15. desember 2024 kl. 12:30
Íþróttir
Sund

Luku keppni á HM með því að slá átta ára gamalt Ís­lands­met

Íslenskt sundfólk lauk í morgun keppni á HM í 25 metra laug í Búdapest með fimmta Íslandsmeti mótsins. Boðsundsveit Íslands í 4x100 metra fjórsundi karla bætti átta ára gamalt met um rúmar 5 sekúndur þegar hún synti á 3:33,68 mínútum. Sveitin varð í 23. sæti en hana skipuðu Guðmundur Leó Rafnsson, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr Hálfdánarson og Símon Elías Statkevicius.

Boðsundsveit Íslands
Boðsundsveit Íslands í Búdapest.Sundsamband Íslands

Þá synti Snæfríður Sól Jórunnardóttir 200 metra skriðsund á 1:55,48 mínútum sem er rúmri sekúndu frá Íslandsmeti hennar. Hún varð í 14. sæti og komst ekki í úrslit. Guðmundur Leó Rafnsson keppti einnig í 200 metra baksundi og varð í 25. sæti, á 1 mínútu og 55,27 sekúndum.