„Get sett kröfu á mig að stíga upp sem leiðtogi“

Jóhann Páll Ástvaldsson

Hlín er komin með 45 landsleiki þrátt fyrir að vera einungis 24 ára gömul. „Ég held ég geti alveg farið að setja þær kröfur á sjálfa mig að taka aðeins meiri ábyrgð og stíga enn fremur upp sem leiðtogi í liðinu. Nú vantar leiðtoga liðsins Glódísi. Ég held að við þurfum allar að taka enn meiri ábyrgð núna.

Eins og þú segir þá er ég komin með slatta af leikjum. Ég get vonandi nýtt mér það til þess að hjálpa liðinu sem allra mest.“

Hlín segir að leikstíll liðsins muni ekki breytast í fjarveru Glódísar. „Ég held við tæklum þetta bara eins og við gerum. Við höldum alltaf í sömu gildi og við erum með ákveðin einkenni sem lið sem breytast ekki þó að það vanti einn leikmann.“

Þá hefur gengið vel hjá Hlín í Leicester í ensku deildinni en hún segir borgina þó ekki þá fallegustu í heimi.