Ísland er komið á EM í körfubolta
Ísland endar í öðru sæti
Íslenska liðið í heild sinni spilaði óaðfinnanlega í kvöld. Strákarnir settu strax tóninn og ljóst var að þeir ætluðu að hafa örlögin í sínum eigin höndum. Ísland leiddi mest með 16 stigum í kvöld og stóð öll áhlaup tyrkneska liðsins af sér.
Bláa hafið gerði sitt í Laugardalshöll og það sást að leikmenn nutu sín á parketinu. Ísland fékk framlag úr öllum áttum. Þrátt fyrir að Tyrkir hafi unnið 2. og 4. leikhluta var niðurstaðan aldrei í hættu. Það var eins gott að strákarnir kláruðu sitt því að Ungverjar unnu Ítali og hefðu skotist upp fyrir okkur. En strákarnir ætluðu á sitt þriðja EM.
Ísland endar í öðru sæti gríðarsterks riðils, fyrir ofan Ítalíu og Ungverjaland. Það gefur okkur betri möguleika þegar dregið verður í riðla á mótinu.
Móti verður víðs vegar um Evrópu, nánar tiltekið Kýpur, Finnlandi, Póllandi og Lettlandi. Hvar sem Íslendingar verða niðurkomnir þá verður eflaust stemning. Mótið fer fram 27. ágúst til 14. september og Ísland verður ein af 24 þátttökuþjóðum.
Ísland fór á EM 2015, 2017 og nú 2025. Nú er komið að því að Ísland vinni sinn fyrsta leik á stórmóti. Það gerist í ágúst.
Stig Íslands í kvöld
Martin 23
Tryggvi 13
Elvar 13
Kristinn 9
Ægir 9
Kári 6
Haukur 6
Orri 2
Bjarni 2
Ég þakka fyrir samfylgdina í kvöld. Mikið er gaman að eiga svona frábært körfuboltalið. -JPÁ.
Viðtöl: „Besta stemningin sem hefur verið í Laugardalshöll“
Tryggvi, Haukur, Elvar, Martin og Craig mættu í viðtöl eftir leik.
„Það er partý í kvöld“
Martin Hermannsson var sáttur með gang mála eftir að Ísland tryggði sig inn á EM í körfubolta í kvöld. Hann hrósaði liðinu í heild og segir að áfanganum verði fagnað í kvöld.
„Mér líður frábærlega. Ég væri til í stóla hérna. Ég er að detta niður. En ég er í geðshræringu eftir þvílíkan tilfinningarússíbana síðustu vikuna. Það var lítið sofið. Einhvern veginn smá kvíðahnútur allan daginn, alla daga. Enn þá meira eftir síðustu daga. En þvílíkt spennufall. Þvílíkur karakter. Þvílík liðsheild. Þvílíkir áhorfendur. Við hefðum ekki getað skrifað þetta betur held ég“.
Martin ræddi einnig ákefðina sem íslenska liðið sýndi frá upphafi. „Það skein í gegn hvaða lið var að spila með hjartanu,“ áður en hann hrósaði liðinu í heild. Hann fór einnig yfir meiðsli tengd skónum sínum. „Ég ætla að sleppa því að spila fram að móti,“ sagði hann í gríni.
„Það er partý í kvöld,“ sagði hann að lokum.
Viðtölin við Tryggva, Hauk, Elvar og Craig má sjá hér að neðan.
Tryggvi: „Besta stemningin sem hefur verið í Laugardalshöll“
„Þetta er örugglega besta stemning sem hefur verið í þessari höll síðan ég byrjaði að spila.“
Tryggvi ræddi einnig að Linger með Cranberries er lag liðsins. Af hverju?
Hvernig er að vera Haukur Helgi Pálsson akkúrat núna?
„Þetta er búið að vera brekka síðan að maður kom heim. En þetta dregur annað skrímsli í mann. En ég þakka fyrir að ég setti eitt skot þarna. Það þýddi mjög mikið fyrir mig að setja eitt á þessu „level-i“. Það er búinn að vera smá tími.
Haukur ræddi einnig tilfinningaþrungna stund sem hann átti með fjölskyldu sinni. Pétur í Atlas tók toppstykkið hans aðeins í lag fyrir leik. Þá þakkaði hann einnig konunni sinni fyrir aðstoðina þar sem þau eiga þrjú börn.
Hver töffarinn á fætur öðrum er að setja risaskot
Elvar Már ræddi það hvernig það er að spila með Martini Hermannssyni.
„Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að spila með besta vini sínum. Það gerist ekki betra en það. Að geta verið á þessu sviði, fyrir framan fulla höll og geta komist á EM. Það bara gerist ekki betra.“
Hann ræddi einnig hve vel liðinu leið inni á vellinum. Sigurinn í kvöld var sigur liðsheildarinnar og það kom framlag úr öllum áttum.
Þá kom hann inn á það að stressið var mikið fyrir leik en það leið úr mönnum þegar inn á völlinn var stigið.
Craig í tárum eftir leik
Craig Pedersen landsliðsþjálfari var stoltur af liði sínu eftir að tryggja sig inn á Evrópumót karla í körfubolta. Liðið vann Tyrkland í kvöld og Craig táraðist í lok viðtalsins.
„Þetta hefur verið frábær undankeppni. Auðvitað hafa verið hæðir og lægðir en við höfum alltaf brugðist við,“ sagði hann áður en hann tapaði þræðinum. „Þetta er frábært ferðalag og við hlökkum til ágúst nú þegar,“ sagði hann að lokum.
Var þetta stærsti sigur hans með Ísland?
„Í hvert skipti sem þú vinnur leik sem tryggir þig inn á lokamótið er það stórt. En allir þessir sigrar eru sérstakir, sama hvort það er Ítalía eða Tyrkland. Þetta gefur leikmönnum tækifæri á að fá reynslu gegn toppliðum,“ sagði hann um sigrana í undankeppninni.
„Áhorfendurnir skiptu klárlega máli. Þeir voru fullir af orku allan leikinn.“
Þetta er komið!
Já! Ísland er komið á EM í þriðja sinn. Þetta var aldrei í hættu í kvöld. Alvöru frammistaða hjá strákunum okkar. Leiknum lauk með 83-71 sigri.
Viðtöl koma innan skamms.
Stutt eftir!
Ísland leiðir 81-69 þegar tvær mínútur eru eftir.
Þrettán stig
Ísland leiðir enn og munurinn er þrettán stig, 69-56. Sjö mínútur eru til leiksloka.
Vá! Haukur Helgi
Haukur Helgi átti svakalegt varið skot. Staðan er 69-54 þegar stutt er eftir af þriðja leikhluta.
Sjö stiga munur
Ísland leiðir 56-49 þegar fimm mínútur eru eftir af þriðja leikhluta.
Fyrir áhugasöm leiða Ungverjar enn gegn Ítalíu, 29-33. Þar eru sjö mínútur eftir af þriðja leikhluta.
Þristur og þristur
Forystan er orðin tíu stig eftir að Ísland byrjaði þriðja leikhluta með tveimur þristum. Staðan er 52-42 þegar átta mínútur eru eftir af leikhlutanum.
Myndasyrpa
Mummi Lú er á svæðinu. Hér eru nokkrar myndir af átökunum í fyrri hálfleik.
Frábær fyrri hálfleikur
Ísland leiðir 46-38 þegar mínuta er eftir af fyrri hálfleik. Munurinn var 16 stig en Tyrkir tóku syrpu undir lok hálfleiksins. Óþarfi en dregur þó ekki úr frábærum fyrri hálfleik. Munurinn er því 8 stig, 46-38, þegar liðin ganga til hálfleiks.
Ungverjar leiða 33-27 rétt fyrir hálfleik gegn Ítalíu. Við verðum bara að treysta á okkur sjálfa.
Martin og Tryggvi!
Vá. Svakaleg hreyfing hjá Martin sem sendir boltann bak við bak og í hrammana á Tryggva. Tryggvi var ekkert að tvínóna við hlutina og tróð. Ísland leiðir með 16 stigum, 41-25, þegar tvær mínútur eru eftir af öðrum leikhluta.
Tyrkir vita ekki sitt rjúkandi ráð
Ísland leiðir með 16 stigum, 38-22, og Tyrkir taka annað leikhlé. Þeir eru niðurlútir og virðast ekki ráða við Tryggva undir körfunni. Hann er kominn með 11 stig, 7 fráköst og þrjú varin skot. Það eru fjórar mínútur eftir af öðrum leikhluta.
Góð byrjun heldur áfram
„Þeir hafa líklega ekki séð svona norðlenskan sveitadurg áður líklega. Hann er aðeins öðruvísi, aðeins meira,“ segir Gunnar Birgisson um Tryggva Snæ sem treður og treður auk þess að verja íslensku körfuna eins og herforingi.
Ísland leiðir með tíu stigum, 32-20.
10 stiga munur eftir fyrsta leikhluta
Ísland hefur byrjað leikinn vel. Staðan er 26-16 eftir fyrsta leikhlutan og vel heyrist í bláa hafinu í stúkunni.
Martin er kominn með 10 stig þá þegar. Hann er með 80% skotnýtingu hingað til. Megi það halda áfram svo lengi sem leikur lifir.
Þristur eftir þrist
Íslenska sóknin er að flæða vel og munurinn er nú sjö stig eftir að Tyrkir náðu að minnka muninn í fjögur stig.
Staðan er 21-14 þegar skammt er eftir af fyrsta leikhluta. Martin hefur sett nokkra þrista og Kristinn Pálsson var rétt í þessu að setja annan.
Tyrkir með áhlaup
Tyrkir breyttu til í liðsuppstillingu sinni og það hefur borið ávöxt. Staðan er nú 16-12 þegar tvær mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta.
Tryggvi Snær varði rétt í þessu skot Tyrkja. Hann er kominn með tvær villur og má ekki við fleirum svona snemma leiks.
Martin kveikir í húsinu
Frábær byrjun hjá íslenska liðinu! Martin setti þriggja stiga körfu eftir takta frá Elvari. Staðan er 14-4 þegar fimm mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta. Tyrkir hafa séð nóg og taka leikhlé.
Strákarnir eru að setja tóninn hérna í upphafi.
Bóndinn er mættur til starfa
Tryggvi Snær Hlinason bauð þarna upp á risatroðslu yfir tyrkneskan varnarmann. „Bóndinn er mættur til starfa“ segir Matthías Orri Sigurðarson sem lýsir ásamt Gunnari Birgissyni.
Staðan er 11-4 þegar fimm mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta.
Gífurlegur hraði í byrjun
Leikurinn er farinn af stað. Staðan er 4-4 eftir tveggja mínútna leik.
Craig fyrir leik: Ungu leikmennir Tyrkja hættulegir
Craig Pedersen landsliðsþjálfari segir að leikur kvöldsins verði erfiður. Þrátt fyrir að skörð séu hoggin í tyrkneska liðið í kvöld telur hann að ungir leikmenn liðsins muni gefa allt til að sanna sig í kvöld.
Þá ræddi hann fjarveru Jóns Axels Guðmundssonar vegna meiðsla. Auk þess kom hann inn á ákefðarstigið sem þarf að vera til staðar hjá Íslandi í kvöld.
Viðtalið má sjá hér að neðan en hann ræddi við Gunnar Birgisson rétt fyrir leik.
Stofan farin í loftið
Það styttist í að þessi veisla hefjist. Helga, Benni og Logi eru farin af stað á RÚV 2. Útsendingin færist yfir á RÚV klukkan 19:20. Fréttir hefjast klukkan 19:00 á RÚV.
Erum að spila upp á þriðja skiptið
Ísland hefur í tvígang farið á Eurobasket, Evrópumótið í körfubolta. Liðið komst þangað árin 2015 og 2017.
Craig Pedersen var þjálfari liðsins í bæði skiptin og Martin Hermannsson, Ægir Þór Steinarsson, Elvar Már Friðriksson, Haukur Helgi Pálsson og Tryggvi Snær Hlinason voru allir í liðinu 2017. Arnar Guðjónsson var aðstoðarþjálfari 2017 og er afreksstjóri KKÍ og liðinu til halds og trausts.
Martin, Haukur og Ægir voru í liðinu 2015 og 2017.
Við skulum vona að allt fari á besta veg í kvöld og stemningin verði rafmögnuð í höllinni.
Svona var stemningin síðast þegar Ísland tryggði sig á mótið. Ef myndbandið sést ekki má sjá það með því að ýta á slóðina hér.
Martin vill opna kampavín eftir leik
Martin Hermannsson sneri aftur í liðið fyrir þennan landsliðsglugga. Hann var með 25 stig, þrjú fráköst og eina stoðsendingu á 29 mínútum. Hann hitti af 8 af 9 skotum sínum utan af velli, þar af 4 af 5 þristum.
Martin segir að íslenska liðið ætli að rífa sig upp eftir svekkelsistap gegn Ungverjum. Planið er að opna kampavín í klefa eftir leik.
„Við förum bara Krýsuvíkurleiðina. Það er enn þá skemmtilegra að tryggja þetta fyrir framan fulla höll. Við sýndum það í fyrsta glugganum að við getum unnið Tyrki. Það væri ógeðslega sætt að vinna á sunnudaginn fyrir framan fulla höll og opna kampavín inni í klefa,“ sagði Martin að lokum.
Martin ræddi nýverið við Almarr Ormarsson um lífið í Berlín, Tryggva Snæ Hlinason og allt milli himins og jarðar. Viðtalið má sjá hér að neðan.
Hvernig verður þetta?
Stofan hefst klukkan 19:00 á RÚV 2. Klukkan 19:20, tíu mínútur í leik, verður útsendingin færð yfir á RÚV. Útsendingin sjálf hefst 19:30 og Stofan verður að leik loknum klukkan 21:15.
Fréttir verða sýndar klukkan 19:00.
Helga Margrét Höskuldsdóttir sér um Stofuna með Benedikt Guðmundsson og Loga Gunnarsson sér til aðstoðar. Gunnar Birgisson lýsir ásamt Matthíasi Orra Sigurðarsyni.
Ísland hefur aldrei unnið Tyrki
Ísland hefur þrisvar mætt Tyrkjum og tapað í öll skiptin. Liðin mættust á lokamóti Eurobasket 2015 og Tyrkland vann 111-102.
Þá mættust liðin í undankeppni Ólympíumótsins árið 2013 og Tyrkir unnu 99-72.
Það er þó síðasti leikur liðanna sem gefur góð fyrirheit. Ísland var grátlega nálægt glæstum sigri en tapaði að lokum 76-75 í febrúar 2024.
Ísland leiddi um stund í fyrsta og öðrum leikhluta en Tyrkir náðu mest ellefu stiga forskoti. Ísland var nærri endurkomu í fjórða leikhluta en Tyrkir héldu að lokum út fyrir framan 13.300 heimamenn.
Hversu sterkir eru Tyrkir?
Það getur oft reynst erfitt að meta styrkleika andstæðinga Íslands í körfubolta. Í undankeppni vantar iðulega NBA-leikmenn landsliðanna, en hins vegar er um að ræða vel mönnuð lið.
Flestir í tyrkneska liðinu leika heima fyrir en þeir Onuralp Bitim og Erten Gazi spila í Þýskalandi og Ítalíu.
Erten Gazi var eitt sinn á mála hjá Chicago Bulls. Furkan Korkmaz hefur leikið með Philadelphia 76ers.
Lið Tyrklands
Yigit Arslan - Beşiktaş Emlakjet
Onuralp Bitim - Bayern Munchen (Þýskaland)
Erten Gazi - Dinamo Sassari (Ítalía)
Furkan Haltali - Bahçeşehir Koleji
Sehmus Hazer - Bahçeşehir Koleji
Sadik Emir Kabaca - Galatasaray
Furkan Korkmaz - Bahçeşehir Koleji
Sarper David Mutaf - Bursaspor
Ercan Osmani - Anadolu Efes
Kenan Sipahi - Bahçeşehir Koleji
Emre Tunca - Turk Telekom
Muhsin Yasar - Karşıyaka Basket
Uppselt í Laugardalshöll
Það er ljóst að það er mikil spenna fyrir leiknum. Fyrr í vikunni tilkynnti KKÍ að uppselt væri á leikinn og því ljóst að yfir 2.000 manns munu mynda bláa hafið í Laugardalshöll.
Við þurfum á öllum að halda til að styðja strákana okkar til sigurs.
Liðið hefur nýtt höllina ágætlega hingað til. Ísland vann Ungverjaland hér heima í miklu stemningsleik. Sá sigur var stór áfangi til að koma liðinu í þá stöðu sem það er nú í. Ísland lék heima og heiman gegn Ítalíu. Eftir sterka byrjun hér heima fór að halla undan fæti og Ítalir unnu að lokum öruggan sigur.
Ísland náði góðri frammistöðu gegn Tyrkjum ytra en tapaði að lokum. Strákarnir þurfa að eiga afbragðs leik til að vinna í kvöld. Ef illa fer þarf að treysta á Ítali sem hafa nú þegar tryggt sæti sitt. Ungverjar munu selja sig ansi dýrt. Þeirra eina leið inn á EM er að vinna Ítali og að við töpum.
Staðan í riðlinum
- Ítalía - 4 sigrar - 1 tap
- Tyrkland - 3 sigrar - 2 töp
- Ísland - 2 sigrar - 3 töp
- Ungverjaland 1 sigur - 4 töp
Ein breyting á hópnum
Kári Jónsson kemur inn í hóp karlalandsliðsins í körfubolta fyrir leikinn. Jón Axel Guðmundsson meiddist í síðasta leik gegn Ungverjum og hefur því leikstjórnandinn Kári verið kallaður inn. Kári leikur með Val og hefur leikið í undankeppninni, en var ekki í hópnum að þessu sinni.
Hvernig kemst Ísland á EM?
Ísland getur í kvöld tryggt sig inn á EM í þriðja skiptið með sigri gegn Tyrklandi. Liðið er í fjögurra liða riðli með Ítalíu, Tyrklandi og Ungverjalandi.
Ef að Ísland tapar í kvöld er til vara hægt að treysta á að Ungverjar vinni ekki Ítalíu.
Ítalía og Tyrkland eru nú þegar komin inn á mótið.