Samantekt

Sjáðu: Öruggur sigur gegn Grikkjum og leiðin greið á EM

Jóhann Páll Ástvaldsson og Óðinn Svan Óðinsson

,
12. mars 2025 kl. 19:21

Allt það helsta úr leiknum

Hér má sjá allt það helsta úr leiknum.

Við segjum þá þessari fréttavakt lokið. Takk fyrir samfylgdina í dag. Við sjáumst á laugardaginn- JPÁ.

12. mars 2025 kl. 19:06

Donni og Janus í viðtölum. „Köllum það eitthvað“

Kristján Örn Kristjánsson og Janus Daði Smárason mættu í viðtöl eftir leik.

„Við gerðum það sem við ætluðumst til af liðinu. Við mættum til leiks frá byrjun. Við spiluðum góða vörn og náðum að hlaupa. Þetta var góður sigur,“ sagði Janus.

„Maður er kannski ekki með margar mínútur með öllum í hópnum. Þú finnur það alveg. En við bara gerðum þetta vel og erum að breikka hópinn okkar með þessu. Það er frábært að fá fleiri gaura inn í kerfið. Svo erum við að reyna að búa til. Tja, hvað eigum við að kalla það? Eitthvað bara - köllum það eitthvað. Mér fannst við halda áfram að gera það í dag.“

Það kom ekkert á óvart hjá gríska liðinu að mati Janusar. Þá ræddi hann einnig leikinn sem verður á laugardaginn gegn Grikkjum. „Komast heim. Spila fyrir framan okkar fólk og labba í burtu með gott bragð í munninum sko,“ sagði hann að lokum.

Donni: Gott að vera komin til baka

Kristján Örn Kristjánsson var að snúa aftur í liðið eftir 13 mánaða pásu. Hvernig var að koma aftur inn í landsliðið eftir pásu? „Þetta er búið að vera dálítið langt bataferli hjá mér með öxlina. En eins og sást kannski í dag þá er hún orðin fantagóð. Þannig það var bara gott að vera kominn til baka og sýna fólkinu hvað ég get gert.“

Hann ræddi einnig þróun leiksins og það hve margir óreyndir leikmenn voru í hópnum.

„Það vantar rosa marga sem ég hef verið að spila með undanfarið. Þannig það er skiljanlegt að við séum ekki eins samstilltir í leiknum eins og við gætum verið. Mér finnst að við hefðum átt að vinna með 15 í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik erum við að klikka aðeins á hraðaupphlaupum. Það held ég skrifist á að menn séu ekki alveg nógu samstilltir með hvert við ætlum að fara og hlaupa.“

„En heilt yfir sýndum við alveg hversu góðir við erum, þótt það vanti 6, 7, 8, 9, 10 leikmenn. Þá erum við alltaf ógeðslega góðir.“

12. mars 2025 kl. 18:42 – uppfært

Fyrsti leikur Ísaks

Markvörðurinn Ísak Steinsson lék sinn fyrsta landsleik. Hann vaðri 1 bolta af 6. Björgvin Páll varði sjö skot af 26.

Benedikt Gunnar og Andri Már skoruðu sín fyrstu landsliðsmörk.

Mörk Íslands:

Kristján Örn Kristjánsson - 6

Óðinn Þór Ríkharðsson - 6

Þorsteinn Leó Gunnarsson - 4

Elliði Snær Viðarsson - 4

Haukur Þrastarson - 3

Sigvaldi Björn Guðjónsson - 2

Stiven Tobar Valencia - 2

Janus Daði Smárason - 2 (5 stoðsendingar)

Benedikt Gunnar Óskarsson - 1

Andri Már Rúnarsson - 1

Ýmir Örn Gíslason - 1

Orri Freyr Þorkelsson - 1

Einar Þorsteinn Ólafsson var með fjórar stoðsendingar og Arnór Snær Óskarsson tvær.

12. mars 2025 kl. 18:32 – uppfært

Öruggur sigur staðreynd

Ísland vann að lokum níu marka sigur, 25-34. Sigurinn var aldrei í hættu og Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari gat leyft sér að dreifa mínútunum á liðsmenn sína.

Viðtöl birtast hér innan skamms.

12. mars 2025 kl. 18:22

Fimm mínútur eftir

Það er átta marka munur, 22-30, eftir 25 mínútna leik í seinni hálfleik.

12. mars 2025 kl. 18:16

Bræðrabylta

Bræðurnar Benedikt Gunnar Óskarsson og Arnór Snær Óskarsson leika nú saman í útlínu Íslands. Faðir þeirra Óskar Bjarni Óskarsson er á hliðarlínunni. Benedikt og Óskar þekkja höllina í kvöld ágætlega enda æfðu Valsmenn í henni þegar lið vann Evrópubikarinn í handbolta.

Ísland leiðir nú með ellefu mörkum, 18-29, þegar níu mínútur eru eftir. Sigurinn er nú öruggur. Spurningin er hversu stór hann verður.

12. mars 2025 kl. 18:08

Níu marka munur

Staðan er 15-24 eftir 44 mínútna leik.

12. mars 2025 kl. 18:00

Aftur tíu marka munur

Ísland leiðir 13-23 eftir 37 mínútna leik.

12. mars 2025 kl. 17:54

Seinni af stað

Grikkir skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks og staðan er nú 10-19. Fyrrum Valsmennirnir Stiven Tobar Valencia og Benedikt Gunnar Óskarsson komu inn í upphafi seinni hálfleiks.

12. mars 2025 kl. 17:40

Tíu marka munur í hálfleik

Ísland leiðir 9-19 í hálfleik. Liðið hefur leikið vel og er ekki í neinu veseni með Grikkina. Við skulum vona að sama verði uppi á teningnum í seinni hálfleik. Nú er að sjá hvort að Snorri Steinn nýtir tækifærið og leyfi öðrum að spreyta sig.

12. mars 2025 kl. 17:28

Ísland leiðir með níu

Allt gengur upp þessa stundina. Ísland leiðir 7-16 og Grikkir fengu rétt í þessu tveggja mínútna brottvísun fyrir að kasta í andlit Björgvins Páls í markinu. 21:30 stendur á klukkunni.

Það er spurning hvort að Snorri nýti tækifærið og róteri liðinu eitthvað.

12. mars 2025 kl. 17:21 – uppfært

Hraðaupphlaup!

Vörnin er búin að smella og fyrir vikið hafa strákarnir fengið nokkur hraðaupphlaup í röð. Ísland leiðir 6-12 eftir 16 mínútna leik.

12. mars 2025 kl. 17:18

Fjögurra marka munur

Ísland leiðir 5-9 eftir tólf mínútna leik.

12. mars 2025 kl. 17:13

Þriggja marka forskot

Einar Þorsteinn Ólafsson fékk tveggja mínútna brottvísun rétt í þessu.

Ísland leiðir 3-6 eftir níu mínútna leik. Janus Daði skoraði síðast mark Íslands þegar hann stal sendingu Grikkja og geystis upp völlinn.

12. mars 2025 kl. 17:04

Akkiles jafnar

Achilleas Toskas jafnaði metin fyrir Grikki. Haukur Þrastar kom Íslandi svo aftur yfir, 1-2.

12. mars 2025 kl. 17:02

Donni með fyrsta markið

Við leiðum 0-1 eftir mínútu leik. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði fyrsta mark okkar manna.

12. mars 2025 kl. 16:57

Styttist í leik

Það er allt að verða klárt og einungis fimm mínútur í leik.

Sjáum hvað strákarnir okkar okkar gera.

Við leikum í hvítum búning í dag.

12. mars 2025 kl. 16:33

Komin í loftið

Stofan er farin af stað. Kári Kristján Kristjánsson og Logi Geirsson eru ásamt Helgu Margréti Höskuldsdóttur í Stofunni. Einar Örn Jónsson lýsir og Vignir Stefánsson verður honum til halds og trausts sem meðlýsandi.

12. mars 2025 kl. 15:02

Aðstaðan í Grikklandi ekki boðleg

Handboltavefurinn, handbolti.is birti í vikunni athyglisverða frétt þar sem sjá mátti hvernig aðstöðu okkar mönnum er boðið uppá í Grikklandi. Óhætt er að segja að aðstaðan á svæðinu sé ekki upp á marga fiska. Nánar má lesa um málið hér.

Ekki er það fallegt
handbolti.is

12. mars 2025 kl. 13:57

Nítján ára markvörður fær tækifærið

Einn nýliði er í hópnum, markvörðurinn Ísak Steinsson, sem spilar með Drammen í Noregi. Hann er 19 ára gamall og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands sem hann valdi umfram Noreg sem hann hefði mátt spila fyrir.

Móðir Ísaks er ís­lensk, faðir hans norskur og hefur hann alla sína ævi, að undan­skildu hálfu ári, búið í Noregi. Skemmtileg stað­reynd er að afi Ísaks er Sigur­geir Sigurðs­son sem varði mark Ís­lands á sínum tíma. Svo strákurinn á ekki langt að sækja hæfileikana.

Handboltamarkvörðurinn Ísak Steinsson á æfingu með félagsliði sínu Drammen í Noregi
dhk.no / Drammen Håndballklubb

12. mars 2025 kl. 13:52

Hverja vantar í hópinn?

Eins og margoft hefur verið komið inn á eru stór skörð höggvin í íslenska liðið í leiknum í kvöld og flestar fréttir um liðið undanfarna daga hafa verð um hvaða leikmenn eru að hellast úr lestinni. En hvaða leikmenn eru þetta? Hér að neðan má sjá listann yfir þá sem eru frá og það er óhætt að segja að þarna finnist bæði gæði og glæsileiki.

Fjarri góðu gamni

  • Arnar Freyr Arnarsson
  • Aron Pálmarsson
  • Bjarki Már Elísson
  • Elvar Örn Jónsson
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson
  • Ómar Ingi Magnússon
  • Sveinn Jóhannsson
  • Teitur Örn Einarsson
  • Viggó Kristjánsson
  • Viktor Gísli Hallgrímsson

Viktor Gísli Hallgrímsson fyrir leik íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Færeyjum í nóvember 2023.
Mummi Lú

12. mars 2025 kl. 13:44

Kári er brattur en stressaður - „Þetta gæti orðið krefjandi“

Kári Kristján Kristjánsson, sérfræðingur RÚV og fyrrum landsliðsmaður kom í Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun, og hann reiknar með hörkuleik. „Á síðasta stórmóti á töpuði þeir öllum leikunum sínum en eru búnir að spila núna báða undankeppnisleikina og tapa með minnsta mun, á móti Georgíu og Bosníu og við lentum í vandræðum með Bosníu, þannig að þetta er lið sem er alveg spunnið í,“ sagði Kári.

Kári Kristján Kristjánsson sérfræðingur Stofunnar.
RÚV / Ragnar Visage

Verður erfitt að fylla skrað Viktors Gísla

Átta leikmenn sem voru í HM-hópi Íslands í janúar eru fjarverandi auk Ómars Inga Magnússonar og Arnars Freys Arnarssonar sem báðir misstu af HM vegna meiðsla. Kári segir að ungir menn þurfi að grípa gæsina.

„Við erum að missa hálfan gám af leikmönnum frá okkur fyrir þetta verkefni. Einna helst verður erfitt að brúa bilið hjá honum Viktori Gísla sem er búinn að vera gjörsamlega frábær og var æðislegur á síðasta móti þannig að það verður vesen. Annað er að Elvar Örn Jónsson er ekki besti varnarmaðurinn okkar, heldur langbesti varnarmaðurinn okkar og hann er ekki með í dag heldur. Og að byrja á útivelli í þessu verkefni, þetta gæti orðið krefjandi.“

Kári Kristján Kristjánsson og Logi Geirsson takast á um íslenska landsliðið í handbolta í Stofunni eftir leik Íslands og Georgíu í undankeppni EM 2026. 10.11.2024.
RÚV

12. mars 2025 kl. 13:41

Lemstraður hópur en tækifæri fyrir unga menn

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta hefur valið þá 16 leikmenn sem munu taka þátt í leiknum í dag. Stór skörð er hoggin í íslenska liðið og nú síðast var tilkynnt að Aron Pálmrsson sem ferðaðist með liðinu út gæti ekki tekið þátt vegna meiðsla. Átta leikmenn sem voru í HM-hópi Íslands í janúar eru fjarverandi auk Ómars Inga Magnússonar og Arnars Freys Arnarssonar sem báðir misstu af HM vegna meiðsla.

Sigvaldi Björn Guðjónsson í leik Íslands og Eistlands í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Laugardalshöll 5. maí 2024.
Mummi Lú

Hópurinn

Markverðir:
Ísak Steinsson, Dramen (0/0)
Björgvin Páll Gústavsson, Val (281/25)

Aðrir leikmenn:
Andri Rúnarsson, Leipzig (2/0)
Arnór Snær Óskarsson, Kolstad (2/0)
Benedikt Gunnar Óskarss, Kolstad (3/0)
Einar Þorsteinn Ólafsson, Fredericia HK (19/6)
Elliði Snær Viðarsson, Vfl Gummersbach (58/124)
Haukur Þrastarsson, Dinamo Bucaresti (41/56)
Janus Daði Smárason, Pick Szeged (94/164)
Kristján Örn Kristjánsson, Skanderborg (33/61)
Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Schaffhausen (50/147)
Orri Freyr Þorkelsson, Sporting (24/74)
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kolstad (83/225)
Stiven Tobar Valencia, Benfica (18/18)
Þorsteinn Leó Gunnarsson, FC Porto (13/19)
Ýmir Örn Gíslason, Göppingen (100/44)

Aron Pálmarsson, Veszprém (182/694) er utan hóps í dag vegna meiðsla.

12. mars 2025 kl. 13:38

Gleðilegan leikdag

Verið velkomin/n á fréttavaktina. Hér munum við hita upp fyrir leik dagsins en karlalandsliðið í handbolta mætir Grikkjum í undankeppni EM karla í handbolta klukkan 17:00. Þetta er þriðji leikur Íslands í riðlinum, íslenska liðið hefur unnið bæði Bosníu og Gerorgíu og eru því í góðum málum.