Ástralska Ólympíunefndin fordæmir undirskriftalista vegna þátttöku Raygun
Rachel Gunn, ástralska breikdanskonan, hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir að hún steig á sviðið í keppninni á Ólympíuleikunum í París. Ástralska ólympíunefndin berst nú gegn nafnlausri undirskriftasöfnun á netinu gegn breikdansaranum eftir frammistöðu hennar. Gunn, sem keppir undir gælunafninu „Raygun“, hefur fengið mikla neikvæða athygli eftir þátttöku sína á Ólympíuleikunum.
Hin 36 ára gamla Raygun olli miklu fjaðrafoki þegar hún endaði án stiga í breikdanskeppninni á Parísarleikunum. Það hefur leitt til gagnrýni og margir telja að hún hefði aldrei átt að vera send til Frakklands. Hún hefur einnig verið umfjöllunarefni í bandarískum spjallþáttum.
Auk þess hafa ýmsar óstaðfestar fregnir dregið þátttökurétt Gunn á Ólympíuleikunum í efa, eftir að undirskriftasöfnun hófst þar sem frammistaða hennar og hegðun var sögð „siðlaus.“ Ólympíunefnd Ástralíu segir þennan undirskriftalista ekki vera neinum sæmandi og segir hann „illgjarnan, villandi og algjört einelti.“
Keppni í breikdansi á Ólympíuleikum hefur verið hætt en þetta var í fyrsta sinn sem keppt hefur verið í greininni. Skipuleggjendur ÓL 2028 í Los Angeles hafa greint frá því að þar verði breikdans hvergi sjáanlegur sem ein af keppnisgreinunum.