Athugið að þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul

Ísland gengur með höfuðið hátt af EM

  • Ísland er úr leik á EM eftir tap í úrslitaleik gegn Þýskalandi, 19-30. Ísland hóf leikinn afar vel en tveir markalausir kaflar í sitt hvorum hálfleiknum gerðu það að verkum að á brattann var að sækja í kvöld.
  • Liðið sýndi flotta spretti á móti. Ísland vann sinn fyrsta leik í sögu sinni á EM gegn Úkraínu. Þá tapaði liðið naumlega gegn sterku liði Hollands í fyrsta leik.
  • Hér fylgdumst við með öllu því helsta. Hér að neðan má sjá helstu tilþrif, viðtöl og helstu atvik.

Jóhann Páll Ástvaldsson, Óðinn Svan Óðinsson og Almarr Ormarsson

,
3. desember 2024 kl. 21:54 – uppfært

Svona var leikurinn

Hér má sjá helstu tilþrif og atvik leiksins.

Við segjum þessari fréttavakt lokið. Þetta mót var veisla - að minnsta kosti hjá stelpunum okkar. Það er hins vegar nóg eftir og við keyrum á milliriðlana. Ná stelpurnar hans Þóris að gefa honum EM titil í kveðjugjöf? - JPÁ

3. desember 2024 kl. 21:47 – uppfært

Steinunn og Perla stoltar

Steinunn Björnsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir og Arnar Pétursson mættu í viðtal eftir leik.

Perla Ruth var markahæst Íslendinga á EM. Hún segir að Ísland verði fastagestur á stórmótum framtíðarinnar

„Vá. Við eigum klárlega að halda áfram á þessari braut. Við erum að fara að gera það. Við erum búnar að taka risastórt skref - bara frá því fyrir ári, á síðasta stórmóti.“

Steinunn segir að hún og liðið gangi með höfuðið hætt eftir hennar fyrsta stórmót.

„Ég viðurkenni að ég er pínu tóm. Þetta var erfiður leikur og við ætluðum okkur stærri hluti en þetta. Við vorum að tapa á móti mjög sterkri þjóð. Að sama skapi er ég mjög ánægð með árangurinn hjá liðinu á þessu móti. Við getum ekki annað en borið höfuðið hátt,“ sagði Steinunn eftir leik.

Arnar Pétursson er stoltur af liðinu eftir ágætis frammistöður í sterkum riðli. Sigur gegn Úkraínu stendur upp. Arnar talar um að mótið hafi verið hápunktur á fjögurra ára vegferð liðsins. Ísland hafði upplifað þórmótaþurrð í ellefu ár.

Elín Rósa Magnúsdóttir var atkvæðamikil í leiknum og skoraði fjögur mörk. Hún talaði um það hve erfið þýska vörnin var viðureignar.

3. desember 2024 kl. 21:12 – uppfært

Umfjöllun: Framtíðin er björt - desember er tíminn

Ísland gengur með höfuðið hátt að EM eftir tap gegn sterku liði Þýskalands í kvöld. Ísland endar í þriðja sæti í riðlinum. Eftir mótið stendur fyrsti sigur liðsins í sögunni á EM upp úr. Hann kom gegn Úkraínu og var í áttunda tilraun yfir þrjú mót. Þá var frammistaðan í fyrsta leiknum gegn Hollandi afar góð. Sá leikur tapaðist með tveimur mörkum og Hollendingar munu fara langt á EM. Riðillinn var fyrir fram afar sterkur - Holland og Þýskaland fara áfram í milliriðil.

Ísland hóf leikinn af miklum krafti og Thea skoraði fyrsta mark leiksins. Staðan var 5-5 eftir tíu mínútur. Hafdís var í gír í upphafi leiks og varði dauðafæri eftir dauðafæri. Hún byrjaði leikinn í dag en Elín Jóna hafði byrjað fyrstu tvo leikina og leikið afar vel. Markvarðateymi Íslands var gulls ígildi á mótinu.

Úr leik Íslands gegn Þýskalandi á EM kvenna í handbolta 2024
Steinunn Björnsdóttir í eldlínunni.EHF

Markaþurrð í báðum hálfleikjum

Sóknarleikurinn var örlítið höktandi sem var synd því vörnin og markvarslan var með besta móti. Skref, tvígrip og tvenn dauðafæri fóru forgörðum. Ekkert mark kom í tólf mínútur á þessum kafla. Þýskaland náði fjögurra marka forskoti, 5-9, þegar sautján mínútur voru liðnar.

Þýskaland lék framliggjandi og árásgjarna vörn sem Ísland átti í erfiðleikum með. Perla Ruth kom Íslandi aftur á beinu brautina er hún skoraði sjötta mark Íslands. Íslensku stelpurnar eru ekki dauðar úr öllum æðum. Elín Rósa hefur brotið sér leið í gegn í tvígang og komið með kraft í liðið. Nú er munurinn einungis þrjú mörk.

Úr leik Íslands gegn Þýskalandi á EM kvenna í handbolta 2024
Elín Klara mætir þýsku vörninni.EHF

Staðan var 8-12 og 24 mínútur voru liðnar. Það var í raun rannsóknarefni að Ísland sé inni í leiknum þrátt fyrir að hafa ekki skorað í heilar tólf mínútur. Þýskaland var með fjögurra marka forystu, 10-14, í hálfleik. Ísland fékk gullið tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk en skot Þóreyjar Rósu geigaði.

Leikurinn spilaðist í raun áfram með svipuðum hætti í seinni hálfleik. Þýska vörnin stóð vaktina vel og Ísland þurfti að hafa fyrir því að skapa færi. Ísland fór í gegnum annan ellefu mínútna kafla þar sem ekkert mark leit dagsins ljós.

Úr leik Íslands gegn Þýskalandi á EM kvenna í handbolta 2024
Stelpurnar í þjóðsöngnum.EHF

Ísland var með um 800 sendingar gegn 600 þýskum sendingum þegar skammt var eftir. Það segir sína sögu. Stelpurnar okkar stimpluðu fram og til baka í leit að opnunum á þýsku vörninni en þar var engar glufur að finna. Svo þegar íslenska sóknin fjaraði út þá geystust þær þýsku fram í hraðaupphlaup.

Að lokum reyndist Þýskaland hreinlega of stór biti og lokamunurinn varð ellefu mörk.

Perla Ruth Albertsdóttir varð aftur markahæst hjá Íslendingum, líkt og í fyrstu tveimur leikjunum. Perla var með sex mörk í kvöld og 21 mark á mótinu.

Önnur mörk

Elín Rósa - 4 mörk
Elín Klara - 3 mörk
Þórey Rósa - 2 mörk
Andrea - 1 mark
Steinunn - 1 mark
Thea - 1 mark

Hafdís hóf leikinn afar vel og lauk svo leik með sjö vörslur af 26, sem er markvarsla upp á 27%.

Framtíðin er björt - desember er tíminn

Meginþorri íslenska liðsins er ungur og Arnar Pétursson er með liðið á sínu öðru stórmóti í röð. Arnar náði að dreyfa spiltímanum vel á milli liðsins og stelpurnar náðu í ómetanlegar mínútur í reynslubankann.

Eftir stórmótaþurrð í ellefu ár setti Ísland sér markmið að komast aftur inn á stórmót. BÞað gekk í fyrra er Ísland fékk boðssæti. Svo gekk það aftur í ár þegar liðið tryggði sæti sitt meðal þeirra bestu. Nú er þetta eitthvað sem við Íslendingar getum vanist aftur - að stelpurnar okkar eigi sviðið í desember. Framtíðin er björt.

3. desember 2024 kl. 21:00 – uppfært

Leiknum lokið!

Leiknum lauk með ellefu marka sigri Þýskalands, 19-30. Jóhanna Margrét lék sinn fyrsta stórmótsleik í dag og skoraði sitt fyrsta mark á stórmóti undir lokin. Dómarateymið mat það hins vegar sem svo að tíminn hefði verið runninn út.

Hér koma viðtöl og umfjöllun innan skamms.

Vegferð Íslands á EM í ár er lokið.

3. desember 2024 kl. 20:46

Útlitið orðið svart

Munurinn stendur í sjö mörkum þegar 50 mínútur eru liðnar. Nú þarf hreinlega hver einasta hreyfing það sem eftir er að verða fullkomin.

3. desember 2024 kl. 20:41 – uppfært

Markaþurrð aftur að fara með Ísland

Ísland tók 11 mínútna kafla þar sem liðið skoraði ekki, líkt og gerðist í fyrri hálfleik.

Munurinn er fimm mörk, 14-19, þegar 46 mínútur eru liðnar.

Elín Rósa og Perla Ruth eru markahæstar með fjögur mörk hvor.

3. desember 2024 kl. 20:34

Munurinn orðinn sjö mörk

Þýskaland heldur áfram að gefa í og staðan er orðin 11-18 eftir 41 mínútna leik.

3. desember 2024 kl. 20:24

Enn fjögurra marka munur

Staðan er 11-15 fyrir Þjóðverjum eftir 33 mínútna leik.

Það eru möguleikar í stöðunni - við þurfum að grípa þá með báðum höndum.

3. desember 2024 kl. 20:09

Flautað til hálfleiks

Þjóðverjar skoruðu lokamark hálfleiksins með glæsilegri vippu og leiða með fjórum mörkum, 10-14, í hálfleik.

Ísland hefði getað minnkað muninn í tvö mörk í sókninni rétt áður. Eftir mikla markaþurrð í fyrri hálfleik, þar sem Ísland skoraði ekki í heilar tólf mínútur, er í raun afrek að munurinn sé bara fjögur mörk.

Það getur allt gerst í þessu! Ísland var átta mörkum undir gegn Þýskalandi á HM 2011 en vann að lokum 26-20. Það getur allt gerst í þessu - miðinn í milliriðla er enn mögulegur.

3. desember 2024 kl. 20:05

Þetta er að koma!

Ísland er búið að skora tvö mörk í röð. Elín Klara og svo Perla Ruth voru þar að verki.

Staðan er 10-13 undir lok fyrri hálfleiks. Þórey Rósa fékk gullið tækifæri til að minnka muninn enn frekar en skot hennar geigaði.

3. desember 2024 kl. 20:03

Fimm marka munur

Staðan er 8-13 þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrri hálfleik. Við þurfum að ná að minnka muninn um 1-2 mörk fyrir hálfleik. Þá getur allt gerst.

Jafntefli dugar Íslandi ekki til að fara áfram í milliriðil þar sem Þýskaland er með +6 í markatölu en Ísland +1þ

3. desember 2024 kl. 20:00

Vonin lifir!

Íslensku stelpurnar eru ekki dauðar úr öllum æðum. Elín Rósa hefur brotið sér leið í gegn í tvígang og komið með kraft í liðið. Nú er munurinn einungis þrjú mörk. Staðan er 8-12 og 24 mínútur liðnar.

Það er í raun rannsóknarefni að Ísland sé inni í leiknum þrátt fyrir að hafa ekki skorað í heilar tólf mínútur.

Koma svo!

3. desember 2024 kl. 19:54

Þýskaland skorar og skorar

Eftir þessa frábæra byrjun hefur Ísland ekki skorað í ellefu mínútur. Þjóðverjar leiða nú með fimm mörkum, 5-10, þegar átján mínútur eru liðnar.

Við þurfum að finna svörin sóknarlega! Ísland er með sex tæknifeila gegn tveimur hjá Þjóðverjum.

3. desember 2024 kl. 19:49

Hafdís í gír

Hafdís ver og ver í markinu en hún fékk tækifærið í byrjunarliðinu í stað Elínar Jónu.

Markvarslan og vörnin hafa verið að standa vaktina vel en sóknarleikurinn hefur verið höktandi síðustu mínútur.

Staðan er 5-7 eftir fimmtán mínútna leik. Arnar Pétursson tók leikhlé og reyndi að hrista upp í hlutunum.

Steinunn Björnsdóttir fékk rétt í þessu tveggja mínútna brottvísun.

3. desember 2024 kl. 19:40

Ísland fer vel af stað!

Staðan er 5-4 eftir fyrstu átta mínúturnar. Thea skoraði fyrsta mark leiksins. Byrjunin er frábær - koma svo!

3. desember 2024 kl. 19:20

Holland fór illa með Úkraínu

Hollendingar tryggðu sér efsta sætið í riðli Íslands með tuttugu marka sigri á Úkraínu, 43-23. Sigurinn var aldrei í hættu. Fyrir leik var ljóst að Holland færi áfram í milliriðil og að Úkraína ætti ekki möguleika á að halda áfram keppni.

Nú er að sjá hvaða lið fylgir Hollandi í milliriðilinn - Þýskaland eða Ísland. Það skýrist eftir örskamma stund. Liðin eru að ganga inn á völlinn. Þetta verður veisla sama hvernig fer. Að vissu leyti er það afrek að vera í þessari stöðu.

Stelpurnar munu skilja allt eftir á vellinum næstu 60 mínútur. Áfram Ísland!

3. desember 2024 kl. 18:27

Elísa er veik - horfir á leik­inn uppi á hóteli

Línumaðurinn Elísa Elíasdóttir er veik og tekur því ekki þátt í leiknum gegn Þýskalandi. Fyrr í dag var ljóst að Katrín Tinna Jensdóttir kæmi inn í hópinn í stað hennar. Nú er komin skýring á fjarveru Elísu.

Elísa Elíasdóttir vígaleg fyrir landsleik í handbolta.
Elísa.Mummi Lú

Elísa mun horfa á leikinn frá liðshóteli Íslands.

Arnar Pétursson hafði einnig ákveðið að setja skyttuna Jóhönnu Margréti Sigurðardóttur inn í hópinn í stað Katrínar Önnu Ásmunsdóttir. Jóhanna er skytta en Katrín hornamaður.

Katrín Tinna og Jóhanna Margrét höfðu verið utan hóps í báðum leikjum Íslands hingað til.

3. desember 2024 kl. 18:06

„Þurfum að vera klárar að taka á móti þeim“

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari er sannfærður um að íslenska liðið munu eiga góðan leik í kvöld. Hann segir hins vegar ljóst að ætli Ísland sér að vinna leikinn þurfi leikur okkar Íslands að vera fullkominn.

„Við auðvitað þurfum að fókusera á okkur og okkar leik. Þær keyra af miklum þunga og eru grimmar í fyrstu, annari og þriðju bylgju, þannig að við þurfum að komast í okkar stöður og vera klárar að taka á móti þeim.“ segir Arnar.

3. desember 2024 kl. 17:57

Tvær á móti einum - nýtt hlaðvarp

HSÍ hefur rætt við stelpurnar okkar á persónulegu nótunum í hlaðvarpinu Tvær á móti einum: Landsliðið okkar. Í síðasta þætti var rætt við herbergisfélagana Andreu Jacobsen og Perlu Ruth Albertsdóttur.

Þáttinn má nálgast hér á Spotify slóð. Einnig má finna hann á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Þið finnið hlaðvarp HSÍ með því að leita að Landsliðin okkar.

Viðtöl síðustu daga

Sunna Jónsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir

Elín Rósa Magnúsdóttir og Thea Imani Sturludóttir

Berglin Þorsteinsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir

Dana Björg Guðmundsdóttir og Elín Klara Þorkelsdóttir

Díana Dögg Magnúsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir

Perla ræddi aðeins hvað þær Andreu bralla upp á hótelherbergi í viðtali við íþróttadeild nýverið.

Helför og kjarnorkuslys uppi á herbergi

Stórmót í handbolta fara að miklu leyti í hótellífið, svona á milli leikja.

„Þetta er bara algjör lúxus sem við lifum við. Maður þarf ekki að elda eða ganga frá eftir sig sjálfur.“
  • Herbergisfélagi: Andrea Jacobsen
  • Hvað eru þær að horfa á? Auschwitz og Chernobyl

„Sambúðin gengur vel. Með hverjum deginum verðum við alltaf meira eins og systur. Við erum mjög nánar vinkonur en við erum alltaf að færast meira og meira í systrapakkann. Við erum farnar að kítast,“ sagði Perla um sambúðina.

3. desember 2024 kl. 17:02

EHF ber saman Elínu og Alínu

Evrópska handboltasambandið, EHF, heldur utan um tölfræði mótsins og birtir reglur áhugaverða mola á X-síðu sinni. Í dag beina þeir spjótum sínum meðal annars að leik Íslands og Þýskalands og bera saman tvo frábæra leikmenn, Elínu Klöru Þorkelsdóttur og Alinu Grijseels. Eins og sjá má hafa þær báðar leikið vel á mótinu en Elín er með betri skotnýtingu á meðan Alina er með fleiri mörk.

3. desember 2024 kl. 16:52

Milliriðlarnir klárir eftir kvöldið

Milliriðlarnir á EM kvenna í handbolta eru farnir að skýrast. Eftir leiki kvöldsins verður endanlega ljóst hvaða lið fara áfram en

Frakkland, Svíþjóð, Pólland og Ungverjaland eru komin í milliriðil I. Enn á eftir að skera úr um hvaða lið fara upp úr B riðli en þar geta Svartfjallaland, Tékkland og Rúmenía farið upp úr riðlinum. Serbía mætir Rúmeníu klukkan 18:00 og Tékkland mætir Svartfjallalandi klukkan 20:30.

Norway's Henny Ella Reistad hugs Stine Bredal Oftedal during the IHF Women's World Handball Championship quarter-final match between the Netherlands and Norway, in Trondheim, Norway, 12 December 2023.
Ísland mætir norska liðinu ef liðið fer áfram í milliriðil.EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Í milliriðli II eru Noregur, Danmörk, Holland og Slóvenía komin áfram. Ísland fer í þann riðil ef liðið fer áfram.

Úrslitin ráðast einnig í riðli okkar Íslendinga í kvöld. Holland er komið áfram en Ísland og Þýskaland leika úrslitaleik sem hefst klukkan 19:30 í kvöld.

Þá leik Færeyjar og Danmörk í kvöld og heimakonur í Sviss mæta Króatíu. Þar er annað sætið í riðlinum galopið

B riðill

  1. Svartfjallaland - 4 stig
  2. Tékkland - 2 stig
  3. Rúmenía - 2 stig
  4. Serbía - án stiga

D riðill

  1. Danmörk - 4 stig
  2. Sviss - 2 stig
  3. Færeyjar - 1 stig
  4. Króatía 1 stig

Riðill Íslands

  1. Holland - 4 stig
  2. Þýskaland - 2 stig
  3. Ísland - 2 stig (fimm mörkum verri markatala en Þýskaland)
  4. Úkraína - 0 stig
3. desember 2024 kl. 16:44 – uppfært

Þýska liðið er sannarlega ekki ósigrandi

Þýskaland er með gott lið og er fastagestur á stórmótum. Með góðum leik getur íslenska liðið hins vegar alveg unnið hið þýska. Það gerðist til dæmis á HM 2011 þar sem Ísland vann 26-20.

Þýskaland hefur einu sinni orðið heimsmeistari en það er nokkuð síðan; árið 1993. HM bronsverðlaunin eru þrenn; 1965 (sem Vestur-Þýskaland), 1997 og 2007.

Besti árangur liðsins á EM kom 1994 þegar það tapaði fyrir Danmörku í úrslitum og fékk silfur. Undanfarin stórmót hefur liðið þó verið nokkuð frá verðlaunasæti.

Þýskaland tapaði nokkuð stórt fyrir Hollandi í síðustu umferð, 29-22, en er þó með betri markatölu en Ísland þökk sé stórsigri gegn Úkraínu, 30-17, og dugar því jafntefli í kvöld.

Þessi úrslit liðsins sýna kannski stöðuna á því gagnvart því íslenska; Ísland stóð betur í Hollandi heldur en Þjóðverjar. Að sama skapi sýndu þær þýsku gæðin gegn Úkraínu og Ísland þarf að eiga sinn besta leik til þess að eiga möguleika í kvöld.

epa11027119 Alina Grijseels of Germany celebrates a goal during the IHF Women's World Handball Championship quarter-final match Sweden vs Germany in Herning, Denmark, 13 December 2023.  EPA-EFE/Bo Amstrup  DENMARK OUT
Alina GrijseelsEPA-EFE / Bo Amstrup

3. desember 2024 kl. 16:40

Það voru að koma skilaboð!

Hafdís Renötudóttir, markvörður Íslands sendir hér einföld og skýr skilaboð til þjóðarinnar. Leikurinn hefst 19:30 og verður í beinni útsendingu á RÚV.Stofan hitar upp frá 18:55 á RÚV 2. Vertu með!

3. desember 2024 kl. 16:16

Létt yfir okkar konum

Þrátt fyrir að nú sé skammt stórra högga á milli hjá íslenska liðinu má aldrei tapa gleðinni. Það fengum við svo sannarlega að sjá þegar við skelltum stelpunum í hraðaspurningar. Sjón er sögu ríkari!

3. desember 2024 kl. 16:10

Leikurinn í öruggum bosnískum höndum

Þriðja liðið í leiknum í kvöld kemur frá Bosníu-Hersegóvínu en þær stöllur, Tatjana Prastalo and Vesna Balvan dæma leikinn í kvöld.

Þær Tatjana og Vesna eru svo sannarlega engir nýgræðingar í sínu fagi en þær dæmt saman í mörg ár. Þær dæmdu til að mynda bronsleikinn á síðasta Evrópumóti en þar mættust Frakkland og Svartfjallaland. Þá fengu þær það verkefni að dæma úrslitaleikinn í meistaradeild Evrópu, vorið 2023.

Tatjana Prastalo and Vesna Balvan hita upp
Tatjana Prastalo and Vesna BalvanFacebook

3. desember 2024 kl. 15:51

Perla Ruth hefur átt stuttan en ótrúlegn feril

Perla Ruth Albertsdóttir er engin venjuleg landsliðskona í handbolta. Perla snerti handbolta í fyrsta sinn þegar leið hennar lá á Selfoss sautján ára gömul.

Hún er ein af þrettán systkinum - elst fyrir sumum þeirra en sú fjórða elsta fyrir öðrum. Leið hennar í A-landsliðið var ákveðin krókaleið þar sem hún sat á hnjánum heilar kvöldstundir í tómum skóla og kastaði handbolta í vegg, alveg þangað til hún var tilbúin fyrir stóra sviðið. Þorkell Gunnar settist niður með Perlu í Austurríki.

3. desember 2024 kl. 15:29

Nú er komið að því að skrifa söguna!

Í kvöld getur íslenska kvennalandsliðið í handbolta skrifað sig í sögubækurnar, takist því að vinna Þýskaland í hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðlum. Ísland er á sínu þriðja Evrópumóti, 2010 og 2012 komust þrjú lið af fjórum upp úr hverjum riðli en íslenska liðið tapaði öllum leikjum sínum og sat eftir í bæði skiptin.

3. desember 2024 kl. 15:20

Dana talar íslensku

Hornamaðurinn knái Dana Björg Guðmundsdóttir er í sérstakri stöðu á mótinu. Dana er fædd og uppalin í Noregi en á íslenska foreldra. Hún er því ansi sleip í íslenskunni en þurfti aðeins að rifja hana upp í upphafi móts.

Dana spilaði sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland fyrr á árinu og er nú komin á EM með liðinu. Hún segist ánægð með valið og að landsliðsfélagarnir hafi tekið vel á móti sér.

Hún spilaði nokkuð mikið í seinni hálfleik í sigrinum gegn Úkraínu í gær: „Ég var aðeins spennt og þetta var smá scary. En það var skemmtilegt að vera þarna og fá að gera eitthvað, ekki bara að sitja á bekknum og klappa.“

„Ég þekkti bara Katrínu Tinnu [Jensdóttur], við vorum búnar að spila eitt ár í Volda. Mér finnst ég vera búin að kynnast hinum stelpunum mjög vel. Það er aðeins þreytandi að þurfa að tala íslensku allan tímann en stelpurnar eru mjög fínar.“

Dana verður, eins og allt íslenska landsliðið, í sviðsljósinu 19:30 anna

3. desember 2024 kl. 14:33

Einn besti leikmaður Íslands vill hjálpa öðrum

Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir hefur verið einn besti leikmaður Íslands á mótinu hingað til. Þorkell Gunnar settist niður með henni og ræddi lífið í Danmörku þar sem hún er í kennaranámi.

„Ég átti ekkert brjálæðislega góða grunnskólagöngu sjálf, mig langar bara að hjálpa krökkum sem líður illa. -Þannig að þú fórst í þetta nám út frá eigin reynslu? -Já.“

3. desember 2024 kl. 13:53

Hópurinn í dag

Ísland mætir Þýskalandi 19:30 í kvöld. Vinni Ísland er liðið komið áfram í milliriðla á EM, í fyrsta skipti í sögunni.

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari gerir tvær breytingar á hópnum frá leiknum gegn Úkraínu. Elísa Elíasdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir hvíla og inn koma þær Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Katrín Tinna Jensdóttir.

Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Aarhus (67/3) 
Hafdís Renötudóttir, Valur (65/4) 

Aðrir leikmenn:
Andrea Jacobsen, HSG Blomberg-Lippe (59/108) 
Berglind Þorsteinsdóttir, Fram (32/6) 
Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda (6/10) 
Díana Dögg Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe (60/80) 
Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukar (20/64) 
Elín Rósa Magnúsdóttir, Valur (27/51) 
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Kristianstad HK (21/11) 
Katrín Tinna Jensdóttir, ÍR (23/10) 
Perla Ruth Albertsdóttir, Selfoss (56/132) 
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Haukar (121/245) 
Steinunn Björnsdóttir, Fram (55/88) 
Sunna Jónsdóttir, ÍBV (98/66) 
Thea Imani Sturludóttir, Valur (86/186) 
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (144/411) 

Fleiri íþróttafréttir

Aðrir eru að lesa

Annað efni frá RÚV