„Maður verður að standa sig með félagsliði til að eiga sæti í landsliðinu“
Ísland tekur á móti Noregi á Þróttaravelli í Laugardal á föstudag klukkan 16:45 og fær svo Sviss í heimsókn á sama völl á þriðjudag. Báðir leikir verða sýndir á RÚV. Ísland er með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína í Þjóðadeildinni eftir jafntefli við Sviss ytra og tap fyrir Frökkum.
Við ræddum við Cecilíu Rán Rúnarsdóttur, markvörð Íslands og leikmann Inter sem leikið hefur vel í ítölsku deildinni í vetur. Hún er klár í slaginn. „Maður verður að standa sig með sínu félagsliði til að eiga sæti í landsliðinu. Mér finnst ég vera búin að spila vel,“segir Cecilía Rán.
Ljóst er að Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði verður ekki með í leikjunum vegna meiðsla. „Þetta verður stórt skarð að fylla en við erum með aðra leikmenn sem vonandi stíga upp.“