Samantekt
Handbolti

Ísland er á leiðinni á fjórtánda EM í röð

Anna Sigrún Davíðsdóttir

,
15. mars 2025 kl. 18:38

Góður dagur að kveldi kominn

Frábær frammistaða í Laugardalnum skilaði farseðli á EM. Ísland á þó enn eftir tvo leiki í riðlinum sem eru við Bosníu þann 7. maí og Georgíu 11. maí.

Riðill Íslands á EM verður leikinn í Svíþóð.

Við segjum þetta gott í bili, þangað til næst.

15. mars 2025 kl. 18:32

Snorra bíður jákvæður hausverkur

Snorri Steinn Guðjónsson segir að sín bíði jákvæður hausverkur en í landsliðshópi þessa glugga voru fjölmargir leikmenn sem ekki eru fastamenn í liðinu. „Ef ég er með alla heila þá er þetta bara jákvæður hausverkur fyrir mig. Þannig vil ég hafa það. Það eru fullt af strákum sem stimpluðu sig inn.“

Snorri er ánægður með frammistöðu liðsins. „Þetta er lítill tími. Langflestir af þessum strákum spila í bestu deildunum, í bestu liðunum, og undir gríðarlegu álagi. Það þarf einbeitingu í þetta.“

Hvað gleður mest eftir daginn?

„Að við séum komnir á EM, það er bara mjög ánægjulegt. Gott að það sé frá. Mikilvægt að gera þetta fagmannlega.“

15. mars 2025 kl. 18:20

„Ég er ánægður með innkomuna og er til í meira“

Andri Már Rúnarsson átti frábæra innkomu í leiknum í dag og skoraði fjögur mörk. „Maður er oft búinn að horfa á leiki hérna í stúkunni og að fá að spila fyrir framan troðfulla höll er bara draumur. Þegar ég fékk tækifæri ákvað ég bara að gera mitt besta og það gekk upp.“

„Hjartað sló hraðar fyrstu skrefin inn á gólfið, á bekknum og heima í morgum. Það er búinn að vera smá fiðringur í manni en það er partur af þessu og gaman.“

„Ég er ánægður með innkomuna og er til í meira.“

„Það er alltaf draumur að spila fyrir A-landsliðið og hvað þá á stórmóti“ það er þjálfarateymisins að ákveða það, eina djobbið mitt er að spila vel og bæta mig, þá er það þeirra að ákveða hvort ég sé nógu góður eða ekki.“

15. mars 2025 kl. 18:10

„Ég er ekki eilífur í þessu“

Björgvin Páll Gústafsson fór mikinn í leik dagsins og varði 15 skot. „Við mættum klárir. Við erum betri í handbolta. Það er alveg vitað mál en það er ekkert sjálfgefið í handbolta.“

Björgvin var ekki í landsliðshópnum í þessum glugga til að byrja með en það stóð til að Viktor Gísli Hallgrímsson og Ísak Steinsson myndu verja markið. Viktor er hins vegar að glíma við meiðsli og því var Björgvin kallaður inn. Björgvin lýsir blendnum tilfinningum. „Blendnar tilfinningar. Auðvitað sem landsliðsmaður vill maður alltaf vera í hópnum. Það má vera pirraður, það má vera svekktur, það má vera reiður. Það má allt í þessu. En svo skilur maður líka stöðuna sem liðið er í. Það er ungur og efnilegur makamaður að koma upp. Það þarf að gefa öllum séns og ég er ekki eilífur í þessu.“

„Þetta er ekki það mikilvægasta sem ég geri en þetta er það merkilegasta.“

15. mars 2025 kl. 17:46

Mörk Íslands í dag

Svona dreifðist markaskorun Íslands í dag:

Andri Már Rúnarsson - 4
Janus Daði Smárason - 4
Sigvaldi Björn Guðjónsson - 3
Stiven Tobar Valencia - 3
Haukur Þrastarson - 3
Orri Freyr Þorkelsson - 3
Þorsteinn Leó Gunnarsson - 3
Óðinn Þór Ríkharðsson - 3
Kristján Örn Kristjánsson - 2
Elliði Snær Viðarsson - 2
Einar Þorsteinn Ólafsson - 1
Ýmir Örn Gíslason -1
Arnór Snær Óskarsson -1

Markvarsla

Björgvin Páll Gústafsson 15
Ísak Steinsson 1

15. mars 2025 kl. 17:36 – uppfært

Ísland er á leið á EM

Ísland er á leiðinni á EM 2026 eftir tólf marka sigur á Grikklandi! Lokatölur í Laugardalnum 33-21.

15. mars 2025 kl. 17:31

Ísland leiðir með 12 mörkum

Tvær mínútur eftir! Tólf marka munur og Höllin er að tryllast.

15. mars 2025 kl. 17:21

Ísak Steinsson mættur á milli stanganna

Hinn 19 ára gamli Ísak Steinsson er mættur inn á völlinn í sínum fyrsta leik A-landsleik á Laugardalsvelli. Höllin fagnar honum vel og innilega.

15. mars 2025 kl. 17:18

Tólf mínútur eftir og tíu marka forysta

Stutt eftir af leiknum og Ísland leiðir með 10 mörkum. Ýmir Örn Gíslason átti glæsilegt mark sem tryggði fyrst 10 marka mun.

15. mars 2025 kl. 17:06

Ísland leiðir með átta mörkum

Ísland leiðir með átta mörkum 20-12. Evrópumótið er í augsýn! Íslenskir áhorfendur eru í góðu stuði í Höllinni.

15. mars 2025 kl. 16:54

Seinni hálfleikur byrjaður

Seinni hálfleikur er hafinn, Ísland byrjar manni færri en Haukur fékk tvær mínútur undir lok fyrri hálfleiks.

15. mars 2025 kl. 16:42

Ísland leiðir 16-9 í hálfleik

Íslenska liðið leiðir með sex mörkum í hálfleik. Varnarleikur liðsins er gríðarsterkur og Björgvin Páll frábær í markinu með ellefu varin skot. Sigvaldi, Stiven og Haukur eru allir með þrjú mörk hver.

15. mars 2025 kl. 16:29

Björgvin í banastuði

Björgvin Páll Gústafsson hefur varið átta skot eftir tæplega 23 mínútna leik.

15. mars 2025 kl. 16:18

Fimm marka munur

Ísland komst mest í 6-1. Nú enn er fimm marka munur á liðunum 9-4.

Stiven Valencia átti gullfallegt mark þegar hann kom liðinu í 4-0.

15. mars 2025 kl. 16:08

Draumabyrjun hjá íslenska liðinu

Ísland er komið í 4-0. Varnarleikurinn gengur einnig gríðarvel!

15. mars 2025 kl. 16:03

Leikurinn hafinn

Leikurinn er byrjaður og Haukur Þrastarson á fyrsta mark leiksins!

15. mars 2025 kl. 15:59

Þjóðsöngvar hljóma

Nú er örstutt í leik og þjóðsöngvar liðanna hljóma um Laugardalinn. 2000 manna kór flytur nú Lofsönginn.

15. mars 2025 kl. 15:36 – uppfært

„Það er einn sigur og þá erum við komnir á næsta stórmót“

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari liðsins segir línurnar skýrar. „Það er einn sigur og þá erum við komnir á næsta stórmót.“ Hann segir það hins vegar góða reglu að búast alltaf við því besta frá andstæðingnum. „Ég reikna með þeim miklu betri og beittari.“

Snorri segir liðið geta bætt ýmis atriði frá leiknum á miðvikudag. „Mér fannst sérstaklega í seinni hálfleik of mikið af töpuðum boltum eins varnarlega fannst mér móment sem Grikkirnir hefðu getað nýtt sér,“ segir Snorri og bætir við: „Ef þetta hefði verið sterkari andstæðingur þá hefði okkur mögulega verið refsað.“

„Auðvitað er full Höll og heimavöllur þér í hag og menn eiga líka bara að njóta þess.“

15. mars 2025 kl. 15:30

Stofan farin í loftið

Stofan er farin í loftið. Helga Margrét Höskuldsdóttir hitar upp ásamt þeim Loga Geirssyni og Kára Kristjáni Kristjánssyni.

15. mars 2025 kl. 15:03

Ísland unnið alla leiki riðilsins hingað til

Íslenska liðinu hefur gengið vel í undankeppni Evrópumótsins 2026. Liðið hefur unnið alla leiki riðilsins til þessa. Fyrsti leikur liðsins í riðlakeppninni var 6. nóvember 2024 þegar liðið vann sex marka sigur á Bosníu 32-26.

Þann 10. nóvember sigraði liðið Georgíu ytra með fimm mörkum. Þriðji sigurinn var svo unninn gegn Grikklandi á miðvikudag.

Ísland á þrjá leiki eftir í riðlinum, að leik dagsins meðtöldum.

15. mars 2025 kl. 14:32

Þessir verða fjarri góðu gamni

Eins og fyrr segir eru fjölmargir leikmenn liðsins að glíma við meiðsli og koma því ekki til með að spila leik dagsins. Hópurinn í dag er sá sami og spilaði við Grikki á miðvikudag.

Eftirfarandi leikmenn voru allir með á HM í janúar, að undanskildum Arnari Frey og Ómari Inga sem voru einnig meiddir þá:

Arnar Freyr Arnarsson
Aron Pálmarsson
Bjarki Már Elísson
Elvar Örn Jónsson
Gísli Þorgeir Kristjánsson
Ómar Ingi Magnússon
Sveinn Jóhannsson
Teitur Örn Einarsson
Viggó Kristjánsson
Viktor Gísli Hallgrímsson

15. mars 2025 kl. 14:06

Ísak Steinsson spilaði sinn fyrsta A-landsleik á miðvikudag

Ísak Steinsson er 19 ára handboltamarkmaður sem spilar með Drammen í Noregi. Hann hefur alla tíð búið þar í landi og gat valið á milli þess að spila með norska og íslenska landsliðinu. „Ég hugsaði þetta alveg smá en svo valdi ég Ísland og hef aldrei séð eftir því. Ég er núna búinn að vera þrjú ár í yngri landsliðunum og þetta hefur bara verið geggjað.“

Fyrsti A-landsleikur Ísaks var á miðvikudaginn gegn Grikklandi. Hann segist ekki hafa átt von á kallinu svona fljótt: „Alls ekki. Ég hef fengið að æfa með þeim nokkrum sinnum, t.d. núna í janúar og hef aðeins komist inn í hópinn. En ég var ekki að búast við þessu og þegar Snorri Steinn hringdi varð ég mjög spenntur.“ Ísak talar vel um liðsfélaga sína í landsliðinu: „Þetta eru heimsklassaleikmenn í hverri stöðu og mikið hægt að læra af þeim.“

15. mars 2025 kl. 13:41

Uppselt í Höllinni!

Rúmlega 2000 stuðningsmenn íslenska liðisins leggja leið sína í uppselda Laugardalshöll í dag.

Orri Freyr Þorkelsson í leik Íslands og Eistlands í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Laugardalshöll 5. maí 2024.
Mummi Lú

15. mars 2025 kl. 13:24

„Menn þurfa að gera það aftur og svo í þriðja skiptið“

„Við getum tryggt okkur inn á næsta stórmót,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson um leik Íslands gegn Grikklandi á morgun í undankeppni EM 2026 í handbolta.

„Við erum að spila landsleik á heimavelli fyrir framan troðfulla Laugardalshöll þannig að ég hef ekki áhyggjur af kæruleysi.“

Það er mikið um meiðsli og því vantar marga fastamenn. Snorri Steinn er ánægður með innkomu þeirra sem hafa áður verið í minna hlutverki:

„Eykur bara hausverkinn hjá mér þegar kemur að því að velja næsta hóp.“

15. mars 2025 kl. 13:02

„Við gerum kröfu á okkur að gera þetta vel“

Haukur Þrastarson hlakkar til að mæta Grikklandi í síðari leik liðanna í dag. Hann segir alltaf gaman að spila fyrir framan fulla Laugardalshöll. Hann segir eitt og annað mega laga í leik íslenska liðsins þrátt fyrir níu marka sigur síðast. Sigur tryggir Íslandi sæti á EM fjórtánda árið í röð og markmið liðsins er augljóst. „Við gerum kröfu á okkur að gera það,“ segir Haukur.

Hann fékk stærra hlutverk í liðinu á miðvikudaginn var vegna þeirra miklu meiðsla sem herja á íslenska liðið. Sjálfum fannst honum takast vel til þó alltaf megi gera betur.

„Mér fannst það ganga ágætlega, held ég. Ég held við höfum bara gert þetta vel í fyrri leiknum og þurfum að gera það aftur. Við vorum að skoða okkur sjálfa og það er fullt af atriðum sem við getum gert betur, bæði varnar- og sóknarlega,“ segir Haukur.

„Við gerum kröfu á okkur að gera þetta vel, þó við vitum að við eigum að vinna og gerum þá kröfu.“

15. mars 2025 kl. 12:43

Aron enn meiddur og því ekki með í dag

Hópurinn í dag er sá sami og spilaði leikinn við Grikkland á miðvikudag. Fjölmarga fastaleikmenn vantar í liðið vegna meiðsla en þar á meðal er Aron Pálmarsson fyrirliði.

Hópurinn

Markverðir:
Björgvin Páll Gústavsson, Valur (282/26)
Ísak Steinsson, Drammen (1/0)

Aðrir leikmenn:
Andri Rúnarsson, Leipzig (3/1)
Arnór Snær Óskarsson, Kolstad (3/0)
Benedikt Gunnar Óskarsson, Kolstad (4/1)
Einar Þorsteinn Ólafsson, Fredericia HK (20/6)
Elliði Snær Viðarsson, Vfl Gummersbach (59/128)
Haukur Þrastarsson, Dinamo Bucaresti (42/59)
Janus Daði Smárason, Pick Szeged (95/166)
Kristján Örn Kristjánsson, Skanderborg (34/67)
Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Schaffhausen (51/153)
Orri Freyr Þorkelsson, Sporting (25/75)
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kolstad (84/227)
Stiven Tobar Valencia, Benfica (19/20)
Þorsteinn Leó Gunnarsson, FC Porto (14/23)
Ýmir Örn Gíslason, Göppingen (101/45)

15. mars 2025 kl. 12:31

Farseðill á EM í boði í dag

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur tækifæri á því að tryggja sig inn á EM 2026. Liðið mætir Grikklandi klukkan 16:00 í uppseldri Laugardalshöll. Ísland vann fyrri leik liðanna öruggt með níu marka mun, 25-34, í Grikklandi. Liðið er á toppi riðilsins með sex stig og þarf einungis einn sigur í viðbót til að tryggja sæti á EM.

Helga Margrét Höskuldsdóttir sér um upphitun í Stofunni ásamt Loga Geirssyni og Kára Kristjáni Kristjánssyni. Stofan hefst klukkan 15:30.

Hér munum við fylgjast grannt með gangi mála í Laugardalnum.

Aðrir eru að lesa