það er búið að flauta þetta á! Ísland byrjaði með boltann. Sviss bíður átekta en pressar strax og bakverðir Íslands fá boltann.
Liðin labba inn á völlinn
Liðin labba inn á völlinn. Það virðast vera nokkur sæti laus í stúkunni. KSÍ gaf ekki út tilkynningu um að uppselt væri á leikinn. Það var gert fyrir Noregsleikinn. Rétt yfir 1.000 sæti eru í boði á Þróttarvöllin í Laugardal.
Þjóðsöngvarnir óma um Laugardalinn. Aðstæður eru fínar fyrir fótboltaiðkun, rétt um 10 gráður. Það er einhver Íslandssigurlykt í loftinu.
Styttist í leik
Við erum farin í loftið á aðalstöð RÚV. Helga Margrét Höskuldsdóttir stýrir Stofunni með Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur og Albert Brynjar Ingason sem sérfræðinga. Edda Sif Pálsdóttur tekur viðtöl í leiknum og Einar Örn Jónsson lýsir.
Leikurinn sjálfur hefst klukkan 16:45.
Er fyrsti sigur Íslands í Þjóðadeildinni í þetta sinn fram undan? Það væri óskandi því að þrjú stig í dag færu langleiðina með að tryggja okkur umspilsleiki hið minnsta - en jafnvel gæti það opnað möguleika á annað sætið.
Til upprifjunar: Að vera í A-deild Þjóðadeildarinnar þýðir að Ísland er í hærri styrkleikaflokk þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM 2027. Efstu tvö sætin halda sæti sínu í A-deild. Þriðja sætið fer í umspil við lið úr B-deild og fjórða sætið fellur í B-deild.
Staðan í riðlinum
Frakkar eru langefsti með níu stig eftir þrjá leik. Ísland er sem stendur í 3. sæti með tvö stig. Noregur er með fjögur stig í öðru sæti og Sviss er með eitt stig í neðsta sæti.
Ein breyting á byrjunarliðinu
Þorsteinn Halldórsson gerir eina breytingu á byrjunarliðinu frá því í leiknum gegn Noregi.
Alexandra Jóhannsdóttir var í banni en kemur inn í stað Hildar Antonsdóttur á miðja miðjuna. Þorsteinn Halldórsson hefur hingað til gert þó nokkrar breytingar á byrjunarliðinu í Þjóðadeildinni.
Byrjunarlið:
1.Cecilía Rán Rúnarsdóttir (markvörður)
Varnarmenn
20. Guðný Árnadóttir
18. Guðrún Arnardóttir
6. Ingibjörg Sigurðardóttir
9. Sædís Rún Heiðarsdóttir
Miðjumenn
2. Berglind Rós Ágústsdóttir
7. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
8. Alexandra Jóhannsdóttir
Sóknarmenn
5.Emilía Kiær Ásgeirsdóttir
23. Sveindís Jane Jónsdóttir
14. Hlín Eiríksdóttir
Hversu sterkt er svissneska liðið?
Sviss er nokkuð sterkt lið og er í 23. sæti heimslista FIFA. Ísland er hins vegar tíu sætum ofar, í því þrettánda. Það er sögulega há staða.
Ljóst er að liðin munu mætast í sumar á EM en Sviss fékk þátttökurétt þar sem mótið er haldið þar í landi.
Sviss hefur skorað eitt mark í síðustu fimm leikjum sínum og fengið á sig ellefu, sex í sama leiknum gegn Þýskalandi í nóvember í fyrra. Liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Þjóðadeildinni.
„Þær eru sterkt varnarlið, beita mikið af skyndisóknum og fá ekki mörg færi á sig. Það var eins og það væri smá beisli á okkur í fyrri leiknum við þurfum að þora að gera hluti sóknarlega,“ segir Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Sviss hefur tvisvar áður farið á EM, árin 2017 og 2022. Þá komst liðið á HM 2015 og 2023. Fyrirliðinn Lia Wälti leikur á miðjunni og er á mála hjá Arsenal. Hún hefur leikið 124 landsleiki og skorað fimm mörk.
Þá er Ana-Maria Crnogorčević í hópnum en hún hefur skorað flest mörk og tekið þátt í flestum landsleikjum í sögu Sviss. Þeir eru 166 og mörkin í þeim 74.
Þá þarf Ísland að hafa góðar gætur á framherjanum Ramonu Bachmann og Noell Maritz er líkleg til að leiða varnarlínuna.
Steini vill bæta sóknarleikinn
Íslenska vörnin hefur verið nokkuð traust í Þjóðadeildinni hingað til. Liðið hefur gert tvö markalaus jafntefli gegn Noregi og Sviss, en mörkin flæddu að vísu í 3-2 tapi gegn Frakklandi.
Þorsteinn var ánægður með margt í leiknum gegn Noregi.
„Krafturinn í okkur, áræðni og þor á boltanum. Við náðum að mixa vel stutt langt og vorum ekkert að rembast við hluti heldur við þorðum bara að fara í þau svæði sem við vorum búin að sjá,“
Íslenska liðið hefur breyst mikið milli leikja í Þjóðardeildinni og Þorsteinn á von á því að einhverjar breytingar verði gerðar fyrir leikinn í kvöld.
„Það verða ekkert margar en það verða einhverjar breytingar.“
Hvað er undir?
Af hverju er leikurinn mikilvægur?
Þjóðadeild kvenna í fótbolta er aðeins frábrugðin keppninni karlamegin. Það er nefnilega þannig að önnur hver Þjóðadeild er undankeppni fyrir stórkeppnir. Sem sagt, þegar Ísland tryggði sig inn á EM 2025 í undankeppni EM var yfirskriftin Þjóðadeild.
Einfalda útgáfan: Ef Ísland heldur sæti sínu í A-deild Þjóðadeildar er liðið í efri styrkleikaflokki þegar dregið er í riðla fyrir undankeppni HM 2027.
Núna er hins vegar leikið um að halda sæti sínu í Þjóðadeildinni. Ísland er í A-deild og er gífurlega mikilvægt að halda sæti sínu í henni því það gefur greiðari leið á HM 2027 í Brasilíu.
Líklegt er að Frakkar verði í efsta sæti riðilsins enda hefur liðið unnið alla þrjá leiki sína. Annað sætið í riðlinum veitir áframhaldandi sæti í A-deild. Þriðja sætið fer í umspil við lið úr B-deild og fjórða sætið fellur.
Staðan í riðlinum
- Frakkland - 9 stig
- Noregur - 4 stig
- Ísland - 2 stig
- Sviss - 1 stig
Innbyrðis viðureignir milli Íslands, Noregs og Sviss gætu ráðið úrslitum hvort Ísland fari í annað, þriðja eða fjórða sæti.