Samantekt

Valur með stórsigur á erkifjendunum

Anna Sigrún Davíðsdóttir og Jóhann Páll Ástvaldsson

,
22. mars 2025 kl. 19:07 – uppfært

Frank Aron: „Ef við höldum áfram að spila svona, þá er erfitt að vinna okkur.“

„Mér líður mjög vel með þessum strákum og þessu félagi, þetta er bara geggjuð tilfinning, ég get ekki útskýrt það.“ Frank Aron Booker skoraði 20 stig fyrir Val í dag og átti 5 fráköst.

Hann segir þetta gott veganesti fyrir úrslitakeppnina sem fram undan er. „Ef við höldum áfram að spila svona vörn og taka áfram svona varnarfráköst, þá er erfitt að vinna okkur.“

„Ég elska að spila körfubolta og ég elska að spila með þessum strákum. Ef maður er ekki að hafa gaman af þessu, af hverju er maður þá að þessu?"

Við segjum þessari fréttavakt lokið. Takk fyrir okkur í dag! Við minnum á lokahnikkinn í mögnuðum mars þar sem bikarmót í áhaldafimleikum og hópfimleikum eru á dagskrá.

-JPÁ.

22. mars 2025 kl. 19:05

Blendnar tilfinningar að vinna á móti KR

„Þetta er mjög ljúft. Það er alltaf jafngaman að vinna þessa titla. Það eru blendnar tilfinningar að vinna þetta á móti KR. En ég er virkilega sáttur,“ segir Kristófer Acox sem er uppalinn KR-ingur og spilaði lengi fyrir félagið. „Þetta er alltaf sérstakt, gefur manni auka hvatningu, en sama hver er á móti okkur þá erum við tilbúnir í verkið.“

Kristófer segir stressið fylgja stórum leikjum. „Það er alltaf hnútur og kvíði og stress og allt sem fylgir því.“

22. mars 2025 kl. 19:05

„Mér fannst við vera með þennan leik allan tímann“

„Þetta er fyrsta skiptið fyrir mig, þetta er frábært framhald á mínu öðru ári í Val, þetta er bara geðveiki.“ Kristinn Pálsson leikmaður Vals segir leikinn ekki hafa verið auðveldan því svo að honum þykir liðið hafa leikinn sín megin frá upphafi. „Mér fannst við vera með þennan leik allan tímann.“

„Það eru tveir stórir bikarar á Íslandi. Við erum með báða núna og við ætlum að halda í seinni bikarinn líka.“ Valur varð Íslandsmeistari 2024 og hefur því titil að verja.

22. mars 2025 kl. 18:21

Leikurinn í hnotskurn: Valur vann stórsigur

Valur er bikarmeistari karla í körfubolta 2025. Valur leiddi allt frá fyrstu mínútu og tryggði að lokum 78-96, sigur. Þetta er fimmti bikarmeistaratitill Vals, síðast vann liðið árið 2023.

Leikar stóðu jafnir í stöðunni 2-2 en þaðan tóku Valsmenn á loft. Valur náði sjö stiga forystu, 4-12 og lauk leikhlutanum með sama mun, þá stóðu stigin 15-22. Valur náði enn meira forskoti í öðrum leikhluta þar sem hver þriggja stiga karfan á fætur annarri flaug í körfuna. Mest munaði 22 stigum á liðunum, 27-49. Hálfleikstölur voru 29-49.

Úr bikarúrslitum karla í körfubolta 2025 þar sem KR og Valur mætast.
Mummi Lú

Skotnýting KR var ekki upp á marga fiska í fyrri hálfleik en liðið hitti einungis einu þriggja stiga skoti úr sautján tilraunum. Á sama tíma hafði Valur náð átta þriggja stiga körfum úr fimmtán tilraunum.

Áfram héldu Valsmenn og þegar þriðja leikhluta lauk hafði Valur sautján stiga forystu, 53-70. Áfram flugu Valsmenn og tryggðu enn frekari forystu, mest munaði 26 stigum í fjórða leikhluta, 65-91.

Valsmenn luku leik með 53 prósenta skotnýtingu úr þriggja stiga skotum.

Þetta var í þriðja sinn sem liðin mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar. Þau mættust einnig 1974 og 1984. KR hafði betur í bæði skiptin.

22. mars 2025 kl. 18:18

Leik lokið!

Valsmenn unnu öruggan 78-96 stiga sigur gegn KR. Bongó trommurnar óma um Smárann og Hlíðarendapiltar geta fagnað vel.

22. mars 2025 kl. 18:09

26 stiga munur

Valsmenn leiða 91-65 þegar 3:25 mínútur eru eftir. Þetta er svo gott sem komið og Valsmenn eru að sigla þessu heim.

22. mars 2025 kl. 18:01 – uppfært

Frank!

Frank Aaron Booker setti tvö stig niður og munurinn kominn í tuttugu stig. Innan við sjö mínútur eru eftir.

Útlitið er orðið ansi svart fyrir KR-inga.

Til að bæta gráu ofan á svart setti á Kristófer Acox nú færi á að setja And-1 skot. Niður. Hann náði í tvö stig og á færi á að setja vítaskotið niður.

Úr bikarúrslitum karla í körfubolta 2025 þar sem KR og Valur mætast.
Mummi Lú

Úr bikarúrslitum karla í körfubolta 2025 þar sem KR og Valur mætast.
Mummi Lú

Úr bikarúrslitum karla í körfubolta 2025 þar sem KR og Valur mætast.
Mummi Lú

22. mars 2025 kl. 17:54

Fjórði leikhluti að hefjast

Fjórði leikhluti er farinn af stað og Valur er með sautján stiga forskot, 53-70.

Það er óhætt að segja að stemningin sé öll Valsmegin í stúkunni eins og er.

Taiwo Badmus heldur uppteknum hætti og byrjaði leikhlutann á auðveldri körfu þegar hann sótti á vörn KR.

Staðan því strax orðin 53-72.

22. mars 2025 kl. 17:49 – uppfært

Þrettán stiga forskot

Valsmenn leiða 53-68 þegar þrjátíu og ein sekúnda er eftir af þriðja leikhluta. Ef KR ætlar að koma til baka þarf eitthvað mikið að gerast í fjórða leikhluta.

22. mars 2025 kl. 17:34

Seinni hálfleikur hafinn

KR leitar lausna og hefur minnkað forystuna í sautján stig, 34-51.

22. mars 2025 kl. 17:18

Kemur KR til baka?

Þorvaldur Orri Árnason leikmaður KR sagði í viðtali í hálfleik að liðið þyrfti að núllstilla sig inni í klefa til þess að ná fram betri skotnýtingu. Hún hefur ekki verið upp á marga fiska hjá KR í fyrri hálfleik. Liðið hefur einungis hitt einu þriggja stiga skoti úr sautján tilraunum.

22. mars 2025 kl. 17:15 – uppfært

Valur með 20 stiga forystu í hálfleik

Það er allt að ganga upp hjá Valsmönnum. Hver þriggja stiga karfan á fætur annarri flýgur í körfuna. Hálfleikstölur eru 29-49.

22. mars 2025 kl. 17:04 – uppfært

Badmus í fantaformi

KR hefur ekki fundið varnir gegn Taiwo Badmus en hann er kominn með 15 stig það sem af er leiks. Nú leiðir Valur með tíu stigum 22-32. KR tekur annað leikhlé.

22. mars 2025 kl. 17:00 – uppfært

Sex Valsstig í röð

Valur heldur áfram í öðrum leikhluta. Liðið hefur náð sex stigum í röð og forystan nú níu stig, 19-28.

22. mars 2025 kl. 16:52 – uppfært

Sjö stiga forskot eftir fyrsta leikhluta

Þá er fyrsti leikhluti yfirstaðinn. Valur er með sjö stiga forystu, 15-22. Valsmenn eru með 50% nýtingu í þriggja stiga skotum og hafa hitt í þremur af sex tilraunum.

22. mars 2025 kl. 16:49

Frábærir taktar Valsara

Valur er á góðri siglingu. Sjáðu góð augnablik Kára, Kristófers og Taiwo. Valur leiðir með sjö stigum 13-20.

22. mars 2025 kl. 16:39 – uppfært

Kári Jóns skellir í þrist

Kári Jónsson skellti í þrist og Valur er nú með átta stiga forystu, 4-12. KR tekur leikhlé. Rúmar fimm mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta.

22. mars 2025 kl. 16:35

Leikurinn er hafinn

Leikurinn er byrjaður og liðin byrja bæði í góðri vörn. Fyrstu stig leiksins voru Valsara og komu eftir eina og hálfa mínútu. Nú er staðan 2-2.

22. mars 2025 kl. 16:22 – uppfært

Hvor vann ASNA?

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson úr KR og Kári Jónsson úr Val hittu Önnu Sigrúnu Davíðsdóttur á dögunum þar sem þeir mættust í gömlum og góðum ASNA. Frábær tilþrif en hvor hafði betur?

22. mars 2025 kl. 16:16

Allt um leikinn

Til hamingju með sigurinn Njarðvík. Hér má sjá umfjöllun um leikinn, helstu tilþrif og viðtöl.

22. mars 2025 kl. 16:12

Styttist í slaginn!

Leikur KR og Vals er handan við hornið.

Mætast í þriðja sinn

Leikurinn hefst klukkan 16:30. Þar mætast sigursæl lið því KR-ingar hafa 14 sinnum unnið bikarinn, síðast árið 2017, og Valur vann keppnina í fjórða skipti 2023. KR-ingar slóu Stjörnuna út í undanúrslitum á meðan Valur vann Keflavík.

Þetta verður í þriðja skiptið sem þessi lið spila til úrslita því þau mættust einnig 1974 og 1984. KR hafði betur í bæði skiptin.

22. mars 2025 kl. 15:18 – uppfært

Brittany Dinkins er maður leiksins

„Þetta er frábær tilfinning. Ég finn fyrir auðmýkt og heiðri að fá að taka þátt í sigrinum í dag og vinna þetta fyrir félagið.“ Brittany Dinkins lék á als oddi í dag og var tilnefnd maður leiksins. Hún skoraði 31 stig, átti 10 fráköst og 10 stoðsendingar.

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Mummi Lú

Grindavík tók góð áhlaup í leiknum. Dinkins segist hafa búist við því. „Þú getur ekki búist við að neitt sé auðvelt, þetta er körfubolti.“

Njarðvík vann bikarmeistaratitilinn síðast árið 2012 en það ár vann liðið einnig Íslandsmeistaratitilinn. „Það er markmiðið, þjálfarinn sagði það við okkur. Þetta er fyrsti titillinn. Við munum halda áfram að láta lítið fyrir okkur fara. Við tökum einn leik í einu.“

22. mars 2025 kl. 15:11

Njarðvík er bikarmeistari

Eftir spennandi lokamínútur tryggði Njarðvík sigur. 81-74 eru lokatölur og Njarðvíkingar eru bikarmeistarar kvenna í körfubolta 2025.

22. mars 2025 kl. 15:00

Spennan magnast og leikar jafnir

Rúmar þrjár mínútur eru eftir af leiknum leikar eru jafnir. Isabella Ósk jafnar fyrir Grindavík og staðan er hnífjöfn 73-73.

22. mars 2025 kl. 14:54

Njarðvík með átta stig í röð

Njarðvík tekur málin í sínar hendur og skoraði átta stig í röð. Staðan er 69-61.

22. mars 2025 kl. 14:50

Grindavík jafnar!

Mariana Duran jafnar leikinn! Staðan er 61-61. Níu mínútur eftir af leiknum.

22. mars 2025 kl. 14:47

Mjótt á munum fyrir síðasta leikhluta

Nú er leikurinn orðinn virkilega spennandi. Tveimur stigum munar á liðunum þegar fjórði og síðasti leikhluti er í þann mund að hefjast.

22. mars 2025 kl. 14:41

Grindavík svarar

Ólöf Rún Ólafsdóttir minnkaði muninn í fimm stig með góðum þrist. Njarðvík leiðir 57-52 þegar þrjár mínútur eru eftir af þriðja leikhluta.

22. mars 2025 kl. 14:34 – uppfært

Njarðvík tekur yfir

Þriðji leikhluti er hafinn og Njarðvíkingar stinga af, liðið leiðir nú með fimmtán stigum 53-38.

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Mummi Lú

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Mummi Lú

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Mummi Lú

22. mars 2025 kl. 14:18

Isabella Ósk með góða takta

Isabella Ósk átti flottan fyrri hálfleik fyrir Grindavík, sér í lagi fyrsta leikhluta.

Sjáðu tilþrifin.

22. mars 2025 kl. 14:17 – uppfært

Leiðtogar fyrri hálfleiks

Brittany Dinkins lýkur fyrri hálfleik með sautján stig fyrir Njarðvík. Hulda Björk Ólafsdóttir er með tíu stig fyrir Grindavík.

Emilie Sofie Hesseldal á flest fráköst það sem af er leiks, þau eru átta talsins.

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Helga Margrét, Helena og Berglind í Stofunni.Mummi Lú

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Bikararnir.Mummi Lú

Úr bikarúrslitum kvenna í körfubolta 2025 þar sem Grindavík og Njarðvík mættust.
Matthías Orri og Einar Örn.Mummi Lú

22. mars 2025 kl. 14:13

Njarðvík leiðir í hálfleik

Njarðvík leiðir með átta stigum í hálfleik, 42-34. Grindavík leitar lausna til að vinna upp forystuna.

22. mars 2025 kl. 14:00 – uppfært

Njarðvík setur í fimmta gír

Nú hafa Njarðvíkingar sett allt í gang. Njarðvík er komið í tíu stiga forystu. Rúmar þrjár mínútur eftir af öðrum leikhluta. Staðan er 39-29.

22. mars 2025 kl. 13:56 – uppfært

Brittany Dinkins í stuði!

Sara Björk Logadóttir byrjar annan leikhluta á þristi fyrir Njarðvík. Grindavík fylgir eftir og tekur tvö stig. Brittany Dinkins skellir þá í fimm stig á átján sekúndum. Njarðvík leiðir með fimm stigum og Grindavík tekur leikhlé. Dinkins er komin með fjórtán stig í leiknum.

22. mars 2025 kl. 13:51

Allt í járnum eftir fyrsta leikhluta

Liðin skiptast á stigaskorun. Lára Ösp Ásgeirsdóttir jafnar metin í 21-21 með þristi! Grindavík fékk þá tvö víti undir lok fyrsta leikhluta. Hulda Björk Ólafsdóttir tók þau en boltinn náði í hvorugt skiptið í körfuna. Staðan því hnífjöfn eftir fyrsta leikhluta, 21-21.

22. mars 2025 kl. 13:42

Njarðvík jafnar leika

Njarðvík svarar og minnkar muninn í þrjú stig 10-13. Hulda María Agnarsdóttir tryggði þá tvö stig og villu. Njarðvík skoraði úr báðum vítum og staðan jöfn 13-13.

22. mars 2025 kl. 13:38

Grindavík leiðir fyrstu mínúturnar

Grindavík byrjar leikinn vel, hefur nú sjö stiga forystu 4-11. Vörnin hjá Njarðvík gengur brösulega.

22. mars 2025 kl. 13:32

Leikurinn flautaður á

Nú höfum við hlýtt á Lofsönginn og leikurinn er byrjaður!

22. mars 2025 kl. 13:18

Spáði ASNI fyrir um úrslitin?

Isabella Ósk Sigurðardóttir úr Grindavík og Hulda María Agnarsdóttir úr Njarðvík hittu hana Önnu Sigrúnu Davíðsdóttur fyrir leik og kepptu í þeim gamla, góða og gilda leik ASNA.

Sjá má myndbandið hér að neðan. Segja niðurstöðurnar eitthvað um leikinn sem fram undan er?

Ef myndbandið birtist ekki má sjá það í þessari slóð.

22. mars 2025 kl. 13:03

Farin í loftið!

Helga Margrét Höskuldsdóttir stýrir Stofunni og Helena Sævarsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir eru sérfræðingar dagsins.

Einar Örn Jónsson lýsir og Matthías Orri Sigurðarson verður honum til halds og trausts. Almarr Ormarsson tekur viðtal.

22. mars 2025 kl. 12:45

Fyrsta skipti sem liðin mætast

Það er allt að verða klárt í Smáranum í Kópavogi þar sem leikurinn fer fram.

Grindavík, sem vann Þór Akureyri í undanúrslitum, hefur tvisvar orðið bikarmeistari, 2008 og 2015, en Njarðvík náði í sinn eina bikarmeistaratitil 2012. Njarðvíkingar höfðu betur gegn Hamri/Þór í sínum undanúrslitaleik.

Þetta verður í fyrsta skipti sem liðin mætast í úrslitaleiknum.

Þetta verður veisla!