„Ég ætlaði að fara á Ólympíumótið en ég átti ekki von á þessu“
Róbert Ísak Jónsson var í dag valinn Íþróttamaður ársins við hátíðlega athöfn hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Þetta er í þriðja sinn sem Róbert hlýtur nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá ÍF, hann var einnig kjörinn 2018 og 2021.
Spurður út í hápunkta segir Róbert: „Að fara út á Paralympics, að synda þar, hitta vini mína og keppa.“
Róbert setti þrjú Íslandsmet í sundi árið 2024 í flokki S14, tvö á Paralympics í París í 100 metra flugsundi og það þriðja í 50 metra bringusundi á Norðurlandamóti. Það met var ekki einungis Íslandsmet heldur Norðurlanda- og Evrópumet í hans flokki.
Róbert keppti á þremur stórmótum árið 2024, Norðurlandamóti, Evrópumeistaramóti og Paralympics og stefnir á Ólympíumót fatlaðra í Los Angeles 2028.
„Æfið íþróttir, hvaða íþrótt sem er,“ segir Róbert Ísak að lokum.