„Aðeins þreytandi að tala íslensku allan tímann“
Dana Björg Guðmundsdóttir spilaði sína fyrstu landsleiki fyrir Ísland fyrr á árinu og er nú komin á EM með liðinu. Hún segist ánægð með valið og að landsliðsfélagarnir hafi tekið vel á móti sér.
Hún spilaði nokkuð mikið í seinni hálfleik í sigrinum gegn Úkraínu í gær: „Ég var aðeins spennt og þetta var smá scary. En það var skemmtilegt að vera þarna og fá að gera eitthvað, ekki bara að sitja á bekknum og klappa.“
„Ég þekkti bara Katrínu Tinnu [Jensdóttur], við vorum búnar að spila eitt ár í Volda. Mér finnst ég vera búin að kynnast hinum stelpunum mjög vel. Það er aðeins þreytandi að þurfa að tala íslensku allan tímann en stelpurnar eru mjög fínar.“
Dana verður, eins og allt íslenska landsliðið, í sviðsljósinu 19:30 annað kvöld þegar liðið mætir Þýskalandi í úrslitaleik um sæti í milliriðli.