„Fíla að koma eins og naut inn á völlinn“
„Þetta var ótrúlega gaman og eitthvað sem mann er búið að dreyma um lengi.“
Díana Dögg Magnúsdóttir kom inn í leik Íslands gegn Úkraínu af miklum krafti þegar Ísland þurfti á því að halda í seinni hálfleik.
„Það hlýtur að hafa sést að ég fíla þetta - að vera í „contact“ og að koma eins og naut inn á völlinn. Koma mér einhvern veginn inn í gegn, leita að þessari síðustu sendingu eða vinna mann. Mér finnst skemmtilegast að spila jafna leiki.“
Ísland er nú loks búið að vinna leik á EM og það í áttundu tilraun. Liðið er á leið í úrslitaleik gegn Þýskalandi á þriðjudaginn. Hvernig er tilfinningin? „Það er ógeðslega gaman. Sérstaklega á móti Þjóðverjunum. Maður þekkir þær vel og veit vel hvernig þær spila. Ég er alltaf að spila á móti þeim í deildinni.“